132. löggjafarþing — 80. fundur,  8. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:01]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (frh.):

Forseti. Ég lauk máli mínu áðan þar sem ég var í miðjum klíðum að lýsa samfélagsbreytingum sem orðið höfðu á landinu eftir nokkrar hugleiðingar um Framsóknarflokkinn þar sem ég komst að því að hvernig sem skaplyndi og sköpulagi manna í Framsóknarflokknum væri núna háttað, metnaði og sárindum, þá væri sennilega helsta ástæða þess að þetta mál er hér á dagskrá að Framsóknarflokkurinn lítur á það sem hagsmuni sína og þeirra aðila sem hann telur sig vera að verja og sækja fyrir á landinu, að þetta frumvarp verði sem fyrst að lögum.

Fyrir matarhlé var ég að lýsa því hvernig hagsmunir og ólík framtíðarsýn tókust á á fyrstu áratugum aldarinnar og þannig varð til forsaga þeirra laga sem nú á að reyna að breyta. Við könnumst við að skipuð var svokölluð fossanefnd, sem skiptist að lokum í meiri hluta og minni hluta, og hv. þm. Jóhann Ársælsson, framsögumaður minni hluta iðnaðarnefndar, lýsti í góðu máli afstöðu meiri hluta og minni hluta þeirrar nefndar í ræðu sinni á mánudag, síðan aftur þriðjudag. En niðurstöður nefndarinnar voru lagðar fyrir þingið í tvennu lagi, hygg ég 1919. Menn náðu svo ekki saman um þetta og Einari Arnórssyni var falið að semja nýtt frumvarp að lögum sem síðan varð að þessum vatnalögum.

Menn hafa velt þessum lögum töluvert fyrir sér. Einkum hafa þau verið viðfangsefni í lagadeild Háskóla Íslands og ekki að ósekju. Ég hygg að hinn pólitíski veruleiki að baki lögunum sé sá að fulltrúar þeirra stefna sem tókust á á þessum tíma í vatnamálum, allsherjarstefnunnar annars vegar og sameignarstefnunnar hins vegar, hafi náð málamiðlun þar sem tryggt var að vatnsföll landsins, þar með talin einstök náttúrufyrirbrigði þess, gengju ekki kaupum og sölum á markaði innan lands, sem var ekki stór, né heldur í kauphöllum erlendis eða meðal þeirra fyrirtækja sem þarna voru upp á sitt besta á milli stríða, rétt eftir heimsstyrjöldina fyrri. Þeir hafi komist að niðurstöðu um að best væri að tengja vatnsréttindin við landeign og það á sér auðvitað þá forsendu að þessum tíma var yfirgnæfandi meiri hluti landeiganda á Íslandi utan þéttbýlis bændur. Bændur voru einfaldlega í þeirri stöðu og höfðu þau pólitísku áhrif og þau pólitísku stefnumið að á þessum tíma var þeim vel treystandi til þess að halda á þessum vatnsréttindum nánast fyrir hönd þjóðarinnar, eins og ég kem inn á síðar, með hinni jákvæðu skilgreiningu sem er að finna í vatnalögunum. Það sem við þurfum að líta á núna er auðvitað það að býli og land í sveitum eru í sífellt í meira mæli að hverfa úr höndum bændastéttarinnar sem heildar og í hendur fasteignaeigenda og kaupsýslumanna sem eignast land til annars en ætla að búa á því.

Þetta er nú er ósköp einfaldlega viðurkennd staðreynd og menn hafa lýst því með talnadæmum og í prósentum sem fram hafa komið á þinginu þó að upplýsingar um þetta liggi ekki fyrir frá degi til dags og hafi, held ég, verið erfitt að ná í þær.

Forsendur laganna eru að þessu leyti breyttar en hins vegar má segja að hin jákvæða skilgreining reynist vel vegna þess að skilyrði þess að hægt sé að verða sér úti um vatnsréttindi er sú að eignast líka landið sem þeim fylgir. Það verður þess vegna erfiðara að mynda markað um vatnsréttindin ein.

Bakgrunnur þessa máls, eins og það er komið fyrir þingið, er svo sá að undanfarinn áratug og jafnvel tvo áratugi hefur, í þeim samfélagsbreytingum sem við höfum verið undirorpin og fögnum sumum en erum minna hrifin af öðrum, staðið yfir kapphlaup um auðlindirnar í landinu. Þetta höfum við auðvitað séð skýrast á auðlindum hafsins sem voru kvótasettar árið 1983 án verulegrar andstöðu enda töldu menn að verið væri að bregðast við minnkandi afla og verið væri að búa í haginn fyrir betri stjórnun auðlindarinnar á umhverfisvænan hátt. Við þekkjum þá sögu. Í kringum 1990 var stór áfangi þar sem leyft var framsal hlutdeildar í þessum afla en menn friðaðir með því að ákvæði um þjóðareign var sett inn í lögin um fiskveiðistjórn og þetta hefur þróast þannig að nú, 23 árum eftir setningu þessara laga, eru útgerðarmenn að ræða það í alvöru að hlutdeild þeirra flokkist undir einkaeignarrétt og sumir hafa jafnvel hótað því að hefja mál fyrir dómstólum til að staðfesta þann skilning sinn.

