152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

þjóðarátak í landgræðslu.

96. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um þjóðarátak í landgræðslu í forföllum fyrsta flutningsmanns tillögunnar sem er hv. 9. þm. Norðaust., Þórarinn Ingi Pétursson. Aðrir flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu eru sú sem hér stendur, Líneik Anna Sævarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Ingibjörg Ólöf Isaksen, Jakob Frímann Magnússon, Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson og Njáll Trausti Friðbertsson. Tillagan liggur fyrir á þskj. 96 og hefur málsnúmerið 96. Tillagan var áður flutt á 150. löggjafarþingi, var þá 365. mál, og er nú endurflutt nær óbreytt en tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að koma fyrir lok árs 2022 á samstarfi stjórnvalda, bænda, Landgræðslunnar, atvinnulífs og almennings sem miði að því að auka þátttöku almennings í kolefnisbindingu með landgræðslu og hefja þar með þjóðarátak í landgræðslu.“

Ég ætla að drepa á ýmsu hér úr greinargerðinni en byrja kannski á því að vekja athygli á því að með því að tala um samstarf stjórnvalda er auðvitað átt við ýmsar ríkisstofnanir en ekki síður sveitarfélög og þeirra stofnanir.

Með tillögunni er lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði falið að sjá til þess að komið verði á fót vettvangi fyrir samstarfi stjórnvalda, Landgræðslunnar, bænda, atvinnulífs og almennings sem miði að því að auka þátttöku almennings í kolefnisbindingu með landgræðslu og gera þannig þjóðarátak í landgræðslu. Samstarfsvettvangi þessum verði komið á fyrir lok árs 2022.

Markmið tillögunnar er að auka kolefnisbindingu, koma í veg fyrir jarðvegsrof og græða upp örfoka land með aukinni þátttöku almennings í landgræðslu.

Samstarfsvettvangurinn hafi að fyrirmynd átakið Bændur græða landið, samstarfsverkefni bænda og Landgræðslunnar um uppgræðslu heimalanda, sem hefur verið starfrækt frá árinu 1990 og gefið góða raun.

Með aukinni umhverfisvitund og fræðslu til almennings hafa æ fleiri fyrirtæki boðið viðskiptavinum upp á að kolefnisjafna viðskipti sín. Þátttaka atvinnulífsins í verkefninu gæti falist í því að bjóða upp á kolefnisjöfnun viðskipta með landgræðslu. Þannig yrði þátttaka almennings tvíþætt, annars vegar með beinni þátttöku í landgræðslu undir leiðsögn Landgræðslunnar, hins vegar með kolefnisjöfnun viðskipta sinna.

Markmið þessarar þingsályktunartillögu falla vel að stjórnarsáttmálanum, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir árin 2018–2030 sem og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, markmiði nr. 13: Aðgerðir í loftslagsmálum.

Aðrir alþjóðasamningar sem samvinnuverkefnið gæti verið liður í að uppfylla eru: Parísarsáttmálinn, Samningur Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun sem hefur verið í gildi hér á landi frá árinu 1996, alþjóðlegir samningar um líffræðilega fjölbreytni sem fullgiltir voru á Alþingi árið 1994 og rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem tók gildi hér á landi árið 1994.

Jarðvegur er mikilvæg auðlind. Hann er undirstaða mestallrar matvælaframleiðslu heimsins en jarðvegseyðing er ein mesta ógn mannkyns. Eyðing gróðurs og jarðvegs hefur um langa hríð verið eitt helsta umhverfisvandamál á Íslandi. Flutningsmenn leggja því til að farið verði í þjóðarátak í landgræðslu enda hafi fáar þjóðir eins góð tækifæri og Íslendingar til að draga úr losun vegna landnotkunar og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.

Þar með hef ég farið yfir helstu atriðin úr greinargerðinni og í raun er tillagan nokkuð opin þannig að ráðherra hefði nokkuð frjálsar hendur um útfærsluna. Í raun felast fyrirmæli fyrst og fremst í því að komið verði á samstarfsvettvangi.

Þegar tillagan var flutt á 150. þingi bárust umhverfis- og samgöngunefnd sex umsagnir um hana. Þær umsagnir voru almennt jákvæðar en í þeim var bent á margt sem taka þyrfti til skoðunar í vinnu samkvæmt tillögunni. Margt jákvætt er hægt að sækja þangað og þar má finna góðar ábendingar.

