152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

efnahagsaðgerðir og húsnæðismál.

[13:25]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar Covid skall á lagði hæstv. fjármálaráðherra áherslu á að brúarlán með ríkisábyrgð myndu veita einn mesta stuðninginn. Sérstaklega var liðkað fyrir getu bankanna til að veita lán til þess að fylgja þessu eftir. Ábendingar bárust um að betra væri að ríkið kæmi fjármagninu beint til þeirra sem þyrftu og hratt. Bankarnir myndu beina útlánasvigrúmi inn á íbúðamarkað á áhættutímum og ójafnvægi skapast. Því var svarað með þeim hætti að spurt yrði að leikslokum. Hver urðu leikslok? Efnahagsbatinn varð hraðari en spáð var en undir yfirborðinu hefur skapast gríðarlegt ójafnvægi. Nær engin brúarlán voru veitt en ótrúlega mikið fjármagn hefur lekið inn á íbúðamarkað og aðra eignamarkaði í stað þess að drífa áfram nýja fjárfestingu. Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands lýsti því yfir í gær að kerfisáhætta færi nú vaxandi vegna hækkandi íbúðaverðs og skulda heimilanna. Aukna áhættu má merkja í greiðslubyrði, sérstaklega hjá fyrstu kaupendum og veðsetningarhlutföll hafa hækkað. Seðlabankinn hefur áhyggjur af því að hraðar eignaverðshækkanir verði til þess að skuldsetning aukist enn frekar sem þrýstir enn meira á íbúðaverð.

Virðulegi forseti. Fasteignaverð hefur hækkað um 50% umfram ráðstöfunartekjur fólks á síðustu 30 árum. Langtímastefna hefur verið nær engin í þessum málaflokki. Svo var beinlínis ráðist í aðgerðir sem ýkja vandann. Afleiðingarnar eru þær að við förum inn í kjaraviðræður með háa verðbólgu og mjög hátt fasteignaverð en engin viðbrögð berast frá ríkisstjórninni. Einu svörin eru þau að þetta sé líka að gerast á alþjóðavísu. Telur hæstv. ráðherra virkilega að ríkisstjórnin eigi ekki að hafa neina aðkomu að stærsta efnahags- og kjaramáli þjóðarinnar?