Annað dæmi um þetta eru auðvitað lög sem vitnað hefur verið til óspart í þessari umræðu, lögin um auðlindir í jörðu, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sem samþykkt voru árið 1998 sem ég hygg að hafi verið óhappaskref í sögu þings og þjóðar. Þar voru enn á ný sameiginleg verðmæti gerð undirorpin einkaeignarrétti, jafnvel þannig að túlka má lögin svo að sá sem kaupir land á Íslandi eignist það eftir þessum lögum niður að miðju jarðar, þar sem eðlilegt hefði verið að fasteign í formi lands fylgdi eins hvers konar réttur nokkra tugi metra niður á við og trygging fyrir því að menn héldu landinu svona nokkurn veginn eins og menn hafa litið á það hingað til í Íslandssögunni.

Það má minna á að þegar þetta gerðist og ljóst var að lögin voru samþykkt með þeim hætti að sá sem land ætti gæti t.d. borað eftir heitu vatni, nýtt það og ætti það sem kæmi upp í sinni landareign með þeim einum skilyrðum sem varða landareignina við hliðina, þá var spurt hvort hann væri þá líka ábyrgur fyrir því ef upp kæmi úr þessari holu eldur og yrði að jarðeldi, hvort landeigandinn væri þá jafnframt ábyrgur fyrir því tjóni sem sá jarðeldur mundi valda. Svarið hefur ekki fengist enn þá en þetta skref frá 1998 er annað dæmi um þá sókn í auðlindakapphlaupinu sem séreignarstefnumenn hafa staðið fyrir. Í þessum lögum frá 1998 voru líka sett ákvæði um vatn sem ég tel að hafi verið ákaflega óheppileg og eru nú notuð sem eins konar röksemd fyrir því að hér sé í raun og veru ekki verið að gera neitt með því að breyta vatnalögum. Nú má ræða það lengi hvaða áhrif þessi ákvæði um vatnið hafi, einkum um grunnvatnið í lögum um rannsóknir á nýtingu á auðlindum í jörðu. Mér er það ekki ljóst og ég er ekki tilbúinn að viðurkenna það með fullu að sá eignarréttur sem áskilinn er í 3. gr. þeirra laga eigi við grunnvatnið. Ég tel að grunnvatnið sé þess eðlis að einkaeignarréttur geti ekki átt við það og að í raun og veru sé þetta ákvæði með ýmsum hætti tómt hvað eignarrétt varðar þótt ég efist ekki um að nýtingarákvæðin í VII. kafla í 14. gr. og reyndar þeirri 15. einnig haldi.

Það er mikilvægt að í þeirri heildarendurskoðun sem verið er að hefja á þessum ákvæðum, og verður vonandi viðfangsefni okkar næstu ár, og líka í heildarendurskoðun sem er að hefjast í tengslum við lög sem við samþykktum á þinginu, að þar verði farið yfir grunnvatnsákvæðin í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og litið á hvort hægt sé að draga úr þeim og snúa þeim við þannig að ekki sé um neins konar eignarrétt þar að ræða, eins og vissulega má lesa út úr lögunum með ákveðnum lestrarhætti. Síðan þarf að skoða hvaða skaðabótaskylda kynni að fylgja þessu því það er haft eftir frumvarpshöfundi þess plaggs sem við ræðum nú að um skaðabótaskyldu sé að ræða eða kunni að vera að ræða ef hreyft er við grunnvatnsákvæðum laga um rannsókn á nýtingu á auðlindum í jörðu. Um það hef ég ekki meiri heimildir en þær sem ég hef heyrt frá iðnaðarnefnd en það hefur líka verið bent á þetta vegna þess að um leið er athugunarefni hvaða skaðabótarétt menn eru nú að færa landeigendum með því að breyta skilgreiningunni í vatnalögunum með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Í þessari umræðu og hinni fyrstu hafa menn tekist nokkuð á um hvað breytingin úr hinni jákvæðu skilgreiningu á umráðum yfir vatni yfir í hina neikvæðu sem jafngildir hreinum einkaeignarrétti, feli í sér. Það eru hér menn, frumvarpsflytjandinn, hæstv. iðnaðarráðherra og síðan þeir tveir sem tekið hafa þátt í 2. umr. af hálfu stjórnarliða, hv. þm. Birkir Jón Jónsson frá Framsóknarflokknum og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson frá Sjálfstæðisflokki, sem hafa haldið því fram að þetta skipti engu máli. Í greinargerð með frumvarpinu segir að um formbreytingu sé að ræða. Reyndar var þetta tvítekið í greinargerðinni sem um er að ræða. Annars vegar var sagt að um formbreytingu væri að ræða og hins vegar sagt að það væri „fyrst og fremst“ um formbreytingu að ræða en nú hefur það hins vegar verið leiðrétt af hálfu frumvarpsflytjandans, að í seinna skiptið eigi að taka út orðin „fyrst og fremst“ þannig að aðeins standi að um formbreytingu sé að ræða.

Þetta á sér þá sögu, forseti, að í frumvarpinu í fyrra var þetta á báðum stöðunum, a.m.k. á hliðstæðum stöðum í greinargerð þess frumvarps sem er nánast óbreytt og breyttist nánast ekkert við hvíldina í sumar, þó að góðu einu það litla sem var. Þar stóð að þetta væri fyrst og fremst formbreyting. Við það gerði m.a. laganefnd Lögfræðingafélags Íslands athugasemd og sagði að ef það væri álit frumvarpsflytjandans að hér væri eingöngu um formbreytingu að ræða ætti hann að taka það fram til að lögmenn hefðu hreinni línur í störfum sínum og þar með dómarar en laganefndin tók enga efnislega afstöðu til málsins, enda eru umsagnir laganefndar fyrst og fremst tæknilegs eðlis þar sem Lögfræðingafélag Íslands tekur yfirleitt ekki pólitíska afstöðu til einstakra frumvarpa nema þau varði þá störf lögfræðinga með skýrum og beinum hætti. Rétt er að taka það fram vegna þess að stjórnarsinnar hafa gumað nokkuð af umsögn laganefndarinnar og talið hana benda til þess að Lögfræðingafélagið og laganefnd þess sé með einhverjum hætti með pólitískar stuðningsyfirlýsingar við frumvarpsflytjandann og meiningar hans en það hygg ég að sé ekki.

