152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

sjávarútvegsmál.

[13:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og fyrir að rifja ítrekað upp ágæta ræðu mína frá því um árið varðandi fiskveiðistjórnarkerfið. Ég held að okkur sé öllum ljóst að leiðarljós okkar allra sem hér erum, að því er varðar mikilvæg grundvallarkerfi sem fiskveiðistjórnarkerfið, hlýtur alltaf að vera almannahagur, hlýtur alltaf að vera hagur samfélagsins alls en ekki fárra, hlýtur alltaf að vera hagur lífríkisins alls en ekki ágengrar nýtingar.

Í stjórnarsáttmálanum er mér í raun falið að leggja undirstöðu að nýrri nefnd. Og kynnu margir að segja: Bíddu, er þá þörf á fleirum? Er þörf á fleiri nefndum í þessum geira? Ég vil þá rifja upp og nefna nefnd sem varð til hér á vegum þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, nú hv. þingmanns, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sem ég átti sæti í á árinu 2017, og fjallaði einmitt um áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og snerist um að meta fiskveiðistjórnarkerfið, meta þjóðhagslegan ávinning af því, en jafnframt að leggja fram tillögur til að hámarka möguleika okkar til frekari árangurs og þá einnig samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar. Þetta verkefni tek ég mjög alvarlega og ég vænti þess að kalla að borðinu sem fjölbreyttust sjónarmið og vona að hv. þingmaður og hans stjórnmálahreyfing muni leggja þar gott til.