Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

ummæli innviðaráðherra um skattamál.

[10:59]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé að talpunktarnir eru svipaðir, þetta snýst um það að fyrst ekki er allt að fara til fjandans í samfélaginu þá megi ekkert betra gera. Orð mín til hæstv. innviðaráðherra snúa að því að það er farið í viðtöl og ítrekað haldið uppi málflutningi um að þetta sé pólitík Framsóknarflokksins og svo birtist hún hvergi í fjárlögum þessarar ríkisstjórnar. Fáum eitt á hreint: Þær aðgerðir sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu vegna þenslu eru val, þetta er pólitísk forgangsröðun. Þetta er ekki eina leiðin að markmiðinu. Nú hefur Samfylkingin lagt fram aðgerðir fyrir heimilin í landinu, samstöðuaðgerðir sem sýna svart á hvítu að það er hægt að stjórna landinu öðruvísi. Það er hægt að sækja þessa hvalreka. Ég hvet hæstv. innviðaráðherra til að styðja það mál og spyr hvort eitthvað sé því til fyrirstöðu að hæstv. innviðaráðherra láti aðgerðir fylgja orðum og standi með samstöðuaðgerðum Samfylkingarinnar og þar með þjóðinni.