Um þetta er nokkuð deilt og ég hef áður og aðrir í mínu liði hér, við samfylkingarmenn og stjórnarandstæðingar, höfum talið að hér sé ekki eingöngu um formbreytingu að ræða. Mér finnst furðulegt að kannast ekki við það að þetta kunni að vera meira en einföld formbreyting og finnst undarlegt að jafnskýr piltur og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson skuli hafa haldið langa ræðu í gær um það efni eitt að hér sé eingöngu um formbreytingu að ræða. Ég veit ekki, forseti, hvort nokkurs staðar er til skilgreining á því hvað formbreyting er. Út frá heilbrigðri skynsemi má segja að formbreyting sé eitthvað sem ekki er efnisbreyting en oft er það svo með form og innihald að það hangir með ýmsum hætti saman. Ég hygg að þó að þetta hafi gefið okkur ákveðin verkfæri til að flokka atburði í veruleikanum þá séu vandfundin skýr dæmi um formbreytingu sem ekki hefur áhrif á það efni eða innihald sem um er að ræða á sama hátt og efnisbreyting hlýtur að kalla á formbreytingu. En þetta eru almennar leikmannsathugasemdir um þessi orð.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hélt í gær langa ræðu sem var prýðilega flutt og þingmanninum í sjálfu sér til sóma þar sem hann sýndi fram á að hann kann ýmislegt fyrir sér í lögspeki og leiddi fram lögspekinga sem með ýmsu orðalagi hefðu að dómi ræðumanns staðfest þann skilning hans að í rauninni væri um eignarrétt að ræða, í raun og veru hefðu landeigendur eignarrétt á vatni í landi sínu samkvæmt vatnalögunum, nr. 15/1923. Í þeim er reyndar aldrei nefndur eignarréttur nema á einum stað þar sem um er að ræða almennan eignarrétt á landi en það er aldrei talað um eignarrétt á vatni. Og þegar við þekkjum tildrög þessara laga þá vitum við af hverju það er, það er vegna þess að lögin voru málamiðlun og partur af þeirri málamiðlun var sá að ekki var að ég hygg, andstætt hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, um að ræða að menn ætluðu að setja vatnið í eignarrétt.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson leiddi fram held ég fjóra eða fimm spekinga en ég hef ekki átt þess kost að líta á þau gögn, þær bækur eða rit sem hann las hér úr. Ég tók hins vegar eftir því að afdráttarlausast í þágu ræðumanns var vitnað í Þorgeir Örlygsson en aðrir spekingar þeir sem vitnað var í og ýmsir menn sem njóta virðingar sem lögmenn voru að mér heyrðist ekki jafnafdráttarlausir og prófessor Þorgeir Örlygsson, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kallaði hann honum til virðingar og hróss sem ég hygg að sé verðskuldað.

Það sem ég hygg að lögspekingarnir séu nú að gera er að í lagadeild Háskóla Íslands eru þessi vatnalög, tildrög þeirra vinsælt umræðu- og kennsluefni kannski einmitt vegna þess að eignarréttur er ekki í þeim nefndur og þess vegna þurfa menn sem vanastir eru því að glíma við ýmsan eignarrétt í störfum sínum og fræðum að finna út með hvaða hætti ákvæði vatnalaganna samsvara eignarrétti. Það sem flestir hafa fundið út er það að þau nýtingarréttarákvæði sem felast í vatnalögunum samsvari með ýmsum hætti eignarrétti þegar þröngt er talað eins og viðurkennt er með ýmis atvinnuréttindi þar sem eignarréttur fylgir ekki. Þannig skapist væntanlega skaðabótaskylda ef á þeim nýtingarrétti er troðið og ef Alþingi ætlaði að takmarka nýtingarréttinn eða breyta honum þyrfti þingið eða stjórnvöld að huga að því að það gæti valdið útlátum af ríkisins hálfu eins og um eignarrétt væri að ræða í þröngum skilningi. Þessi athugun lögspekinganna og annarra fræðimanna í háskólanum hygg ég að beinist fyrst og fremst að praktískum úrlausnarefnum sem lögmenn og dómarar mæta í störfum sínum frá degi til dags. En án þess að vera þessu kunnugur og hafa lesið þetta held ég að menn hafi ekki fjallað um þetta mál frá öðru sjónarmiði en þessu. Ég held líka að það sjónarmið að hin jákvæða skilgreining vatnalaganna hafði orðið að neikvæðri skilgreiningu í áranna rás, en það kom fram hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, standist ekki eða illa.

