131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:23]

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í nóvember 2002 var stigið mjög heillavænlegt spor að mínu mati þegar Tækniskóli Íslands var færður upp á háskólastig og fékk nafnið Tækniháskóli Íslands. Fram að þeim tíma hafði tækninám á háskólastigi eingöngu verið hægt að sækja til útlanda og höfðum við misst töluvert af fólki úr landi sem sótti þetta nám til Norðurlandanna.

Samtök iðnaðarins höfðu m.a. verið ötul við að benda á eftirspurnina eftir tæknimenntuðu fólki en eins og fram hefur komið í umræðunni höfum við staðið töluvert að baki nágrannaþjóðum okkar hvað það varðar.

Vegna þessarar eftirspurnar og líka eftirspurnar eftir náminu sjálfu var farið í að byggja þennan glæsilega tækniháskóla. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér þykir þess vegna alveg hundfúlt að þurfa að standa í ræðustóli núna og fara yfir þessa sameiningu við Háskólann í Reykjavík, sem gæti verið ánægjuleg, þurfa að vera í hálfgerðri vörn og þurfa að gagnrýna framkvæmdina. Ég hefði svo miklu frekar viljað að um vinnubrögðin hefði ríkt meiri sátt en er. Í vinnubrögðunum eða aðdragandanum er alls ekkert boðið upp á umræðu og samstarf. Málinu er hent fram tilbúnu og kláru. Í lýðræðisríki er óásættanlegt að mál fari í gegn með þeim hraða sem ætlast er til hér. Þess vegna segi ég það, virðulegi forseti, að mér þykir hundfúlt að standa hér á þessum forsendum.

Ég tek undir það sem við höfum sagt um að við þurfum að efla tækninám á Íslandi, virkilega, og höfum þurft að gera það árum saman, jafnvel áratugum saman. Þess vegna var það mikið fagnaðarefni þegar við loksins í nóvember 2002 færðum tækninám upp á háskólastig.

Virðulegi forseti. Eins og ég segi hafa vinnubrögðin verið afar sérkennileg í málinu. Við fengum að vita það með fréttatilkynningu í ágúst að gefin hefði verið út yfirlýsing um sameiningu þessara tveggja skóla. Hún kom líklega úr menntamálaráðuneytinu. Síðan kemur þetta mál ekki inn í umræðu á þinginu fyrr en í desember þannig að það var ekki með neinu móti hægt að taka það almennilega fyrir í haust og ég vil lýsa óánægju minni með þessi vinnubrögð vegna þess hve margar stórar menntapólitískar spurningar hafa vakna í þessu máli og þarfnast umræðu.

Ég ætla að fara yfir þessi atriði á eftir en áður en ég byrja á því vil ég aðeins nefna að það hefur verið algerlega óþolandi í dag að sitja undir fullyrðingum um að stjórnarandstaðan vilji leggja stein í götu þessa máls eða götu þessara skóla. Það hefur líka verið fullkomlega óþolandi að sitja undir því að stjórnarandstaðan sé að tefja málið þegar staðreyndin er sú að málið kemur ekki inn fyrr en í desember til umræðu og þá höfum við rétt svo tíma til að senda það út til umsagnar sem var gert. Síðan er það ekki tekið á dagskrá menntamálanefndar fyrr en í lok janúar. Við erum ekki að tala um að stjórnarandstaðan stýri því hvenær mál eru tekin fyrir. Síðan er málið tekið fyrir aftur í síðustu viku og ekki aftur fyrr en núna vegna fjarveru menntamálaráðherra þannig að ég hafna því að stjórnarandstaðan sé að tefja málið.

