Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

skattalegir hvatar vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.

133. mál
[14:08]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst ég í pínulítið skrýtinni stöðu vegna þess að ég kem annars vegar hingað upp til að lýsa yfir ánægju minni með þetta mál, sem ég styð heils hugar, en hins vegar til að lýsa yfir furðu minni með að það skuli vera fram komið. Fyrir tveimur árum samþykkti Alþingi hér einróma tillögu mína til þingsályktunar um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum, að mennta- og menningarmálaráðherra, í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin, ætti að setja stefnu sem fæli í sér víðtækan stuðning og stefnu um hvernig best yrði unnið að þessum málum. Við vitum, og það kom ágætlega fram í ræðu hv. þingmanns, hvar skóinn kreppir. Síðan átti jafnhliða að tryggja fjárhagslegan stuðning. Samkvæmt samþykkt Alþingis bar ráðherra að leggja fram á Alþingi tímasetta stefnu fyrir 1. júní 2022. Stefnan er ekki komin fram. Ég hef óskað upplýsinga og skýringa með fyrirspurn til ráðherra. En í ljósi þess að á liðnu kjörtímabili og því sem nú er tiltölulega nýhafið kemur ráðherra íþróttamála úr röðum Framsóknarflokksins, úr þeim sama flokki og þingmenn sem flykkjast nú á þessa tillögu, þá ætla ég bara að koma með einfalda spurningu. Ég veit að hv. þingmaður kom inn á það áðan að hann teldi þetta ekki skarast á við launasjóð og það er ekki það sem ég er að tala um heldur þessa stefnu. Vissi hv. þingmaður ekki af þessari ályktun sem samþykkt er og þeirri vinnu sem er í gangi í ráðuneyti íþróttamála, geri ég ráð fyrir? Er ekki eðlilegt að þetta sé innlegg í þá vinnu, þessi tiltekna tillaga um skattalega hvata, og heyri undir heildstæða stefnu sem við búum afreksíþróttafólki okkar?