Hvaða máli skiptir það? geta menn spurt. Jákvæð skilgreining þessa svokallaða eignarréttar sem menn tala um í vatnalögunum þýðir að landeiganda eru heimil umráð um vatn í landeign sinni með þeim hætti sem rakinn er í lögunum og þeim hætti einum. Þar er að vísu löng upptalning og menn hafa sagt sem svo að litlu muni að taldar séu upp allar þekktar eða hagnýtar nýtingaraðferðir og þess vegna sé þetta hið sama. En það er mikill munur á hinni jákvæðu skilgreiningu og hinni neikvæðu vegna þess að hin neikvæða skilgreining er þannig að gengið er út frá eignarréttinum og skilgreint það eitt sem hann skerðir. Þetta þýðir auðvitað það að ef til koma nýir nýtingarhættir sem ekki eru áður kunnir þá eru þeir í neikvæðri skilgreiningu eignarréttar sjálfsagðir og eftirlátnir handhafar eignarréttarins. Til þess að breyta því þurfa þá stjórnvöld að skipta sér af því með lagasmíð og hætta á að verða fyrir skaðabótakröfum ef lagasmíðin nær fram að ganga og skerðir þá hinn neikvæða eignarrétt, eignarrétt með neikvæðri skilgreiningu sem þessu nemur.

Hin jákvæða skilgreining gerir hins vegar ekki ráð fyrir því í raun og veru að menn eigi hlutinn nema að því leyti sem þeir geti nýtt hann eftir upptalningunni sem í lögunum er að finna. Nýr nýtingarháttur er eigandanum eða rétthafanum, þeim sem nýtingarréttinn hefur eða á, ekki sjálfsagður. Fyrsti og eðlilegasti skilningurinn ef upp kemur tilvik um nýjan nýtingarhátt er sá að það þurfi sérstaklega að veita rétthafanum hann með sérstökum lögum. Hugsanlegt er að með lögjöfnun megi finna að hinn nýi nýtingarháttur samsvari algerlega einhverjum þeim sem eldri er og þannig nái nýtingarréttarákvæðin yfir hann en þá er hann ekki nýr með þeim hætti sem ég var að tala um.

Um vatnalögin er það svo þar að auki að segja að breytingin á þeim núna gerir ráð fyrir því að grunnvatn sé fært inn í vatnalögin, en það var ekki á sínum tíma. Síðan er gert ráð fyrir í vatnalagafrumvarpinu nú að alls kyns form vatns, sem ekki var rætt um í vatnalögunum 1923, falli enn fremur undir þennan eignarrétt sem vandlega er tekinn fram í frumvarpinu.

Í 2. gr. vatnalaganna frá 1923, þeirra ágætu laga, segir, með leyfi forseta:

„Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“

Þessi kafli þar sem 2. gr. er 1. gr. í, kaflinn hefst sem sé á 2. gr., heitir: Almenn ákvæði um vatnsréttindi.

Í vatnalagafrumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra er hins vegar fjallað um þetta líka í 2. gr. og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Munurinn er sá að í vatnalögunum sem enn gilda er talað um straumvatn eða stöðuvatn sem er á landareigninni en í frumvarpi til vatnalaga er sannarlega búið að víkka þetta út. Það er sem sé straumvatn eða stöðuvatn sem nú er kallað rennandi eða kyrrstætt vatn, hið fyrra orðalag er kannski hentugra og skemmtilegra, en þar er líka talað um að það sé neðan jarðar og það er talað um að það geti verið í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi. Vatn í föstu formi er kallað ís, jökull ef vatnið hefur verið í föstu formi nógu lengi til að taka á sig það eðli sem jökulís fylgir, og í loftkenndu formi er vatn oftast kallað gufa. Á það hefur reyndar verið bent og ég hygg að viðkomandi á eftir, þegar ég fer yfir umsókn frá Umhverfisstofnun, að í raun er ekki gerð nein sérstök grein fyrir því í þessu frumvarpi með hvaða hætti eignarrétturinn á að gilda um hið loftkennda form og hið fasta form. Ég held reyndar að þetta sé nefnt í umsögninni frá Náttúrufræðistofnun sem ég fjalla líka eilítið um síðar í ræðu minni.

Þetta þýðir auðvitað að sá réttur sem fylgir lögunum annars vegar og hins vegar frumvarpi til laga á ekki við sama andlagið því annars vegar er talað um straumvatn og stöðuvatn og hins vegar um vatn í hvers konar hugsanlegu formi. Það er því verið að ganga miklu lengra en það að hér sé um formbreytingu að ræða. Á þetta hefur verið bent í umfjöllun um þetta mál. Það er a.m.k. þrennt sem um er að ræða hér, og skapar mótbárur við þeirri fullyrðingu að einungis sé um formbreytingu að ræða, og það er sem sé form vatnsins sjálfs, það er grunnvatnið og það er nýr nýtingarháttur vatns.

Því er svo við þetta að bæta, þessa ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem var að því leyti sem ég heyrði hana, ég heyrði hana ekki alla, skemmtileg og margt glettilega sagt í henni, að lögmaðurinn og þingmaðurinn fór með himinskautum án þess að festa sig við jörðu. Það litla sem ég hef fylgst með í lögfræðiumræðu síðari ára þá fannst mér vanta greinargerð fyrir því hvaða fræðilega sjónarhorni hann beitti á þá speki sem fram kom í umræðunni um stjórnarskrá og sérstaklega þegar hér var sem mest rætt um málskotsákvæði forseta fyrir nokkrum missirum. Sú umræða er sem betur fer að mestu hætt um málskotsréttinn. Þá kom fram gáfaður og vel metinn lögfræðingur af gömlum skóla, Þór Vilhjálmsson, og hélt fram um málskotsréttinn kenningu sem byggðist á því að hann væri ekki til. Sú aðferð sem hann beitti við að komast að því að hann væri ekki til var eins konar hreinlestrarstefna laganna sem gerði ráð fyrir því að ekki bæri að lesa lögin í neins konar samhengi. Það væri ekki hægt að beita lögskýringargögnum til að túlka lögin heldur yrði að lesa þau ein og sér án þess að bera þau saman við greinargerðir eða ræður á þinginu til að reyna að finna út vilja löggjafans, hvað þá almenna umræðu eða umfjöllun um málið.

