Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

efling félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins.

10. mál
[14:37]
Horfa

Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Fyrir það fyrsta þá þarf að gerast eitthvað í þessu strax. Það er nefnd að störfum vissulega, fjölskipuð, sem hefur talsvert langan tíma til að fara yfir og vinna í hlutunum og við eigum eftir að sjá hvað út úr því kemur. Ég sé ekki ástæðu til að bíða þess. Ef við horfum t.d. bara á næsta ár strax, á næsta veiðitímabil, vil ég að þær fjölskyldur sem reiða sig t.d. á strandveiðarnar viti þá bara sem allra fyrst að við séum að fara að sjá fram á að kerfið verði fest betur í sessi og með meiri veiðiheimildum sem allra fyrst. Þessi tillaga ætti í sjálfu sér að vera góð hvatning til þess og líka til að vekja um það umræðu. Það er náttúrulega líka ánægjulegt og gott ef flutningsmenn telja sig njóta þess að ráðherrarnir séu jafnvel sömu skoðunar og líklegir til að gera eitthvað í málunum. Ég hef fulla trú á því að það verði góð eftirfylgni á þessu og svo sem verið svigrúm til að stíga ýmis skref fljótt og vel að mínu mati. Þótt sumt krefjist frekari yfirferðar og skoðunar tel ég að hægt sé að spyrna svolítið hart við fæti og fara í breytingar til góðs. Ég hef bara mjög jákvæða tilfinningu fyrir því að svo verði.