152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

kostnaður við breytingar á ráðuneytum.

[13:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður telur að það hafi eitthvað kvarnast úr hugsjónum hjá Sjálfstæðismönnum yfir tíma. Ég get nú ekki tekið undir það en það verður sitt að sýnast hverjum í þessu. Það er a.m.k. ekki þannig að það sé mikið að kvarnast úr þingflokknum hjá okkur eða úr hópi fylgismanna Sjálfstæðisflokksins. Það skiptir máli. Það skiptir máli að maður haldi fylginu og það skiptir máli að halda þingmönnum á þingi ef menn vilja koma hugsjónum sínum í framkvæmd.

Hér er komið inn á að það sé erfitt að átta sig á samhengi stjórnarsáttmála, þingmálaskrár og hvernig fjárlög styðji síðan við hvort tveggja. Ég verð að segja að mér finnst margt hafa verið sagt í þessu efni sem kemur dálítið spánskt fyrir sjónir, sérstaklega í ljósi þess að hér eru flokkar sem hafa starfað saman frá árinu 2017 að framlengja samstarfið. Í sjálfu sér má svo segja að það hafi ekki verið nein nauðsyn þess vegna að skila stjórnarsáttmála akkúrat á þessum tímapunkti. Það hefði verið hægt að taka lengri tíma í það, en meðal þess sem við ákváðum að gera, fyrir utan það að koma með stjórnarsáttmálann, var já, að stokka upp Stjórnarráðið og hér er spurt um kostnaðinn. Ég treysti mér ekki til að setja tölu á bak við það en það er ljóst að með því að stofna nýtt ráðuneyti, fleiri en eitt, þá mun verða kostnaður og hann getur hlaupið á hundruðum milljóna þegar upp er safnað fyrir fleiri en eitt ráðuneyti. Það getur vel verið niðurstaðan en ég vænti þess að hægt sé að fara betur ofan í saumana á þessu þegar þingsályktunartillaga um þetta efni verður lögð fyrir Alþingi, þ.e. það verður ekki stofnað nýtt ráðuneyti án þingsályktunartillögu. En þann kostnað finnst mér að við eigum að setja í samhengi við fjárlögin í heild og öll þau verkefni sem ríkið sinnir.