Sú sem hér stendur telur að takist vel til með úrvinnslu þessarar tillögu geti hún leitt til fjölbreyttra verkefna við endurheimt landgæða sem og fjölbreyttrar annarrar ræktunar þar sem notaðar væru ólíkar landgræðsluaðferðir og fjölbreyttar tegundir til landgræðslu og kolefnisbindingar. Það er engin ein leið í landgræðslu og ein aðferð útilokar ekki aðra heldur þarf að huga að mismunandi aðstæðum á landi og mismunandi markmiðum með landnýtingu. Verðug markmið landgræðslu geta, eins og við þekkjum, verið margs konar, m.a. vernd jarðvegs, hefting jarðvegsrofs og sandfoks, græðsla gróðurlausra og gróðurlítilla landsvæða, gróðurvernd, sem stuðlar að eflingu gróðurs til að auka mótstöðuafl lands gegn eyðingu, svo sem vegna eldgosa eða annarra náttúruhamfara og varnir gegn landbroti af völdum fallvatna, sem geta valdið tjóni á landi eða mannvirkjum. Síðan eru auðvitað fjölþætt markmið í skógrækt og landgræðslu, t.d. til að bæta aðstæður til útivistar og koma upp beitilandi eða nothæfu landbúnaðarlandi þar sem markmiðin eru önnur. Það sem fyrst og fremst er sameiginlegt er að vernda jarðveg og koma upp gróðri.

Við eigum líka fjölbreytt samstarfsverkefni sem verið er að vinna þar sem m.a. er verið að koma lífrænu efni aftur inn í hringrás gróðurs. Gott dæmi um það er þróunarverkefni sem nú er komið í gang í Skútustaðahreppi, þar sem verið er að nota lífrænan úrgang úr fráveitu Skútustaðahrepps til uppgræðslu á Hólasandi; verkefni þar sem verið er að taka seyru úr skólpi í byggð við Mývatn og nýta hana til uppgræðslu á illa förnu landi á Hólasandi. Það eru eflaust mörg tækifæri fyrir fleiri verkefni af þessu tagi. Það er mikið af lífrænum úrgangi sem fellur til við matvælaframleiðslu, við landbúnað, á útivistarsvæðum í þéttbýli og við getum og eigum að hugsa miklu betur um það hvernig við getum komið þeim úrgangi aftur inn í hringrásina og nýtt hann til að græða upp land eða sem áburð á land sem þarfnast áburðar. Oft er það hindrun í landgræðslu að það vantar lífrænt efni til að binda fræ og rætur og þannig veldur frostlyfting því að plöntur sem komast á legg á fyrsta sumri eyðileggjast á fyrsta eða öðrum vetri. Í þurrkum eins og voru á Norður- og Austurlandi síðasta sumar var svo augljóst hvar vantaði lífrænt efni til þess annars vegar að binda vatn yfir sumarið og hins vegar til að verja gegn frostlyftingu yfir veturinn.

Á Íslandi getur meira kolefni bundist jarðvegi en víða á suðlægari slóðum þar sem rotnun er hraðari, auk þess sem efnasamsetning jarðvegsins bindur sérstaklega mikið lífrænt efni. Við eigum mikið verkefni fyrir höndum við að styrkja gróðurþekju mólendisins. Þegar jarðvegur sem inniheldur lífrænt efni fýkur, það er gott að muna það, tapast mikið kolefni út í andrúmsloftið og með því að styrkja og auka gróðurþekju er bæði hægt að binda meira kolefni í gróðri og koma í veg fyrir að kolefni þyrlist út í andrúmsloftið við veðrun. Eins og ég kom að áðan er það áskorun að tryggja að við matvælaframleiðslu og vinnslu tapist kolefni ekki beint út í andrúmsloftið heldur haldist í hringrásinni. Auðvitað viljum við að sem minnst af matvælum fari til spillis, að það nýtist allt í neyslu, en það sem ekki kemst heilt til neytenda fari aftur í hringrásina og bindist í jarðvegi.

Annað sem mig langaði að koma að er að við erum oft svolítið upptekin af því landi sem erfitt er að komast að eða einhverjar hindranir fyrir því að hægt sé að fara í landgræðslu. En á þessu ári hefur í það minnsta mín athygli beinst mjög að landi hér í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Við fórum t.d. mörg um Reykjanesið í vor og sumar að skoða gosið. Þar eru auðvitað stór svæði sem eru algerlega beitarfriðuð og væri hægt að binda mjög mikið kolefni á ef rétt er farið að. Eins eru hér alveg í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins fellin í Mosfellsbæ og víðar þar sem við sjáum að mikil ræktun hefur skilað árangri. En við sjáum enn meira land sem er rofið og lífrænt efni er að fjúka úr á hverjum einasta degi. Víðar er auðvitað land sem er aðgengilegt sem er í umsjón sveitarfélaga sem bændur eru ekki að nýta í rekstri sem mætti fara í mikla kolefnisbindingu á og nýta í þeim tilgangi.

Það er hægt að tala lengi um landgræðslu en ég held að ég láti þetta gott heita núna. Ég trúi því að umhverfis- og samgöngunefnd taki málið til umfjöllunar núna, kalli eftir umsögnum og nái að fjalla um það þar sem það kemur svo snemma fram á þessu þingi. Ég vonast auðvitað til þess að við fáum málið aftur hingað inn í þingsal til síðari umr. þegar líður á veturinn. Ég legg til að málinu verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.