Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[14:49]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Nú þyrfti svo sannarlega forystu hér á landi sem tryggði að hvalreki vegna stríðs og verðbólgu dreifðist með sanngjörnum hætti um samfélagið og dempaði áföllin sem fjöldi heimila verður fyrir vegna kostnaðarkrísu. Í stað þess hafa birst fjárlög fyrir næsta ár sem skella verðbólguaðhaldinu á grunnþjónustuna í landinu og almenning með flötum gjöldum. Enn vitnar hæstv. ríkisstjórn með veikum mætti til mótvægisaðgerða frá því í vor sem tók fjóra mánuði að setja saman eftir þrýsting frá stjórnarandstöðunni. Þær aðgerðir fólu í sér að lög voru virt um hækkun greiðslna almannatrygginga í takt við verðbólgu og 20.000 kr. einsskiptis barnabótaauki var kynntur til sögunnar. 10% hækkun húsnæðisbóta ríkisstjórnarinnar fól í sér hækkun um 3–5.000 kr. fyrir þau fáu heimili sem þær þiggja en upphæðin hafði ekki hreyfst frá árinu 2018 þrátt fyrir að leiguverð hafi hækkað um 35% á sama tíma. Fjárlögin fyrir næsta ár skýra heildarmyndina enn frekar. Greiðslur vegna vaxtabóta standa í stað milli ára þrátt fyrir hraða og mikla hækkun vaxta af því að óbreytt eignaskerðingarmörk leiða til þess að eignamyndun í húsnæðibólunni skerðir nú enn fleiri heimili út úr kerfinu. Að sama skapi er samdráttur í greiðslum barnabóta milli ára þegar leiðrétt er fyrir verðbólgu.

Í ljósi forystuleysis ríkisstjórnarinnar höfum við í þingflokki Samfylkingarinnar lagt fram þingsályktunartillögu um samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana en það er tillagan sem ég mæli fyrir hér í dag og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi aðgerða til að verja tekjulægri hópa, ungt fólk og barnafjölskyldur fyrir áhrifum verðbólgunnar, draga úr greiðslubyrði vegna húsnæðiskostnaðar og sporna við þenslu í hagkerfinu.“

Í fyrsta lagi verði sett á leigubremsa að danskri fyrirmynd. Hækkun húsaleigu takmarkist við hóflega verðbólgu næstu tvö árin en undanskildir verði leigusalar sem sýnt geta fram á að kostnaður vegna húsnæðisins hafi hækkað umfram þá fjárhæð.

Í öðru lagi að vaxtabótakerfinu verði beitt til að styðja við lágtekju- og millitekjuheimili sem glíma við mikla greiðslubyrði vegna húsnæðislána, annaðhvort með varanlegum breytingum á skerðingarmörkum vaxtabótakerfisins með möguleika á fyrirframgreiðslu eða með eins skiptis tekjutengdri vaxtaniðurgreiðslu. Þá verði líka leitað leiða til að koma til móts við fólk með íþyngjandi greiðslubyrði vegna tekjutengdra námslána og húsnæðislána.

Í þriðja lagi að barnabótakerfið verði styrkt og skerðingarmörk hækkuð til að mæta hækkunum á nauðsynjavörum fyrir fjölskyldur.

Fjórði liðurinn snýr síðan að tekjuhlið ríkisfjármálanna til að sporna við þenslu, auka jöfnuð í samfélaginu og bæta afkomu ríkissjóðs. Við leggjum til að skattmatsreglum verði breytt til að sporna við því að launatekjur séu ranglega taldar fram sem fjármagnstekjur, innleiddir verði tímabundnir hvalrekaskattar með viðbótarfjármagnstekjuskatti og sérstöku álagi á veiðigjöld þeirra útgerða sem halda á mestum fiskveiðikvóta.

Ríkisstjórnin leggi fyrir Alþingi nauðsynleg lagafrumvörp til að hrinda fyrrgreindum aðgerðum í framkvæmd eigi síðar en 1. nóvember 2022.