Mér þótti þetta fróðlegt vegna þess að þegar ég var í íslenskunámi mínu í háskólanum var svipuð kenning í tísku á þeim slóðum, þ.e. nýkrítik eða nýgagnrýni, new criticism á ensku. Sú kenning fól í sér viðbrögð við fyrri túlkunaraðferðum bókmenntafræðinga, svo sem ævisöguaðferðinni og samfélagslegri aðferð með einhverjum hætti, raunsæislegum, marxískum eða hverjum sem vera skyldi og síðan kannski þeirri aðferð sem við tók, sem voru ýmsar aðferðir sem byggðu á textasamhengi og nýgagnrýnendur afneituðu með sama hætti öllu öðru en textanum sjálfum. Það er textinn hreinn og klár sem átti að gilda og menn áttu að túlka hann einan og ekki að skoða höfund hans eða það samhengi sem hann var í, þá tíma sem höfðu á hann kallað, eða velta fyrir sér samhengi hans við einhverja aðra texta eða einhverjar kenningar sem uppi hefðu verið og haft áhrif á höfundinn eða textann sjálfan. Þetta var heillandi kenning. Mér þótti gaman að því að fara í gegnum þessi fræði vegna þess að óneitanlega hreinsaðist ýmis texti fyrir þessar sakir þar sem hann stóð einn og sjálfur fram og varð að standa undir sér án þess að fyrir honum færi hinn frægi höfundur eða sú samtíð sem hann gylltist af og stundum var það að textanum tókst að standa einum á þennan hátt. Það skipti ekki máli hver höfundurinn var og skipti ekki máli hvert samhengi hans var, þótti manni. Á öðrum stundum urðu textarnir að engu, voru lítils virði án þess að samhengið væri ljóst og án þess að höfundurinn væri klár og án þess að við vissum hvar hann stæði á æviferli sínum eða í stjórnmálum eða kenningakerfi og hvaða tengsl textinn hefði við aðra texta. Nú er yfirleitt litið svo á að nýgagnrýnin hafi verið hollt steypibað, hundahreinsun fyrir bókmenntafræðina og bókmenntafræðingana, og ég hygg að fáir aðhyllist þessa stefnu í sínu fagra formi lengur. En af þessum sökum þóttist ég kannast við hreinlestrarstefnu Þórs Vilhjálmssonar og gat bæði metið hana í jákvæðu ljósi og líka skilið þá gagnrýni sett var fram á hana.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson — ég hef það á tilfinningunni með mitt óglögga minni að þingmaðurinn hafi í umræðunni um stjórnarskrána og málskotsákvæðið tekið þessari kenningu fagnandi, að Þór Vilhjálmsson væri með þessari kenningu að skýra stjórnarskrána og komast að þeim sömu skoðunum sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og félagar hans ýmsir höfðu komist að með öðrum hætti. Þess vegna er athyglisvert að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson notaði ekki þessa aðferð í skýringu sinni á vatnalögunum. Hann kaus að vísu að líta fram hjá hinum augljósustu lögskýringargögnum, þeim sem finna má í greinargerð fyrir lögum, umræðum um lögin á þinginu og í þeirri almennu forsögu málsins sem menn hljóta að taka tillit til ef vafi leikur á um eitthvað í lögum og þarf að túlka þau. En þeim mun sterkar gekk hann fram í túlkunum seinni tíma manna á lögunum, tók þá meira tillit til aðstæðna þeirra, samhengis þess sem sú umræða fer fram í og á höfundi túlkananna, e.t.v. vegna þess að honum þótti að þær styddu sinn eigin skilning á eðli mála, eðli þess réttar sem við erum að ræða.

Það er kannski líka rétt að segja frá því í framhjáhlaupi að mér þótti fróðleg ræða Sigurðar Kára vegna þess að undanfarin ár og áratugi hafa verið töluverðar umræður í hópi lögfræðinga og við leikmenn fengið svona, hvað heitir það, reykinn af réttunum um það að hve miklu leyti dómstólarnir eiga að þróa lögin, að beita þeim með nýjum hætti vegna þess að uppi séu nýir tímar og aðrar aðstæður en þær sem lögin áttu við þegar þau voru sett. Allir eru sammála um að það eigi að fara varlega í þessu, dómarar eru dómarar en ekki löggjafar en hins vegar hafa verið deilur um það, bæði hér og ytra, að ég hygg kannski náð hámarki í Bandaríkjunum, að hve miklu leyti dómstólar hefðu rétt til þess arna. Í Bandaríkjunum hafa þessar deilur tekið á sig pólitíska mynd sem þar er algeng að repúblikanar, sem nú eru valdaflokkur þar vestra, hafa haldið á lofti flestir einni skoðun og demókratar annarri. Þetta mundi á okkar kvarða jafnast á við vinstri menn og hægri menn nokkurn veginn. Það vill svo til að vestra hafa menn tengdir Bush forseta og forustu repúblikana haldið því mjög eindregið fram að dómstólar ættu ekki að gera þetta, dómstólum bæri ekki að þróa lögin, að breyta lögunum eins og þeir taka til orða. Þeir ætluðu að halda sig við hinn upphaflega bókstaf og ef fyrir kæmu einhver tilvik í nútímanum þar sem freistandi væri að fella yfir hin gömlu ákvæði þá áttu dómarar að stilla sig um það og láta þar við sitja að benda löggjafanum á að um þetta tilvik væru engin lög. Demókratarnir hafa á hinn bóginn sagt að dómstólunum beri að leggja þá túlkun í lögin sem þeir telja að löggjafinn mundi hafa haft ef hann hefði vitað af því atviki eða vandamálum sem um væri að ræða á síðari tímum. Ekki ætla ég að skera úr um þetta, ég hallast kannski frekar að demókrataskilningnum á þessu en þó þannig að dómarar hafi ekki rétt til að breyta lögum og eigi ekki að túlka þau um of.

