152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

efnahagsaðgerðir og húsnæðismál.

[13:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég nefndi í sjálfu sér ekki sveitarfélögin í mínu svari. Ég var einfaldlega að vísa til þess að ég heyri það frá þeim sem eru að vinna að uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu að það gangi illa að fá lóðir til að byggja upp. Þetta er bara síðan í gær. Að sjálfsögðu vill maður fyrst og fremst sjá árangur. Ég hef engan áhuga á því að standa í einhverju karpi við sveitarstjórnarstigið um það hvor beri meiri ábyrgð á því að ekki gangi eftir áform um að styðja betur við félagslegt húsnæði. Við höfum verið mjög skýr. Við höfum skapað hér lagarammann, við höfum tryggt góða fjármögnun, fjármögnun hefur ekki skort og reyndar er það svo að um þriðjungur af húsnæði sem er verið að reisa á stuðning í þessum kerfum í dag. En húsnæðismarkaðurinn er hins vegar ákveðið áhyggjuefni og ekki síður nýjustu tölurnar um að húsnæðisverð á Íslandi sé komið úr öllu samhengi við byggingarkostnað. Það er líka áhyggjuefni og sýnir ákveðinn markaðsbrest sem við þurfum að fylgjast með. Við þurfum að huga að þeim sem eiga í erfiðleikum með að komast inn á húsnæðismarkaðinn (Forseti hringir.) en við þurfum líka að hafa augun á öllum hinum sem eru komnir inn á markaðinn. Þar skipta máli þessar ábendingar frá Seðlabankanum um aukna skuldsetningu og viðleitni til að halda aftur af verðbólgu.