131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Staðan í viðræðum um verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

[10:58]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra. Þegar lagt var af stað í samningaviðræðurnar settu sveitarfélögin sér þrjú meginmarkmið.

Í fyrsta lagi að bráðavandi verst stöddu sveitarfélaganna yrði leystur í gegnum jöfnunarsjóð til framtíðar, ekki bara plástursaðgerð sem dygði akkúrat núna, vegna þess að það er forsenda þess að þær tillögur sem sameiningarnefndin hefur gert við sameiningu sveitarfélaga gangi eftir, því það liggur fyrir flestum sveitarfélaganna að verða hluti af stærri heild og farið er með vandann í hinar nýju einingar.

Í öðru lagi lögðu þau áherslu á að núverandi tekjustofnar yrðu aðlagaðir lögbundnum, venjubundnum verkefnum sveitarfélaganna eins og þau eru í dag. Það er ekki gert í tillögunum sem koma frá ríkisvaldinu heldur er sagt: Takið þetta eða þið fáið ekki neitt.

Í þriðja lagi að þegar frá þessu hafi verið gengið sé hægt að fara að ræða um ný verkefni og tekjustofna sem eigi að fylgja þeim.

Hv. þm. Hjálmar Árnason, sem hefur komið dálítið mikið að vinnunni, sagði að menn yrðu að fara að gera það upp við sig hvort þeir vildu efla sveitarstjórnarstigið eða ekki. Það er meginmálið og það er kominn tími til þess að ríkisstjórnarflokkarnir geri þetta upp við sig. Það er kominn tími til þess að hæstv. félagsmálaráðherra geri þetta upp við sig en ekki síður hæstv. fjármálaráðherra sem ekki er hér.

Þegar þingmenn koma og segja að sveitarfélögin verði að spara — þetta er byggðavandinn í hnotskurn. (Gripið fram í.) Verst stöddu sveitarfélögin eru vítt og breitt um landið og hvað eiga þau að skera niður, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, hvað eiga þau að skera niður? Mega þau byggja skóla, leikvelli, leikskóla, íþróttahús og sundlaugar til þess að geta boðið upp á þá þjónustu sem boðið er upp á á höfuðborgarsvæðinu, mega þau það?

Það er alveg ljóst að tillögurnar (Forseti hringir.) leysa ekki vandann til frambúðar.