151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

stjórnsýsla jafnréttismála.

15. mál
[15:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru tvö atriði sem ég vildi nefna, annars vegar vildi ég nota tækifærið til að halda því til haga að ég tel að í nefndarstarfinu þurfi aðeins að fara yfir það fyrirkomulag sem varðar það hvernig farið er með niðurstöður kærunefndar jafnréttismála, þ.e. hvernig málum verði stefnt fyrir dómstóla og þess háttar. Ég held að reynslan hafi sýnt að þörf sé á að breyta núverandi ákvæðum. En ég vil halda því til haga að ég er ekki alveg viss um þá leið sem liggur fyrir í frumvarpinu um það. En nóg um það, það verður þá verkefni nefndarinnar að ræða það aðeins út frá almennum sjónarmiðum um málsmeðferð í stjórnsýslunni og fyrir dómstólum.

En hitt atriðið sem ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra um varðar athugasemdir sem hafa komið fram hjá umboðsmanni Alþingis varðandi kærunefndina og niðurstöður hennar. Mig rekur minni til þess að í sumar, þegar frumvarp þetta var á samráðsgátt, hafi komið fram athugasemd frá umboðsmanni Alþingis við frumvarpið, m.a. út frá forsendum eða byggt á þeirri athugasemd umboðsmanns um að kærunefndin hefði í einhverjum tilvikum farið út fyrir verksvið sitt í sambandi við það að leggja mat, sjálfstætt mat, á hæfni umsækjenda um störf, hún hefði sem sagt farið í raun og veru út fyrir verksvið sitt samkvæmt jafnréttislögum, hefði ekki skoðað málin eingöngu út frá sjónarmiðum jafnréttislaga heldur hefði verið komin út í miklu almennari (Forseti hringir.) stjórnsýslulega skoðun á réttmæti ákvarðana um starfsráðningar fyrst og fremst.