Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

efling félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins.

10. mál
[14:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar stendur að skipuð verði nefnd um að kortleggja ýmsar áskoranir. Þar er t.d. fjallað um gagnsæi fyrirtækja og að meta árangur af atvinnu- og byggðakvóta á strandveiðar til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum. Mér sýnist þessi þingsályktunartillaga einmitt gera nákvæmlega það sama og þessi nefnd á að gera, sem er nú þegar störfum, alla vega samkvæmt stefnuræðu hæstv. matvælaráðherra hérna á dögunum. Þar er einmitt talað um að við þurfum að ræða hversu stórum hluta aflans eigi ráðstafa á félagslegan hátt og að fara þurfi yfir gjaldtökuna af sjávarútvegi, sem er áhugavert út af fyrir sig því að það að ræða gjaldtöku af sjávarútvegi er ekki inni í stjórnarsáttmálanum, það er bara af fiskeldinu. Það er hreinlega ekki í stjórnarsáttmálanum að breyta stærð félagslega hlutans í kvótakerfinu heldur bara að ræða hann.

Þingsályktunartillagan snýst dálítið um það nákvæmlega. Svo að maður renni örstutt yfir hana þá er matvælaráðherra falið að efla félagslega hlutann, endurskoðun á skiptingu aflamagns o.s.frv. Það er svo auðvelt nefnilega að breyta bara prósentunni í lögunum. Ég skil ekki alveg af hverju þetta er þingsályktunartillaga og miðað við það skil ég ekki til hvers hún er ef matvælaráðherra, sem er í stjórnmálaflokki hv.flutningsmanns þessarar þingsályktunartillögu, er einmitt ráðherra þess málaflokks og ætti væntanlega að geta gert nákvæmlega það sem þingsályktunartillagan snýr að án þess að það komi þinginu neitt sérstaklega mikið við, sérstaklega af því að það er nefnd að störfum sem á að vera að gera nákvæmlega þetta, að meta árangurinn.