Virðulegi forseti. Nú er staðan sú að þetta þingmál á enn meira við en þegar það var skrifað fyrir þingsetningu og áður en fjárlög hæstv. ríkisstjórnar birtust af því að ljóst er að farin verður sú leið að skella aðhaldi vegna þenslu í hagkerfinu á almenning. Mörg þeirra heimila sjá nú greiðslubyrði sína og heimiliskostnað hækka verulega í stað þess að leitað sé leiða til að dempa áfallið og dreifa því með sanngjörnum hætti um hagkerfið.

Það er talað hér inni á þeim nótum að engar aðrar leiðir séu færar. Það er ekki rétt, virðulegi forseti. Þetta snýst um pólitíska forgangsröðun og það er bráðnauðsynlegt að þjóðin heyri að þetta þurfi ekki að vera svona. Aðgerðirnar sem ráðist er í dag á vegum Sjálfstæðisflokksins, og með fullum stuðningi Vinstri grænna og Framsóknar, eru ekki náttúrulögmál. Það eru til aðrar skynsamlegar, raunsæjar og sanngjarnar leiðir til að komast sem samfélag út úr núverandi ástandi og um þetta verður að tala.

Virðulegi forseti. Þessi umræða hér í dag á sér ekki stað í tómarúmi. Ríkisstjórnir víða um heim grípa nú til aðgerða til að verja heimili fyrir verðhækkunum á nauðsynjavörum og almennu verðbólguskoti. Í Evrópu er orkuverð stór hluti af verðbólgunni og orkukostnaður heimila rýkur upp á sama tíma og orkufyrirtæki skila methagnaði. Aðgerðir stjórnvalda í Evrópu, t.d. í Þýskalandi, ganga út á að niðurgreiða orkukostnað heimila og ráðast á móti í sértæka og tímabundna skattheimtu á fyrirtæki sem hafa mikið fjárhagslegt svigrúm þessi misserin vegna hækkandi orkuverðs. Þannig er farin sú leið að létta undir með heimilum en um leið að vega upp á móti þenslu með því að fjármagna aðgerðirnar beint. Á Íslandi birtist verðbólgan heimilunum í landinu fyrst og fremst í tengslum við húsnæðiskostnað og verð á nauðsynjavörum. Hvalrekinn, hið mikla fjárhagslega svigrúm, birtist á fjármagnsmarkaði og hjá stórútgerð. Það er ljóst að svigrúm heimila til að takast á við breytt efnahagslegt landslag er mjög mismunandi en staðreyndin er engu að síður sú að um 80% lágtekjufólks á engan afgang, um hver áramót samkvæmt könnun Prósents frá því í ágúst, og rúmlega 40% millitekjufólks.

Þessi tillaga sem ég mæli fyrir í dag fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar miðar að því að rétta af bjögun sem skapast hefur í kjölfar heimsfaraldurs og hefur svo stigmagnast vegna stríðsins í Úkraínu. Helsti drifkraftur verðbólgunnar hér á landi er húsnæðisliðurinn en þetta er afleiðing af langtímastefnuleysi stjórnvalda í húsnæðismálum. Ómarkvissar efnahagsaðgerðir hafa svo stóraukið húsnæðisvandann. Tveir af æðstu ráðamönnum þjóðarinnar í fjármálum, seðlabankastjóri og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, báru út þann boðskap á tímum heimsfaraldurs að Ísland væri að stíga inn í nýtt lágvaxtatímabil sem myndi vara lengi. Fjármála- og efnahagsráðherra rak sína kosningabaráttu haustið 2021 m.a. á þeim skilaboðum að hagstjórnin undir hans handleiðslu hefði leitt af sér lágt vaxtastig en ekki að um tímabundna kreppuvexti væri að ræða. Þau skilaboð voru send út til fyrstu kaupenda, ungs fólks og lágtekjufólks, sem loksins sá sér fært að komast inn á húsnæðismarkaðinn, að lágir vextir væru komnir til að vera. Einstaklingar komust í gegnum greiðslumat á þessum forsendum en sama fólk sér nú fram á stóraukna greiðslubyrði vegna snarbreyttra aðstæðna í efnahagslífinu. Hætta getur skapast á að ungar fjölskyldur og tekjulægra fólk lendi í greiðsluvandræðum vegna þessarar þróunar og sjái nú fram á forsendubrest í sínu heimilisbókhaldi. Þó að vextirnir hafi kannski verið sögulega lágir þegar lánin voru tekin voru lánsfjárhæðir sögulega háar vegna oförvunar á eignamörkuðum.

