152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

kostnaður við breytingar á ráðuneytum.

[13:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég stenst ekki mátið í ljósi orðaskiptanna hér áðan, fyrst hæstv. fjármálaráðherra telur að Sjálfstæðismenn gætu verið alla vega 18 eða fleiri hér í þinginu, að velta fyrir mér hvernig hæstv. ráðherra skilgreini Sjálfstæðismenn. [Hlátur í þingsal.] Því að mér hefur sýnst að þótt hæstv. ráðherra og flokkur hans séu ágætismannaveiðarar, eins og dæmin sanna, þá vilji nú kvarnast úr hugsjónunum þegar menn eru komnir í þennan flokk eða a.m.k. komnir í embætti. Eru ekki síðustu raunverulegu Sjálfstæðismennirnir löngu farnir, þannig að þeir eru ekki 18, held ég, herra forseti, heldur jafnvel enginn á þinginu í dag? Ég veit það ekki, ég velti því fyrir mér.

En þetta lýtur að spurningu minni til hæstv. ráðherra. Hún snýr að þremur stórum málum sem ríkisstjórnin stóð fyrir eða lagði fram nú við upphaf þings: Í fyrsta lagi stjórnarsáttmála, í öðru lagi þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og í þriðja lagi að fjárlögum. Það virðist vera furðulítið samhengi milli þessara þriggja grundvallarmála sem koma þó fram nokkurn veginn á sama tíma. Og þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi gefið sér mjög langan tíma til að komast að þeirri niðurstöðu hvernig hún ætlaði að halda áfram að starfa saman er alveg ótrúlega margt óljóst við þetta allt saman og samhengið ekki til staðar.

Ég ætla að reyna að afmarka spurninguna til hæstv. ráðherra og spyrja hann: Hver verður kostnaðurinn við þær breytingar á ráðuneytum sem áformaðar eru og eru að einhverju leyti komnar til framkvæmda með skipan ráðherra án þess að embættismenn og stjórnkerfið hafi að öðru leyti færst til á sama hátt? Hver verður kostnaðurinn við þessar breytingar á Stjórnarráði Íslands?