Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Kynbundinn launamunur er til staðar hér á landi og horfa þarf á heildarlaun þegar hann er metinn; krónurnar sem rata í veski kvenna miðað við karla. Kynbundinn launamunur hefur ekki aðeins áhrif á mánaðarlaun kvenna, hann hefur áhrif á öll réttindi sem þær ávinna sér á vinnumarkaði. Konur fá lægri orlofsgreiðslur en karlar og lægri lífeyri. Þannig eru konur líklegri til að búa við fátækt á efri árum. Það er kaldur veruleiki margra kvenna sem nú eru komnar á efri ár. Ríkið verður að ganga fram með góðu fordæmi með réttlátri launaleiðréttingu kvennastétta. Stytting vinnuvikunnar er liður í að jafna leikinn. Með hæfilega langri vinnuviku fæst bæði fjölskylduvænna starfsumhverfi og meiri framleiðni. Fleiri konur geta samræmt atvinnu og fjölskyldulíf og fengið full laun fyrir vinnu sína. Og svo er það glerþakið. Konur eiga að fá sömu tækifæri og karlar. Því fleiri konur sem sitja við stjórnvölinn því eðlilegra verður það að konur séu í ábyrgðarstöðum og því eðlilegra verður að vinnustaðurinn hugi einnig að þeirra þörfum sem starfsmanna. Tryggja þarf að leikskólar taki við börnum að fæðingarorlofi loknu. Bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla er mörgum erfitt og oftar en ekki bitnar sú staða frekar á starfsframa móðurinnar. Tilgangur barnabóta á að vera að jafna stöðu þeirra sem hafa börn á framfæri við þá sem ekki hafa börn á framfæri. Barnabætur draga síður úr atvinnuþátttöku kvenna ef þær eru ekki tekjutengdar. Oft er fullyrt að jafnrétti kynjanna sé þegar orðið að raunveruleika en það er rangt. Ójafnrétti leynist víða og staða karla og kvenna er sannarlega ekki jöfn á meðan kynbundinn launamunur mælist og störf stórra kvennastétta eru vanmetin.