Virðulegi forseti. Ég nefndi áðan að margar stórar menntapólitískar spurningar hefðu vaknað í þessu máli. Ein þeirra snýr að skólagjöldum en það er umræða sem við höfum aldrei tekið almennilega á Alþingi nema við vitum að menntamálaráðherra hefur gefið út yfirlýsingar um það, nú síðast í viðtali við Morgunblaðið, að hún telji ekki rétt að setja skólagjöld á grunnnám á háskólastigi. Þess vegna veldur það manni áhyggjum að núna, rúmum tveimur árum eftir að við settum tæknifræðina upp á háskólastig, eigi að taka hana út úr rammanum og setja inn í einkaskóla þar sem eru skólagjöld. Þetta telst svo sannarlega til grunnnáms. Þetta nám er ekki í boði í öðrum skólum og þess vegna tel ég að þarna sé gengið gegn fyrri yfirlýsingum. Tæknifræðin er ekki kennd í öðrum skólum og er ekki hluti af opinberu framboði lengur eftir að þessi breyting hefur gengið í gegn. Þar með er ekki jafnt aðgengi að tæknifræðinni og ekki hægt að segja að jafnrétti ríki til náms hvað varðar aðgengi að því.

Ég vil, virðulegi forseti, aðeins koma inn á að margt bendir til þess að krafa opinberu skólanna um að fá að taka upp skólagjöld í grunnnámi hljóti að styrkjast við það að einn opinber skóli með hátt í þúsund nemendur færist yfir í einkahlutafélag sem tekur skólagjöld í grunnnámi. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa tilvitnun í umsögn rektors Háskólans á Akureyri, Þorsteins Gunnarssonar, og vil gjarnan fá að heyra í hæstv. menntamálaráðherra ef hún kemur hingað áður en ég hef lokið máli mínu um það hvort hún geti tekið undir sjónarmið hans. Með leyfi forseta ætla ég að lesa þessa tilvitnun:

„Stefna stjórnvalda hefur verið að innheimta ekki skólagjöld í grunnnámi á háskólastigi hér á landi. Í framkvæmd hafa hins vegar verið nokkrar undantekningar á þessari stefnu. Þannig hafa stjórnvöld heimilað einkaháskólum, m.a. Háskólanum í Reykjavík og Viðskiptaháskólanum á Bifröst, að innheimta skólagjöld meðan opinberir háskólar hafa ekki þessa heimild. Með sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands má gera ráð fyrir að þeim nemendum í grunnnámi á háskólastigi sem þurfa að greiða skólagjöld fjölgi mikið. Verði frumvarpið samþykkt standa stjórnvöld frammi fyrir því að þurfa að endurskoða stefnu um skólagjöld á háskólastigi. Sú mismunun að heimila sumum háskólum að innheimta skólagjöld og öðrum ekki er óviðunandi og ógnar stöðu opinberra háskóla hér á landi gagnvart erlendum háskólum.“

Virðulegi forseti. Það er ekki nema von að maður spyrji og varpi því fram hvort ekki muni í kjölfarið á breytingunni koma aukin krafa frá hinum opinberu skólum og forustumönnum þeirra um að fá að taka upp skólagjöld. Ég mundi gjarnan vilja fá svar hæstv. ráðherra við þessu nema náttúrlega það sé markmiðið að búta þetta niður og færa þetta í skólagjaldakerfið eða einkareksturinn. Ég vona svo sannarlega að svo sé ekki.

Við í Samfylkingunni og hv. þingmenn í menntamálanefnd, Björgvin G. Sigurðsson og Mörður Árnason ásamt mér, höfum lagt fram breytingartillögur og höfum skilyrt stuðning okkar við frumvarpið við breytingartillögurnar, en þær hljóða svo, með leyfi forseta:

„1. Við bætist ný grein, 3. gr., svohljóðandi:

Við 3. málsl. 3. gr. laga nr. 136/1997, um háskóla, bætist: og skulu þeir þá vera sjálfseignarstofnanir.