Það sem mína athygli vekur er að mér hefur heyrst að meðal lögmanna hér sé e.t.v. svipuð flokkaskipting uppi og í Bandaríkjunum, að þeir sem aðhyllast hægri stefnu í stjórnmálum, svo sem Björn Bjarnason, hæstv. dómsmálaráðherra, haldi fram svipuðum skilningi og repúblikanar í Bandaríkjunum en oft færi það saman að vera fremur frjálslyndur í stjórnmálum og að telja að dómstólar hafi ákveðinn rétt til að teygja greinar og ákvæði gamalla laga yfir á nýja atburði eftir því sem þeim þóknast.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson virðist í þessu dæmi ósammála skilningi repúblikana og Björns Bjarnasonar. Hann telur að ekki eigi að leggja áherslu á bókstafsfestu, að ekki eigi að líta á það sem menn hafi meint eða aðeins það sem þeir hafi meint í vatnalögunum frá 1923 heldur beri að túlka þau nokkuð frjálslega, að því er mér þykir, í ljósi þeirra viðfangsefna sem þeim hefur verið beitt á. Viðfangsefnin fara þá í raun að stjórna með nokkrum hætti túlkun manna á anda laganna og samhengi þeirra. Hin meinta dómaframkvæmd sem ég hef lýst áður og snýr að praktískum verkefnum, þar sem auðvelt er að bera saman venjulegan einkaeignarrétt og tiltekið nýtingarréttarform, breytir að því leyti þeim forsendum sem lögin byggja á, ekki síst ef Þorgeir Örlygsson eða aðrir lögskýrendur hafa komist vel að orði í ritgerðum sínum um þetta efni. Þetta voru athugasemdir mínar í framhjáhlaupi.

Ég vona að þær viti ekki á það að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, vörpulegur maður og þéttur á velli, hagi seglum eftir vindi í lagatúlkunum sínum og skilningi á lögunum. En mér þótti rétt að koma þessum athugasemdum á framfæri við hann. Hann getur auðvitað svarað þeim í umræðunni ef hann vill, enda á hann eftir síðari ræðu sína.

Forseti. Deilt hefur verið um formbreytingu og efnisbreytingu. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri deilu. Hún skiptir verulegu máli. En að baki þeirri deilu er auðvitað pólitísk deila sem nú um stundir stendur annars vegar á milli þeirra tveggja flokka sem ég varði nokkrum tíma í upphafi til að lýsa og greina, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem fara með landsstjórnina, og hins vegar okkar í Samfylkingunni og annarra stjórnarandstæðinga, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins. Sú pólitíska deila er auðvitað áberandi í samfélaginu líka.

Í því kapphlaupi sem staðið hefur yfir í tvo áratugi eða svo má segja að síðarnefndu flokkarnir hafi verið fulltrúar allsherjarstefnunnar, ef talað er mál fossanefndarinnar frá fyrstu áratugum aldarinnar. En hinir hafa verið fulltrúar séreignastefnunnar. Ég tel hollt og gott fyrir okkur að ræða þau átakamál sem við eigum við á þeim grunni en leggjast ekki of djúpt í formsatriði þótt þau skipti að sjálfsögðu miklu máli.

Við allsherjarstefnumenn 21. aldarinnar höfum tekið undir þau rök feðra okkar frá upphafi 20. aldar að okkur beri að eiga sameiginlega auðlindir af ákveðnu tagi og hafa á þeim tiltekna gerð eignarhalds, sem er kölluð þjóðareign. Við teljum að aðrar auðlindir séu þannig vaxnar, séu gæddar því eðli, að falla líka undir allsherjarstefnuna þótt um eiginlegan eignarrétt sé kannski ekki að tala. Við höfum kallað það þjóðarforsjá. Ég held með Jóni Þorlákssyni, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson rakti hér. Ég held að vatn sé óeignarréttarlegt fyrirbæri. Ég tel ákaflega erfitt að koma hefðbundnum eignarrétti á vatn vegna þess hvers eðlis það er. Mér þykir í raun sem tilraunir til þess í frumvarpi til vatnalaga séu heldur vandræðalegar. Vatn kemur ósköp einfaldlega af himnum ofan og það rennur í burt frá mönnum. Á fundi í Verkfræðingafélaginu, sem hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fannst mjög ómerkilegur vettvangur — ég get fullvissað hann um að á árunum kringum 1920 var Verkfræðingafélagið það ekki og ég hygg að það sé enn mjög merkilegur vettvangur fyrir alls kyns mál — sagði Jón Þorláksson að vatn væri í eðli sínu einskis eign, væri res nullius eins og það er kallað á lagalatínu, res nullius annars vegar og res communes eða sameign. Ég hygg að þessi hugtök megi rekja til Rómaveldis þar sem ákveðinn munur sé á eðli eignar og því hvernig fara skuli með hana. Í raun fellur hvort tveggja undir allsherjarstefnuna og á því er ekki mikill munur þegar um lagaskilgreiningar er að ræða.

