131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:07]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna sérstaklega ummælum hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur um að hún treysti þeim aðilum sem standa að skólanum fullkomlega til að reka skólann. Þetta eru mjög góð ummæli og það er gott að fá þau fram vegna þess að ég hef svo sannarlega haft það á tilfinningunni og það sem hefur einkennt umræðuna, ekki sérstaklega hjá hv. þingmanni heldur hjá flestum í stjórnarandstöðunni, er nákvæmlega þessi tortryggni gagnvart þeim aðilum sem eru að fara að reka þennan skóla. Og ég ætla rétt að vona að þeir muni halda sig sem lengst við það að koma nálægt þessum skóla. Ég fagna þessum ummælum og tel gott að við fáum það fram að hv. þingmaður treystir umræddum aðilum fullkomlega.