151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

stjórnsýsla jafnréttismála.

15. mál
[15:48]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Ég velti fyrir mér hvort hv. þm. Birgi Ármannssyni hafi þótt forsætisráðherra of formleg þegar hún ræddi um veitingarvaldshafa, og væru það þá ákveðin tímamót ef þessi tiltekni hv. þingmaður telur of langt gengið í formlegu málfari.

En það sem mig langaði að nefna er að það er auðvitað ágætlega fjallað um þetta í greinargerð hins frumvarpsins sem ég mælti fyrir áðan, þar sem í 19. gr. er fjallað um mismunun á grundvelli kyns þegar kemur að bæði ráðningum og í starfi. Þar er sett fram sönnunarreglan og hins vegar matsreglan, þ.e. að sá sem telur á sér brotið þarf að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að við ráðningu í starf hafi verið beint eða óbeint mismunað á grundvelli kyns. Takist kæranda að leiða líkur að slíkri mismunun færist sönnunarbyrðin yfir á atvinnurekanda eða veitingarvaldshafa, ef við erum mjög formleg, sem verður þá að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Við þetta hefur umboðsmaður gert þá athugasemd að það sé ekki kærunefndar að fara ofan í ferlið frá A til Ö. En spyrja má að því, eins og ég nefndi hér áðan, því að sjaldan er slík mismunun svo rækilega uppi á yfirborðinu að hún standi einfaldlega í rökstuðningi. Og þá er kærunefnd jafnréttismála kannski ákveðinn vandi á höndum, því að hvernig á að meta það að einhverjar ómálefnalegar aðstæður hafi legið til grundvallar ef ekki á að fara ofan í hvern einstakan þátt í ráðningarferlinu? En að því sögðu er það mín niðurstaða að þarna séu töluverður, hvað getum við sagt, lögfræðilegur ágreiningur milli helstu sérfræðinga á þessu sviði og mér finnst það jákvætt að nefndin fari vel ofan í þau mál. Í þessu frumvarpi er leitast við að ráðast í úrbætur (Forseti hringir.) án þess að það sé endilega svo að við séum með öll lokasvörin.