131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[19:31]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi Tækniháskóla Íslands þá mótmæli ég því að sá ágæti skóli hafi eitthvað verið vanræktur. Bara það eitt að breyta Tækniskólanum yfir í Tækniháskóla Íslands sýndi mikinn metnað stjórnvalda. Við vildum efla tækninám hér á landi og koma skólanum á háskólastig. Við það var staðið og við þá samninga sem voru undirritaðir við skólann hefur ávallt verið staðið. Menn þurfa þá að sýna fram á annað ef svo hefur ekki verið. Það hefur verið reynt að koma til móts við þær þarfir sem menn hafa talið þörf á að uppfylla, (Gripið fram í.) t.d. þá sýn sem ágætir og góðir stjórnendur Tækniháskóla Íslands settu fram, m.a. með því að fjölga í tækninámi og fjölga í verkfræði. Við fórum einmitt þá leið sem nú er farin, að sameina kraftana til að gera okkur enn þá öflugri og sterkari í því frábæra háskólasamfélagi sem við búum við á Íslandi í dag.

Það er ekki hægt að segja málflutning minn lágkúrulegan eftir að ég hef hlustað á ræðu eftir ræðu þar sem hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafa efast um að akademískt frelsi komi til með að virka innan hins nýja háskóla. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að um ákveðið vantraust sé að ræða í garð þeirra stjórnvalda sem eru nú við háskólann. Þá verða menn að segja eitthvað annað. Af hverju á hið akademíska frelsi að vera eitthvað verra í höndum þeirra stjórnenda sem þar eru en við aðra háskóla? Menn segja að ekki verði haft neitt samráð við nemendur. Það hefur verið haft mikið samráð við nemendur í Háskólanum í Reykjavík í gegnum árin. Það verður engin breyting á því.

Enn og aftur grípa menn til þess að segja: Það átti ekki að fara þessa leið. Það er ljóst að það átti bara ekki að fara þessa leið samkvæmt ráðum stjórnarandstöðunnar heldur gera eitthvað allt annað, sameina háskólana, ekki þessa tvo háskóla heldur bara einhverja allt aðra. Þá komum við enn og aftur að því að hin stóra meginlína sem stjórnarandstaðan dregur í þessu máli er að vera á móti málinu. Hún er á móti þessum nýja háskóla.