2. Heiti frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um afnám laga nr. 53/2002, um Tækniháskóla Íslands, með síðari breytingum, og breyting á lögum nr. 136/1997, um háskóla.“

Virðulegi forseti. Þetta leggjum við fram vegna þess að við teljum, ólíkt hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, sem talaði fyrr í dag að það sé eðlismunur á því að reka háskóla í formi sjálfseignarstofnunar eða í formi einkahlutafélags og getum því ekki samþykkt að hinn nýi háskóli fari í það form að verða einkahlutafélag heldur hefðum við viljað sjá hann fara í form sjálfseignarstofnunar.

Ég segi eðlismunur. Þó nokkur af þeim rökum hafa verið ágætlega tíunduð í umræðunni en ég ætla að nefna eitt áhyggjuefni þar sem ég tel að eðlismunur sé á. Í einkahlutafélagi eru auðvitað hlutabréf í eigu eigenda, það segir sig sjálft. Það er ekkert sem segir að hlutabréfin geti ekki gengið kaupum og sölum, þannig er nú einu sinni eðli hlutafélaga. Þetta er að mínu mati fyrirkomulag sem hentar ágætlega í rekstri fyrirtækja og þegar svona er komið ræðst stjórn fyrirtækisins að töluverðu leyti eftir hagsmunum eigenda. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að akademísku frelsi sé ógnað með slíku fyrirkomulagi.

Ég hef áhyggjur af því vegna þess að stjórn félagsins á að vera háskólaráð samkvæmt þeim samþykktum sem fyrir liggja. Hingað til og um allan heim hefur verið litið svo á að háskólaráð eigi að vera óháð eigendum sínum, þetta á að vera akademísk stofnun þar sem akademísk sjónarmið ráða för. Þess vegna hef ég áhyggjur af þessu vegna þess að þetta er auðvitað grundvöllur háskólastarfsins.

Ég hef áhyggjur af hinu akademíska frelsi hvað varðar rekstrarformið og áhyggjur mínar fengu ekki síður byr undir báða vængi þegar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson talaði fyrr í dag og lýsti því að hann væri hissa á því að hv. þm. Mörður Árnason hefði eytt megninu af ræðu sinni í að ræða akademískt frelsi en ekki rekstrarformið eitt og sér. (Gripið fram í.) Ég verð að segja að þá fyrst fékk ég alvarlegar áhyggjur, vegna þess að akademískt frelsi er grundvallaratriði og það skiptir verulegu máli að það sé tryggt og umræðan um rekstrarformið og umræðan um akademískt frelsi er fullkomlega samofin vegna þess, eins og áður sagði og er ekki flókið mál í mínum huga, að hlutabréfin geta gengið kaupum og sölum. Eigendur hlutabréfanna ráða því hverjir sitja í stjórn. Stjórnin er háskólaráð sem fer með öll málefni skólans, fyrirtækisins í þessu tilfelli, og þess vegna finnst mér þetta ekki vera eðlileg tengsl. Auk þess, þar sem hlutabréfin geta gengið kaupum og sölum, getum við farið að sjá verulegar breytingar á mannskap í háskólaráðinu eða stjórn félagsins. Ég tel einnig að óvissan sé það mikil til framtíðar litið að það sé ekki til heilla að velja þetta rekstrarform. Þetta er ástæðan fyrir því klárt og kvitt hvers vegna ég geld varhuga við því að við förum út í þetta rekstrarform.

Einnig vil ég nefna að í hugmyndum um stjórn félagsins, auðvitað vegna þess að þarna er farið að hlutafélagalögum, er ekki gert ráð fyrir því að einn einasti einstaklingur úr hinu akademíska samfélagi sé aðili að háskólaráðinu eða stjórninni. Það þykir mér vera verulega til skaða vegna þess að það hefur reynst vel hingað til í öðrum skólum að í háskólaráði séu fulltrúar starfsmanna, kennara og nemenda.

