152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

skipan ráðherra.

[13:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það var nú víða komið við. Mig langar að byrja á því að tala um stöðugleikann sem komið var inn á. Ríkisstjórninni er umhugað um stöðugleika í efnahagsmálum, stöðugleika í stjórnarfari og stöðugleika bara fyrir fólk og fyrirtæki. Það hefur ekkert með það að gera hvort við getum gert breytingar á Stjórnarráðinu. Höfum ekki áhyggjur af því þó að þar ríki ekki nákvæmlega sami stöðugleikinn, hvorki fyrir stjórnmálamenn né aðra sem sinna verkefnum í Stjórnarráðinu, vegna þess að þar skiptir miklu meira máli að stjórnkerfið styðji við áherslur ríkisstjórnarinnar og þarfir þjóðfélagsins.

Nú fyrst aðeins um þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Við erum víst 17 en ekki 18 en eflaust eru a.m.k. 18 Sjálfstæðismenn í þinginu. [Hlátur í þingsal.] Ég er spurður að því hvort Jón Gunnarsson sé besta dómsmálaráðherraefni Sjálfstæðismanna. Hann er a.m.k. að mínu áliti mjög gott ráðherraefni og ég hef fært fyrir því rök að hann hafi mjög sterkt lýðræðislegt umboð, bæði úr kosningum og eins innan flokksins sem ritari flokksins. Hann hefur reynslu sem snertir margra þá málaflokka sem er fengist við í dómsmálaráðuneytinu. Ég nefni sérstaklega allt sem snýr að almannavörnum og sú reynsla sem hann kemur með þar. En svo hefur hann líka lengi verið á þingi og hefur áður gegnt ráðherraembætti. Þannig að já, ég verð nú að segja það að ég held að ég hafi valið góðan mann til að tilnefna og þingflokkurinn hafi samþykkt gott ráðherraefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn í dómsmálaráðuneytið.