Þó má segja að með res communes, sameign, eða auðlind sem er í sameign, sé gert ráð fyrir einhvers konar gjaldi gegn nýtingu. En um einskis eign sem er í þjóðarforsjá væri síður hægt að tala um gjald. Þegar við ræðum um vatn kemur þetta vel í ljós. Þjóðarforsjáin felst, fremur en að heimta einhvers konar gjald af vatni sem ekki hefur staðið til af almennum vatnsnotum, í að þjóðin beri sameiginlega ábyrgð á því að nóg sé af vatninu, því sé skynsamlega skipt og ekki spillt með neinum hætti.

Á þinginu höfum við orðið vör við að stjórnarsinnar, hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar og þingmenn í stjórnarliðinu, koma stundum af fjöllum þegar rætt er um önnur hugtök á sviði eignarréttar, jafnvel þeir sem löglærðir eru, en einkaeignarréttinn. Hann er eina form eignarréttar eða eignarumráða sem menn virðast þekkja. Þeir geta ekki um annað rætt og telja að önnur umráð eða form eignarréttar séu vart til. Menn geta að vísu viðurkennt að ríki eða sveitarfélag, í fyrsta lagi félag, geti haft svipaðan eignarrétt og einstaklingur eða fjölskylda, að sveitarfélag eða ríki geti átt eitthvað en þó þannig að sá eignarréttur sé sams konar og eignarréttur einstaklings. Það er auðvitað rétt að eignarréttur ríkis eða sveitarfélags getur verið nánast sams konar og eignarréttur einstaklings. Það er enginn réttarfarslegur munur á því að ég eigi bíl, að ég hafi eignarréttarleg umráð yfir bíl, eða að ríkið hafi þau. Ég get selt bílinn og ríkið getur það líka. Ég get keypt mér annan og það getur ríkið líka. Ég get látið gera við bílinn og það getur ríkið líka o.s.frv. Það er nákvæmlega eins. En auðvitað er til önnur ríkiseign eða sveitarfélagaeign, og þá nota ég þessi hugtök, sem er annars konar vegna þess að hún hlítir ekki sömu lögmálum og að ég eigi bíl og ríkið eigi líka sams konar bíl. Þar má til dæmis nefna vegi, gangstéttir, veitukerfi og annað sem eðlilegt er að ríkið eigi. En ríkið hefur ekki réttinn til ráðstöfunar eða eyðileggingar eins og t.d. í því dæmi sem ég nefndi áðan í tengslum við bifreiðareign.

Ég ætla að lesa þrjá texta um eignarrétt. Það eru aðrir textar en þeir sem Sigurður Kári Kristjánsson las upp. Í fyrsta lagi er um að ræða kafla um eignarhald úr skýrslu auðlindanefndar. Í öðru lagi er kafli um svipað efni úr niðurstöðum starfshóps sem Samfylkingin setti af stað fyrir skömmu. Í þriðja lagi er kafli um svipað efni eftir Þorstein Gylfason sem lést fyrir aldur fram, í lok síðasta árs að mig minnir. Ég hygg að þegar við höfum farið í gegnum þessa texta sjáum við að málið er ekki eins einfalt og ýmsir þingmenn virðast telja í fullri alvöru.

Auðlindanefnd var skipuð eftir mikið japl, jaml og fuður til að reyna að ná viti í umræðuna, sem mönnum þótti vera farið úr henni í tengslum við deiluna um kvóta og eignarhald á auðæfum hafsins. Eins og menn muna settust í nefnd fulltrúar flestra flokka og komust að niðurstöðu sem ýmsir fögnuðu en hefur því miður ekki orðið forsenda frekari vinnu eða grundvöllur ákvarðana um auðlindir. Sú niðurstaða er nokkrar síður og ég bið þingheim að vera þolinmóðan meðan ég fer yfir þær. Í þeim niðurstöðum er sérstaklega fjallað um eignarhald á náttúruauðlindum, í 5. þætti II. kafla skýrslunnar. Ég hef lestur þar sem auðlindanefndin hefur sett fyrirsögnina „Yfirlit“, með leyfi forseta:

„Eignarhald á náttúruauðlindum hefur verið með ólíkum hætti samkvæmt íslenskum rétti.

Áður fyrr tíðkaðist að flokka landsvæði á Íslandi í eignarlönd, afrétti og almenninga eftir því hvernig eignarhaldi var háttað á þeim. Á þeirri skipan var gerð breyting með lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur, þar sem íslensku landi er að meginstefnu til skipt í eignarlönd og þjóðlendur. Í 1. gr. laganna er eignarland skilgreint sem landsvæði sem háð er einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma. Þjóðlenda er landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Í 2. gr. laganna kemur fram að íslenska ríkið er eigandi hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti.

Samkvæmt þessu eru sumar náttúruauðlindir á landi háðar einkaeignarrétti en aðrar eignarrétti ríkisins sem sérstaklega er kveðið á um í lögum. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, er eignarréttur að auðlindum í eignarlöndum, þar með töldum innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, í höndum landeigenda. Hins vegar er lýst yfir eignarrétti ríkisins á auðlindum í jörðu utan eignarlanda og nær sá réttur m.a. til jarðefna, jarðhita og grunnvatns. Í 2. gr. vatnalaga, nr. 15/1923“ — sem við þingmenn þekkjum vel, enda þau til umræðu hér — „segir að landareign hverri fylgi réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni og stöðuvatni, sem á henni er. Þessi réttur eiganda nær til nýtingar á vatnsorku, sbr. 49. gr. laganna. Þá er það meginregla samkvæmt íslenskum rétti að landeigandi á einkarétt til veiða á landi sínu, þar með talið í ám og vötnum, þótt frá þeirri reglu séu gerðar nokkrar undantekningar í lögum.