Mér þykja hættur hlutafélagaformsins hvað þetta varðar vera það miklar að ég get ekki samþykkt, frekar en aðrir í Samfylkingunni, að frumvarpið fari í gegn með þessum hætti. Hins vegar, vegna þess að það er alltaf verið að lýsa eftir afstöðu Samfylkingarinnar, getum við samþykkt frumvarpið ef breytingartillögur okkar um að þetta verði sjálfseignarstofnun verða samþykktar samhliða.

Virðulegi forseti. Hér hefur mikið verið vitnað til umsagnar þeirra einstaklinga sem sáu um sameiningarsamningana fyrir hönd Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík. Í umræðunni hefur mjög mikið verið talað um að þó stofnunin fari í einkahlutafélagaform muni hagnaðarsjónarmið ekki ráða för. Einnig hefur verið talað um að það séu það miklir gallar á lögum um sjálfseignarstofnun að ekki sé fært að fara í það form. Þá vil ég benda á að í þessari ágætu umsögn frá þessum fjórum einstaklingum kemur fram að hugmyndin sem erlendis kallast „nonprofit organizations“ sé hugmynd sem þau felli sig við og það sé ástæðan fyrir því að þau velji hlutafélagaleiðina. En jafnframt segir, með leyfi forseta:

„Ef til vill vantar okkur betri löggjöf á þessu sviði.“

Þau segja því sjálf að hlutafélagaleiðin sé ekki einu sinni hin eina rétta. Samt velja þau hlutafélagaleiðina frekar en sjálfseignarformið þó að hún sé gölluð. Þetta þykir mér nokkuð athyglisvert.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma inn á eignir Tækniháskólans og kostnaðinn við sameininguna fyrir ríkisvaldið. Ég spurði hæstv. menntamálaráðherra ekki fyrir löngu hvort eignirnar hefðu verið metnar í aðdraganda sameiningarinnar, hvað yrði gert við þær og hvernig þær færu í einkahlutafélagið. Fram kom í svari hennar að eignir Tækniháskólans hefðu verið metnar og væru um 40 millj. kr. og mundu ganga inn í einkahlutafélagið. Maður gæti sett á langa tölu um hvað þetta er ótrúlega lág upphæð fyrir háskóla sem á að vera flaggskip okkar í tæknimenntun og á tæknisviði en ég ætla ekki að fara út í það, engu að síður kom upphæðin mér verulega á óvart. Einnig kom fram hjá fulltrúum menntamálaráðuneytisins að skuldir Tækniháskólans, sem nema um 100 millj., muni ekki fylgja Tækniháskólanum við sameininguna. Segja má því að heildarkostnaður ríkisins sé um 140 millj. með sameiningunni.

Þessi tala er ekkert klink en hún hefur aldrei komið almennilega fram í umræðunni og er ekki orð um það í fjárlögum fyrir þetta ár að fara eigi að gefa eignir ríkisins í einkahlutafélagið. Þetta segir manni því hvernig málið hefur verið undirbúið og hvernig það hefur borið að að þetta hafi ekki legið fyrir í haust þegar við ræddum fjárlögin sem við afgreiddum í lok nóvember eða byrjun desember, ef ég man rétt.

Virðulegi forseti. Ég verð að nefna það í lokin að mér hefur fundist stefnuleysið og markmiðsleysið sem hefur birst manni í menntamálum alveg með ólíkindum í þessu máli, sérstaklega hvað háskólastigið varðar og mér hafa þótt vinnubrögðin ótrúlega tilviljanakennd. Og það er ekki bara þetta mál, í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu í ágúst heyrðum við að fara eigi að einkahlutafélagavæða opinbera skóla. Ég get líka nefnt íþróttaakademíuna í Reykjanesbæ. Hefur það mál einhvern tíma komið hingað inn? Hvernig á það allt saman að byggjast upp?