Virðulegi forseti. Komandi kjarasamningar í núverandi efnahagsumhverfi setja enn meiri pressu á að stjórnvöld grípi til aðgerða til að dreifa högginu af viðsnúningi í hagstjórn. Varað hefur verið við því að miklar launahækkanir auki enn á verðþrýstinginn, en staðreyndin er sú að víða horfa heimili upp á aukna kostnaðarbyrði, hvort sem er vegna lána eða leiguverðs, sem étur upp nær allan launaaukann sem samið var um á síðustu árum.

Virðulegi forseti. Svo að ég komi aftur að aðgerðunum þá eru þessar samstöðuaðgerðir tímabundnar til 18 eða 24 mánaða á meðan verðhækkunarkúfurinn gengur yfir og hugmyndin er að freista þess að ná samstöðu um þessar aðgerðir í þinginu.

Við leggjum í fyrsta lagi til að komið verði á leigubremsu að danskri fyrirmynd til að verja leigjendur fyrir tilhæfulausum hækkunum því að stjórnvöld hafa brugðist leigjendum með úrræðaleysi sínu í uppbyggingu húsnæðis á félagslegum grunni. Í Danmörku, þar sem er verið að innleiða slíka bremsu, er nú þegar um fimmtungur húsnæðis á félagslegum grunni meðan hlutfallið hér heima er aðeins í kringum 5%. Viðbótarkostur leigubremsunnar á þessum tímum er líka sá að hún heldur aftur af hækkun vísitölu neysluverðs ólíkt þeim gjaldahækkunum á almenning sem ríkisstjórnin boðar núna.

Í öðru lagi er lagt til að vaxtabótakerfinu verði beitt með markvissum hætti til að styðja við lágtekju- og millitekjuheimili sem glíma við mikla greiðslubyrði vegna húsnæðislána. Hér eru margar leiðir færar. Ein og kannski sú einfaldasta væri að hækka eignaskerðingarmörkin með hliðsjón af fasteignaverðshækkunum en þessi mörk hafa staðið óhreyfð síðan 2018.

Það eru aðrar leiðir færar í þessu samhengi en mig langar til að mynda að vekja athygli á stöðu fólks sem allt of oft er litið fram hjá í þessu samhengi og það er staða öryrkja sem á sitt eigið húsnæði. Staðreyndin er sú að þú missir alveg réttindi til vaxtabóta ef þú átt meira en 8 millj. kr. í eign þinni sem einstaklingur. Það er í dag, miðað við innborgun upp á 20%, 40 millj. kr. eign. Fyrir hjón eru það 12 milljónir og er miðað við 60 millj. kr. eign. Það sést að fólk sem er á lágum tekjum þrátt fyrir að það eigi einhverja eign, og þetta á líka við um ungt fólk sem er tiltölulega tekjulágt, fær engar vaxtabætur þrátt fyrir að heimilisbókhaldið hafi ekkert svigrúm.

Þá höfum við líka talað um í þessari tillögu að styrkja barnabótakerfið. Það er augljóst, ef við lesum fjárlög ríkisstjórnarinnar, að hér er ekkert bætt í þrátt fyrir loforð undanfarinna missera af því að útgreiðslur eru að lækka á milli ára að raunvirði.

