152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

129. mál
[16:51]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir spurningarnar sem ég hef fengið. Ég er alveg sammála því að þetta hlýtur eiginlega vera grunnatriði í öllum rekstri, alveg sama hvar við erum; við eigum alltaf að leita leiða til að nýta peningana sem best. Og ef það er hægt að veita sömu þjónustu, a.m.k. sambærilega þjónustu, skulum við segja, fyrir minna fjármagn þá gerum við það auðvitað og eigum alltaf að gera það. Það er útgangspunktur í öllu hjá okkur, þ.e. að fara vel með fé almennings.

Ríkisútvarpið á ekki að vera óumbreytanlegt. Það þarf ekkert endilega alltaf að vera í þessari stærð. En mér hefur þótt skynsamlegra að hlusta á þær raddir sem tala fyrir því að ef það á að takmarka tekjustofna Ríkisútvarpsins, hvort sem það eru bein fjárframlög eða umsvif þess á auglýsingamarkaði, þá verði eitthvað að koma á móti sem tryggir það að þjónustan sé veitt. Þetta er í raun og veru, finnst mér, sama umræða og með heilbrigðiskerfið. Þetta er í raun og veru bara spurning um að við séum að veita tiltekna þjónustu. Ef hægt er að gera það með ódýrari hætti þá gerum við það. En ef það kostar það sem það kostar í dag þá eru það útgjöld sem eru réttlætanleg að mínu viti.

Ég er þeirrar skoðunar og tek alveg undir það — ég hef auðvitað heyrt það hvernig forsvarsmenn einkarekinna miðla tala um þessa samkeppni. Þeim finnst hún ekki vera á jafnréttisgrundvelli og ég ætla ekkert að gera lítið úr því. Þess vegna hefur mér fundist koma til greina að losa mögulega um fjármagn á auglýsingamarkaði, sem einkaaðilar sætu þá kannski frekar að með einhverjum hætti, einhverri góðri útfærslu sem hentaði báðum aðilum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þeir sem reka einkareknu miðlana ofmeti svolítið að allt fjármagnið sem færi þá ekki lengur í auglýsingarnar á RÚV færi endilega yfir á einkareknu miðlana. Ég held að það sé pínulítið flóknara en svo. Á meðan við erum ekki búin að finna eitthvert endanlegt framtíðarfyrirkomulag þá styð ég alveg þá leið sem við fylgjum og erum endalaust að ræða, hvort hreinlega bein fjárframlög úr ríkissjóði sé leið til þess að koma til móts við rekstrarvanda einkarekinna miðla, (Forseti hringir.) vegna þess að þeir eru svo sannarlega mikilvægir í samfélaginu rétt eins og Ríkisútvarpið — og ekki síður.