131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:50]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í upphafi segja að mér finnst dálítið furðulegt að stjórnarandstöðunni og hv. þingmanni þyki óþolandi að sitja undir þeim ásökunum að stjórnarandstaðan sé að leggja stein í götu málsins. Það liggur fyrir að við erum að reyna að sameina Tækniháskólann og Háskólann í Reykjavík með lögum. Í nefndaráliti 1. minni hluta kemur ekkert fram um það að Samfylkingin styðji það mál, þannig að það hlýtur að þýða að hún sé á móti því. Hún er a.m.k. ekki með því. Það er ekki hægt að lesa það út úr nefndarálitinu. Þannig að það er eðlilegt að álykta sem svo að verið sé að leggja stein í götu málsins.

Í öðru lagi voru hinar svokölluðu menntapólitísku spurningar hér til umræðu og þar á meðal skólagjöld sem hv. þingmaður kveinkaði sér undan. Ég er hér með viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, varaformann Samfylkingarinnar, frá 15. október 2004 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Mér finnst skólagjöld á háskólastigi alveg geta komið til álita.“ — Og enn segir varaformaður Samfylkingarinnar: „… en ég sé engin sanngirnisrök fyrir því að fólk borgi verulegar fjárhæðir fyrir fullorðinsfræðslu og fyrir börn á leikskólum en ekkert fyrir aðgang að háskólum.“

Sömu sjónarmið koma fram í svokölluðu umræðuplaggi framtíðarhóps Samfylkingarinnar sem fjallaði um rekstrarform í almannaþjónustu. Í honum sátu m.a. hv. þingmenn Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir.

Í ljósi andmæla hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur gegn skólagjöldum verð ég að spyrja: Er hún ekki sammála hv. þingmönnum Bryndísi Hlöðversdóttur og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur? Og er hún ekki sammála þessum yfirlýsingum varaformanns Samfylkingarinnar sem augljóslega vill taka upp skólagjöld?