Virðulegi forseti. Það er líka annað. Það er með ólíkindum hve mikil valdbeiting hefur verið í þessu máli og hraðinn gríðarlegur. Valdbeitingin hefur að mörgu leyti birst í því að svona stórt menntapólitískt mál er lagt fram, ekki bara fyrir okkur á Alþingi heldur líka fyrir háskólaráð Tækniháskólans, eins og kemur fram ágætri grein Ragnhildar Þórarinsdóttur sem birt var í Morgunblaðinu en hún var varamaður kennara í háskólaráði THÍ, og að ekki einu sinni háskólaráð Tækniháskólans vissi af sameiningunni eða hvernig hún færi fram fyrr en hálftíma áður en þetta var tilkynnt.

Mér hefur þótt þetta algjörlega með ólíkindum og líka það að ef maður vill ræða svo stórt mál, svona mikla breytingu og grundvallarbreytingu á íslensku menntakerfi, þá er manni stillt upp eins og maður sé algjörlega á móti sameiningu skólanna. Það er náttúrlega bara af og frá. Það sem fyrst og fremst var verið að fara fram á er almennileg umræða um málið. Ég sagði áðan að hefðu menn vandað til verka og rætt málið frá grunni, ekki kynnt það kvitt og klárt, þá væri umræðan núna hugsanlega öðruvísi.

Virðulegi forseti. Þar sem ég var að tala um varðandi tilviljanakennd vinnubrögð og stefnuleysi, þá vil ég aðeins koma inn á að það sem við erum að horfa upp á núna, þegar þetta frumvarp er orðið að veruleika, er þriðja rekstrarformið á háskólastigi. Við erum með ríkisrekna skóla sem fá framlög frá ríkinu en fá ekki að taka skólagjöld, við erum með sjálfseignarstofnanir sem fá jafnhá framlög frá ríkinu á hvern nemanda eins og opinberu skólarnir og geta tekið skólagjöld og loks erum við komin með einkahlutafélag sem er líka rekið af almannafé. (Gripið fram í.) Mér finnst því að við þurfum aðeins að líta yfir sviðið og hvernig við ætlum að fara með opinbert fjármagn, vegna þess að það skýtur svolítið skökku við að ríkið fari að verða helsti fjármögnunaraðili einkahlutafélags. Það er í eðli sínu er dálítið sérkennilegt.

Eins og ég sagði tel ég að hér sé um stórt menntapólitískt mál að ræða. Ég hef komið inn á umræðuna um skólagjöldin, umræðuna um rekstrarformið og ekki síst akademíska frelsið og sömuleiðis umræðuna um framtíðarfyrirkomulag tækninámsins. Þessi staða er vond fyrir skólana og þess vegna hefði verið mjög mikilvægt að vanda til verka. Ég segi enn og aftur, virðulegi forseti, að mér þykir hundfúlt að standa hér á þessum forsendum.

Virðulegi forseti. Aðeins í lokin. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir hefur gert nokkuð úr þeirri skoðun sinni á yfirlýsingu ráðuneytisins um framtíð tæknináms, að það beri að efla og styrkja til framtíðar, og hefur túlkað það sem svo að henni finnist brýnt að tækninám sé einnig í boði í ríkisreknum háskóla út af samkeppni og öðru og sömuleiðis tók hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson undir þetta í ræðu sinni í dag. Ég verð að segja að þegar verið er að ræða um að tækninám verði einungis í boði í einkareknum skóla með skólagjöldum, þá birtist þessi skoðun og þessi umræða hv. þingmanns mér þannig að hér sé um ákveðna billega réttlætingu að ræða á því að samþykkja þetta mál eins og það er, að samþykkja að tækninámið fari inn í einkarekinn skóla og verði ekki í hinu opinbera framboði á námsgreinum. Þess vegna lýsi ég eftir því að ef hv. þingmaður telur sig vita að þetta verði gert og það sé raunverulegur vilji og opnun fyrir þetta í menntamálaráðuneytinu þá þætti mér vænt um að heyra það en þangað til maður heyrir einhverja staðfestingu frá hæstv. menntamálaráðherra í þessum efnum, þá finnst mér þetta ekkert annað en billegur umsláttur.