151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

jöfn staða og jafn réttur kynjanna.

14. mál
[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni sem nefnir í andsvari sínu að þetta sé tímabært og ég er algjörlega sammála því. Það var líka tímabært að flytja þennan málaflokk yfir í forsætisráðuneytið, tel ég vera, til að tryggja aukna samþættingu í stjórnkerfinu. Það sýnir auðvitað að það skiptir máli hverjir skipa ríkisstjórn hverju sinni.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um fjölþætta mismunun og það kann vel að vera að þörf sé á að þætta það betur inn í lagatextann almennt. Þetta er nýmæli, eins og hv. þingmaður nefnir, og sprettur auðvitað af þeirri umræðu sem varð við undirbúning frumvarpsins, sem er sama umræða og farið hefur fram víða annars staðar um hversu langt eigi að ganga í útvíkkun jafnréttishugtaksins almennt, þ.e. hversu mikið eigi að útvíkka það. Niðurstaða mín varð að fremur en að útvíkka það með þeim hætti að við værum í raun og veru bara með eina jafnréttislöggjöf væri þörf á að hafa áfram sérstaka löggjöf um jafna stöðu kynjanna og síðan að auki þá tvo lagabálka sem ég nefndi hér áðan um jafna meðferð á vinnumarkaði. Ég tel að það sé rétt. Ég tel veigamestu rökin fyrir því að ganga ekki alla leið í þessu þau að við eigum enn langt í land að ná fullu jafnrétti kynjanna og það er full þörf á því að hafa sérstaka löggjöf um það. (Gripið fram í.)

Ætti að samþætta þetta betur? Ég segi: Það kann vel að vera að það sé rétt. Ástæðan fyrir því að það er ekki gert er einmitt þessi nýja hugsun sem við erum að færa inn í frumvarpið. Hvað varðar samráð við fatlaða er það í raun og veru rakið í samráðskaflanum hverjir komu að hinu formlega samráðsferli á vegum ráðuneytisins (Forseti hringir.) og síðan bara hina hefðbundnu leið í gegnum samráðsgátt Stjórnarráðsins.