Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

uppbygging þjóðarhallar.

[10:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Um síðastliðna helgi var hæstv. innviðaráðherra í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni og það var alveg ljóst að það var verið að slá þjóðarhöllinni á frest, ekki alveg að slátra henni en fresta henni. Síðan kemur hæstv. fjármálaráðherra og segir að það sé nóg af fjárfestingum og til nóg af fjármagni en var samt frekar óljós. Tveir formenn stjórnarflokka sem tala mjög óljóst í þessu mikla hagsmunamáli fyrir íþróttahreyfinguna. Þess vegna langar mig að spyrja um skoðun hæstv. forsætisráðherra sem skrifaði undir viljayfirlýsingu korteri fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor, í maí, um að þjóðarhöllin ætti að rísa á þessu kjörtímabili. Ég vil vitna í samtal við Hannes S. Jónsson, formann Körfuknattleikssambands Íslands, í fréttum í gær á Stöð 2, að hvorki hann sem formaður KKÍ né formaður HSÍ, hafi verið kallaðir að borðinu varðandi framkvæmdanefndina. Hún hefur ekki hafið störf. Þetta er ámælisvert að mínu mati. Síðan segir Hannes að hann telji, og ég vil taka undir það, að það verði að sýna íþróttahreyfingunni þá virðingu að standa einhvern tímann við eitthvað af því sem lofað er. Við höfum séð margar myndatökur af undirskriftum varðandi þjóðarhöllina. Ég tek undir þessa ábendingu og þessi vinsamlegu, hófsömu tilmæli frá forystufólki innan íþróttahreyfingarinnar.

Ég bið ríkisstjórnina um að tala skýrt og þess vegna beini ég þessari spurningu til hæstv. forsætisráðherra, formanns Vinstri grænna, þriðja stjórnarflokksins: Mun þjóðarhöllin rísa á þessu kjörtímabili? Þið skuldið okkur hreinskilið svar.