151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Nú berast fréttir af auknu heimilisofbeldi í þriðju bylgju Covid-faraldursins sem má leiða líkur að að sé að stórum hluta vegna neyslu áfengis og vímuefna. SÁÁ hefur boðið börnum alkóhólista vandaða og ódýra sálfræðiþjónustu en sú fræðsla á stóran þátt í að hjálpa börnum að takast á við erfiðleika sem fylgja því að búa við áfengis- og vímuefnavanda. Þetta er forvarnastarf sem er mjög nauðsynlegt, líka til að börn geti gert sér grein fyrir því að sjúkur einstaklingur er í raun og veru tveir einstaklingar. Eins hefur SÁÁ boðið upp á foreldranámskeið fyrir foreldra barna sem eiga í vanda vegna fíknar. Á biðlista inn á Sjúkrahúsið Vog eru í dag um 500 einstaklingar.

Heyrt hef ég sorglegar fréttir af eldri borgurum sem hafa verið mjög einangraðir vegna Covid-faraldursins og heyrt sögur af því þar sem fólk er ósjálfbjarga vegna neyslu. Vandinn er mikið falinn í þessu ástandi en hann er þarna og á sjálfsagt eftir að aukast.

Engin hækkun er á fjárlögum til SÁÁ núna. Þó að einhver hækkun sé vegna vísitölu á milli ára þá er það engin raunhækkun. Sjálfsaflafé SÁÁ vegna álfasölu dróst saman um rúman helming á þessu ári vegna ástandsins. SÁÁ hefur sjálft borgað fyrir um 600 rúm á ári en nú mun það dragast saman um helming. Ég beini orðum mínum til fjárlaganefndar Alþingis um að taka á þessum vanda og koma myndarlega á móts við þau vanfjármögnuðu úrræði sem blasa við í starfsemi SÁÁ, sem hefur í áratugi sýnt fram á gríðarlega góðan árangur í meðferð fíknisjúkdóma svo eftir hefur verið tekið víða um heim.