131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:13]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Eins og hv. þingmanni er kunnugt þá hafa ekki aðrir alþingismenn stutt betur að Hólaskóla en fyrrverandi framkvæmdastjóri Verslunarráðsins, Vilhjálmur Egilsson, ef við eigum að rekja þá sögu, meðan hann var hér þingmaður. En þetta vekur á hinn bóginn þá spurningu, vegna þess að hv. þingmaður talaði um að hún vildi efla háskólanám á Ísafirði — ég hygg einnig að hv. þingmaður vilji efla nám á háskólastigi eða háskólanám á Hólum í Hjaltadal — ber þá að skilja ummæli hv. þingmanns svo að ef einkaaðilar vildu að því koma eða félagasamtök og standa að slíku háskólanámi með stofnun hlutafélags á þeim forsendum sem hér er gert, að þá mundi hv. þingmaður leggjast gegn því?