152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

sóttvarnaaðgerðir og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:03]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir yfirferðina. Það er mikilvægt að við höfum það í huga að Alþingi er ekki bara vettvangur löggjafar heldur líka vettvangur lýðræðislegrar umræðu og það væri ekki úr vegi að löggjafinn hefði meiri og betri aðkomu að eins mikilvægum ákvörðunum og hafa verið teknar hérna undanfarna mánuði og ár. Nágrannar okkar, Danir, hafa til að mynda lögfest aðkomu þingsins að slíkum ákvörðunum.

Þessum stutta tíma sem ég hef hér í pontu ætla ég að verja í þágu barna í landinu því þó að við segjum að við séum öll saman í þessari baráttu við kórónuveiru, að við þurfum öll að leggja okkar af mörkum, þá er ljóst að framlagið er mjög mismikið. Þá er ég ekki að tala um launað vinnuframlag. Af því að hæstv. heilbrigðisráðherra vísaði gjarnan til tölfræði í sinni yfirferð þá er það óumdeilt að börnum stafar lítil hætta af Covid, í það minnsta ekki meiri hætta en af ýmsum öðrum sýkingum. Þrátt fyrir það hafa þau í tæp tvö ár sætt ítrekuðum takmörkunum, röskunum á skólagöngu og íþrótta- og tómstundastarfi og einangrun frá vinum og vandamönnum. Þótt okkur kunni að finnast eins og tíminn hafi flogið þá eru tvö ár mjög langur og mikilvægur þroska- og uppvaxtartíminn fyrir börn. Fjölmörg dæmi eru um að íslensk börn hafa þurft að sæta endurtekinni sóttkví til langs tíma og með tilheyrandi þvinguðum sýnatökum. Þetta er mikið inngrip í daglegt líf þessara barna, raunveruleg frelsisskerðing. Sóttkví hefur áhrif á líf barnanna sjálfra og foreldra og forráðamanna. Óttinn við sóttkví er sums staðar orðinn svo mikill hjá börnum að foreldrar verða varir við verulegan kvíða og uppnám í tengslum við umræðu um skólasmit. Þá fylgir auðvitað sú ósagða ályktun sem fer ekki fram hjá börnunum að þau séu á einhvern hátt hættuleg umhverfi sínu, þau séu smitberar og geti valdið sínum nánustu skaða. Börnin okkar hafa eytt fjölmörgum dögum heima þar sem þau reyna að láta lítið fyrir sér fara til að trufla ekki heimavinnu hjá mömmu og pabba. Börn hafa misst úr skólamáltíðir á þessum tíma og þannig orðið af næringarríkustu máltíð dagsins vegna bágra aðstæðna og allt of mörg börn hafa verið einangruð í skaðlegum aðstæðum heima fyrir og munu aldrei bíða þess bætur.

Forseti. Nú þegar við, sem erum ein best bólusetta þjóð heims, tölum áfram um að taka ákvarðanir og grípa til aðgerða fyrir samfélagið allt, tölum um að standa saman, skulum við hafa eftirfarandi í huga: Þegar ákvarðanir eru teknar sem varða málefni barna á samkvæmt lögum það sem er barni fyrir bestu alltaf að hafa forgang. Börn eiga skýlausan lagalegan rétt til náms og til að njóta réttinda í samræmi við aldur og þroska. Þau eiga rétt á því að vera vernduð og þeim sé sýnd virðing og umhyggja. Það er skylda okkar sem samfélags að vernda börnin okkar fyrir því sem ógnar lífi þeirra og heilsu. Þar er Covid ekki ofarlega á lista en andlegur heimsfaraldur hins vegar þeim mun ofar. Það er samfélagsleg ábyrgð okkar að vernda þá sem eru viðkvæmari. Um það erum við sóttvarnalæknir sammála. En við skulum ekki gleyma því að börn eru sannarlega viðkvæmur hópur og þegar upp verður staðið verður mestur skaðinn af Covid fyrir börn vegna þeirra umfangsmiklu aðgerða sem þau hafa þurft að sæta til að komast hjá því að smitast af veiru sem gerir þeim sáralítinn skaða. Það er þeirra framlag og það er ekki lítið.

Forseti. Siðferðilegt mat á því hversu langt er rétt að ganga á mikilvæg réttindi barna til að vernda aðra en þau sjálf þarf að fara fram. Við þurfum að meta hvort við ætlum að vera samfélag þar sem við förum fram á það við börn að þau taki áfram á sig byrðar til að vernda þá sem eru eldri eða hvort við erum samfélag þar sem fullorðið fólk tekur á sig byrðar til að vernda börnin. Og hvaða vettvangur er betri til að ræða það heldur en hér á virðulegu Alþingi? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)