152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

aðgerðir gegn kynferðisbrotum og aukinn stuðningur við þolendur.

16. mál
[15:37]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Frú forseti. Ég vil koma hingað upp til að fagna þeirri þingsályktunartillögu sem hér er komin fram og snýr að aðgerðum gegn kynferðisbrotum og auknum stuðningi við þolendur þeirra. Að mínu viti er um að ræða afar brýnt og mikilvægt mál og ég fagna því innilega að það sé tekið fyrir hér á þessum vettvangi enda málið bæði mikilvægt og ekki síður viðkvæmt. Ég fagna því að við séum komin á þann stað hér að ræða þessa annars ágætu þingsályktunartillögu sem fyrir þinginu liggur. Ég vil líka þakka fyrir þá ítarlegu og góðu greinargerð sem fylgir, hún er afar gagnlegt plagg og ég hvet þingmenn til að kynna sér hana vel. Þar er mjög mikið af upplýsingum sem eru góðar og gagnlegar til að fá betri innsýn inn í þennan málaflokk og það mál sem hér um ræðir.

Sem lögreglumaður í nær aldarfjórðung hef ég fengið innsýn inn í þennan málaflokk. Ég geri mér því fullkomlega grein fyrir þeim alvarleika og þeim sárum og eftirköstum sem þolendur þurfa að vinna úr og í mörgum tilfellum árum saman og í sumum tilfellum ævilangt.

Ég tek undir það sem kemur fram í frumvarpinu um mikilvægi þess að rannsókn kynferðisbrota hjá lögreglunni verði efld og aðgengi að símenntun lögreglumanna og starfsfólks innan lögreglunnar sömuleiðis. Ég fagna þessu sérstaklega og þeim kafla þar sem talað er um aðgengi að símenntun, bæði lögreglumanna og starfsfólks innan lögregluembættanna. Það er allt of oft sem við erum of fókuseruð á lögregluna sjálfa en gleymum því að innan raða lögreglunnar er gríðarlega mikið af sérfræðingum og borgaralegum starfsmönnum sem að sjálfsögðu þurfa sína endurmenntun og koma oft að þessum málaflokki ekki síður en lögreglumennirnir sjálfir. Ég fagna þessu því sérstaklega.

Ég tek líka undir það sem kemur fram í greinargerðinni varðandi fjölda lögreglumanna, að eigi menn að komast í gegnum þann stabba sem á borðinu er verði það ekki gert öðruvísi en að fjölga lögreglumönnum. Ég er algerlega sammála þeirri nálgun og þeirri niðurstöðu. Lögreglan hefur kallað eftir því undanfarin ár að fá fjölgun, sérstaklega inn í rannsóknardeildirnar hjá sér, varðandi þessi mál, kynferðisbrotamálin, sem eru erfið og flókin í rannsókn. Það krefst mannafla að fara í gegnum þessi mál og ég get ekki séð aðra leið en þá, vilji menn gera bragarbót á þessu, að fjölga verulega þeim höndum sem vinna í þessum málaflokki. Þetta var gert samhliða aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota sem tók gildi 2018 og gildir til ársins 2022. Samhliða henni var sett fjármagn til flestra embætta landsins, þeirra embætta sem eru með rannsóknardeildir — og ég segi flestra vegna þess að kynferðisbrot sem framin eru á Norðurlandi vestra eru rannsökuð hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra og þar af leiðandi kom stöðugildi þangað og það var til mikilla bóta.

En ég segi bara: Betur má ef duga skal. Við þurfum að gera betur, það er alveg ljóst. Við þurfum að spyrna við fótum í þessum málaflokki ef við ætlum að ná að koma okkur áfram. Ég fagna því þessu mikilvæga frumvarpi og styð það heils hugar og tek undir mikilvægi þess eins og kemur fram í þessari ágætu þingsályktunartillögu.