131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:09]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur ekki alveg hlustað nógu vel þegar ég var að tala áðan. Ég var að segja að þessi form væru bæði ágæt, bæði sjálfseignarstofnunarformið og ehf-formið. Það var mat þessara aðila að ehf-formið hentaði þeim betur og að þeir bæru meiri ábyrgð, eins og rektorinn segir í umsögn sinni. Það er möguleiki, bæði er hægt að bæta við nýjum hluthöfum og þeir bera meiri ábyrgð á rekstrinum en með sjálfseignarstofnunarforminu sem kannski enginn ber ábyrgð á og er munaðarlaust. Ég er alls ekki á móti því og tel það hið allra besta mál. Ég tel hitt þó jafngott ef ekki betra, ehf-formið. Mér finnst afstaða flokks hv. þingmanns, á móti þessu frumvarpi, alveg með ólíkindum, bara af því að það er ehf í staðinn fyrir sjálfseignarstofnunarform. Eins og ég segi, gamla Alþýðubandalagið ræður för hjá þeim.