Samhliða þessu er líka lagt til að leitað verði leiða til að koma til móts við fólk sem er með íþyngjandi greiðslubyrði vegna tekjutengdra námslána og húsnæðislána vegna þess að ungt fólk með börn á framfæri og námslán er sumt hvert að lenda í þreföldum skelli í kostnaðarkreppunni sem nú gengur yfir, í fyrsta lagi vegna vaxtahækkunar eða hækkunar leiguverðs, í öðru lagi af því að tekjutenging námslána hefur nýlega dottið inn og í þriðja lagi vegna þess að nauðsynjavörur hafa hækkað verulega í verði. Hér væri til að mynda hægt að taka mið af húsnæðiskostnaði ungs fólks og fjölskyldna í núverandi dýrtíð þegar greiðslur af námslánum eru reiknaðar út. Það eru leiðir að þessu markmiði til og færar.

Að lokum leggjum við til að til að sporna við þenslu áfram með aðgerðapakka fyrir hagkerfið sé fjármögnunin tryggð. Þarna liggja hinir pólitísku valkostir. Komið verði í veg fyrir að launatekjur séu ranglega taldar til fjármagnstekna hjá einstaklingum með félög í kringum atvinnurekstur með einföldum leiðum eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Talið er að slík undanskot leiði af sér 3–8 milljarða kr. tekjutap hjá hinu opinbera árlega.

Þá er lagt til að lagður verði á hvalrekaskattur af tvennum toga. Annars vegar að viðbótarfjármagnstekjuskattur verði settur á til að bregðast við ójafnri dreifingu aukinna ráðstöfunartekna eftir að vextir voru lækkaðir og kynt var undir bólumyndun á eignamörkuðum í heimsfaraldri. Það liggur alveg fyrir að í ljósi þess hvernig frítekjumörk vegna fjármagnstekna hafa þróast á undanförnum árum þá mun slík hækkun einvörðungu lenda á allra tekjuhæstu hópunum sem sáu kaupmátt sinn tvöfaldast á við hin 90 prósentin í samfélaginu í fyrra. Hins vegar er lagt til að veiðigjöld þeirra stórútgerða sem halda á mestum fiskveiðikvóta verði hækkuð með tímabundnu stærðarálagi.

Staðreyndin er sú, virðulegi forseti, að fjármagnseigendur hafa hagnast á undanförnum árum vegna aðgerða stjórnvalda og útflutningsgreinar hafa auk þess hagnast vegna breyttra viðskiptakjara í tengslum við stríðið í Úkraínu. Þannig höfum við séð verð á ferskum fiski í Evrópu hækka mikið og það hefur stutt við verðmæti sjávarafurða sem og tekjur. Á sama tíma sjáum við líka orkufyrirtækin okkar, eins og Landsvirkjun, fá mikla hækkun á álverði og aukinn hagnað. Munurinn á þessum tveimur aðilum er sá að hagnaður Landsvirkjunar rennur óskiptur til þjóðarinnar. eins og sakir standa. Á sama tíma hefur hluti heimila í landinu liðið fyrir þessa sömu erlendu verðbólgu vegna stríðsins.

Samtals gætu þessar skattbreytingar aukið tekjur ríkissjóðs um 10–12 milljarða á næsta ári, sem standa undir þeim stuðningi við heimilin sem boðaður er og gott betur. Þannig eru heildaráhrif þingsályktunartillögunnar afkomubætandi fyrir ríkissjóð og til þess fallin að draga úr þenslu og auka aðhaldsstig ríkisfjármálanna.

Virðulegur forseti. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með fylgiflokka Sjálfstæðisflokksins í þessari ríkisstjórn. Orð þeirra eru ódýr þegar kemur að réttlæti, sanngirni og stuðningi við heimilin. Það eru takmörk fyrir því hvað er hægt að bera lengi fyrir sig málamiðlunum í grundvallarmálum okkar tíma því að það er þannig, eins og George Orwell sagði á sínum tíma, að ef gríman er borin nógu lengi fer andlitið að laga sig að henni. Ég er hrædd um að andlit Vinstri grænna og Framsóknar séu farin að bera þess merki að hafa fórnað allt of miklu fyrir völd. Með stuðningi við þetta góða mál er tækifæri til að sanna að það sé ekki rétt.

Virðulegur forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að málið verði sent til hv. efnahags- og viðskiptanefndar þar sem ég vona að það hljóti framgang.