152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

sóttvarnaaðgerðir og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:08]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að óska hæstv. heilbrigðisráðherra til hamingju með embættið og þakka honum fyrir að flytja okkur hér skýrslu um heimsfaraldur, en megi þær verða sem allra allra fæstar. Mig langar líka að segja að mér fannst það fyrirkomulag sem við höfðum á síðasta kjörtímabili öllu líflegra og skemmtilegra þar sem maður átti í samtali við hæstv. heilbrigðisráðherra.

Ég hygg að ég og hæstv. ráðherra höfum setið saman í efnahags- og viðskiptanefnd þegar Covid skall á, a.m.k. sat ég þá þar og verð að viðurkenna að maður hafði alveg gríðarlegar áhyggjur af því í hvað stefndi. Maður sá fyrir sér annað hrun, maður sá fyrir sér fjöldaatvinnuleysi, gjaldþrot og jafnvel að fjölskyldur myndu missa heimili sitt. Sem betur fer varð það ekki raunin og við ræðum það einmitt þessa dagana í kringum fjárlögin og fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar að við höfum náð gígantískum árangri þegar kemur að því að bregðast við efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins. En aldrei hefði mig grunað á þeim tíma að ég hefði þá farið þrisvar sinnum í Laugardalshöllina í einhvers konar hópbólusetningu og gengi um með grímu við dagleg störf. Það er engu að síður sá raunveruleiki sem við búum í. Ég ætla að taka undir með mörgum sem hafa tekið til máls hér í dag að ég held að við höfum í upphafi náð mjög miklum árangri, enda var til okkar horft. Það var kannski það góða að sjá hvað kerfið okkar, jafnvel heilbrigðiskerfið og Landspítalinn, þessi risastóra ríkisstofnun sem maður var oft hræddur við að gæti hreinlega ekki breyst, gat breyst á núll einni. Þegar við þurftum að bregðast við var hægt að breyta ferlum. Það var hægt að bregðast við með sérstökum Covid-deildum, göngudeildum. Það var hægt að fá fólk til starfa til að hringja í fólk sem var veikt eða sýkt af Covid á þeim tíma, allt frábært.

Hæstv. ráðherra, nú þurfum við að vita hvert framtíðarplanið er því nú erum við á öðrum stað en við vorum í upphafi. Þá veltir maður fyrir sér hvort aðföngum okkar, fjármunum og kröftum okkar öfluga heilbrigðisstarfsfólks sé ekki betur varið í að sinna þeim sem eru raunverulega veikir en ekki í það að hafa samband við fólk sem kann að vera sýkt af Covid en sem betur fer, vegna árangurs okkar í bólusetningum, finnur til lítilla sem engra veikinda. Ég ætla því að taka undir spurningu hv. þm. Hildar Sverrisdóttur hérna fyrr í dag: Hvert er framtíðarplanið?

Mig langar líka að taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Diljár Mistar Einarsdóttur áðan varðandi börnin. Það er eitthvað sem við verðum að fara að ræða af fullri alvöru. Ég átta mig á því að við á Íslandi erum það lánsöm að það hefur nánast ekki fallið niður kennsla í grunnskólum hér á landi. Ég held að það sé einn dagur heilt yfir en auðvitað hefur þurft að loka skólum og bekkjardeildum vegna smita. Nú verðum við að fara að velta fyrir okkur hvaða áhrif þetta hefur til lengri tíma þegar við glímum við þessar miklu hamlanir.

Þá ætla ég að endurtaka það sem ég hef sagt hér áður, bæði í umræðum við fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra og einnig þegar við ræddum sóttvarnalög: Við getum ekki verið hér með langtímatakmarkanir á samfélagi þar sem við skerðum mannréttindi og frelsi fólks án þess að lýðræðislega kjörið þing fái tækifæri til að fjalla um þær skerðingar. Það kann vel að vera að það sé full ástæða til að bregðast við í sóttvarnalögum með einhverjum hætti ef hér kemur upp heimsfaraldur og sýkingar. En það hlýtur líka að vera skýlaus krafa okkar sem hér erum kjörin af þjóðinni að fá að fjalla um þær takmarkanir Mig langar að hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til þess, þegar þessi faraldur fer að sigla undir lok, sem hann gerir vonandi, að taka aftur upp sóttvarnalögin sem við samþykktum hér ekki alls fyrir löngu breytingar á með þeim formerkjum að við myndum þurfa að huga að þeim aftur einmitt út frá þeim þætti hvort ekki sé nauðsynlegt að þingið fjalli um það þegar verið er að setja takmarkanir á líf fólks til lengri tíma litið. Það eru mörg önnur sambærileg dæmi sem hægt er að nefna í lögum, hvort sem það er í fjárlögum, um sölu banka eða annað þess háttar, þar sem er heimild til handa ráðherra en engu að síður krafa um að fjallað sé um það á lýðræðislegum vettvangi þingsins.