Í lögum nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, er því slegið föstu að íslenska ríkið sé eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum, utan netlaga, og svo langt til hafs sem fullveldisréttur íslenska ríkisins nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. Áður fyrr nutu landsmenn réttar til þess að veiða í svonefndum hafalmenningum, þ.e. í sjó, utan netlaga. Þessi réttur til veiða byggðist ekki á einkaeignarrétti heldur var um að ræða almennan rétt hvers og eins. Á síðari árum hafa veiðar verið takmarkaðar með ýmsu móti, sbr. lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 1. gr. þeirra laga segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Merking þessa ákvæðis er ekki skýr en nærlægast er að telja að það feli í sér almenna markmiðsyfirlýsingu og jafnframt áréttingu hinnar fornu reglu um heimild manna til veiða í hafalmenningum innan þeirra takmarka sem lög setja. Þá er það einnig óljóst hvers eðlis sá réttur nákvæmlega er sem fólginn er í veiðiheimildum er úthlutað hefur verið á grundvelli laga nr. 38/1990.

Samkvæmt framansögðu má segja að form á eiginlegum eignarráðum að náttúruauðlindum sé í meginatriðum tvenns konar að íslenskum rétti. Í fyrsta lagi er um að ræða séreignarrétt einstaklinga eða lögaðila sem hér að framan hefur verið nefndur einkaeignarréttur. Segja má að sérstök sameign sé eitt afbrigði af því eignarformi. Þeir sem njóta eignarréttar af þessu tagi fara með rétt til hvers konar umráða og ráðstöfunar auðlindanna, að svo miklu leyti sem þeim rétti eru ekki settar skorður í lögum eða vegna réttinda annarra. Í öðru lagi verður líklega að telja eignarrétt ríkisins sem því hefur verið fenginn með einstökum fyrirmælum í lögum sérstakt form á eignarráðum. Það sem skilur að þennan rétt ríkisins og einkaeignarrétt, sem ríkið getur verið aðili að eins og hver annar lögaðili,“ — forseti, hér er komið að mismunandi ríkiseign sem ég reifaði áðan — „er að ríkinu hefur verið fenginn hinn sérstaki eignarréttur í skjóli þess að engir aðrir einstaklingar eða lögaðilar geti sannað eignarrétt sinn að þeim eignum sem um er að ræða. Dæmi um þetta er eignarréttur ríkisins að auðlindum í jörðu, utan eignarlanda, eignarréttur þess að auðlindum hafsbotnsins, utan netlaga, og eignarréttur þess að þjóðlendum. Í tveimur fyrri tilvikunum eru eignarráðum ríkisins ekki sett nein takmörk en hins vegar eru settar tilteknar skorður við þeim að því er varðar þjóðlendur. Þannig er gengið út frá því í þjóðlendulögum að ekki verði afsalað með varanlegum hætti til einstaklinga eða lögaðila eignarrétti að landi sem er innan marka þjóðlendna. Hins vegar má veita slíkum aðilum heimild til hagnýtingar lands og annarra réttinda á þjóðlendum, sbr. 3. og 4. gr. laganna.

Segja má að þriðja form eignarráða sé almannaréttur, þar sem allir landsmenn hafa rétt til hagnýtingar á tiltekinni eign, innan lögmæltra marka, án þess þó að honum fylgi hefðbundinn einkaeignarréttur. Réttur sá sem fyrir er mælt í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, verður líklega felldur undir þessa tegund eignarráða. Við almannarétt sem eitt afbrigði eignarráða verður hins vegar að gera þann fyrirvara, í ljósi dómsniðurstaðna, að hann sem slíkur nýtur að öllum líkindum ekki neinnar verndar sem eignarréttur í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar en öðru máli gegnir um atvinnuréttindi sem honum tengjast.“

Þarna rekur nefndin það fyrir okkur að í núgildandi rétti sé einkum um þrenns konar eignarrétt að ræða. Í fyrsta lagi séreignarrétt einstaklinga, einkaeignarrétt þeirra eða lögaðila, í öðru lagi eignarrétt ríkisins, en ekki þann að ríkið eigi bíl eins og hver annar heldur hafi því verið afhentur réttur í skjóli þess að engir aðrir geti sannað eignarrétt sinn af eigninni, eða að ríkið sé eins og kóngurinn var í gamla daga, hinn eðlilegi yfirráðandi þeirra rétta sem allir eiga hlut í. Þriðja formið er almannaréttur sem hefur ákveðnar lögfræðiréttarlegar takmarkanir en kann að skapa atvinnuréttindi, þeim sem tengjast honum.

Næsti kafli fjallar um þjóðareignarrétt og er vel við hæfi að lesa hann þar sem einmitt er fjallað um þá tegund eignar. Hann er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ef það er virt sem að framan er rakið er ljóst að mismunandi reglur gilda að íslenskum rétti um eignarhald á þeim náttúruauðlindum sem ekki eru háðar einkaeignarrétti. Á hinn bóginn er í senn eðlilegt og æskilegt að sömu reglur gildi um það efni, enda verður ekki séð að neitt réttlæti það í sjálfu sér að gerður sé greinarmunur í lögum á aðkomu ríkisins að þjóðlendum, auðlindum í jörðu, hafsbotninum og nytjastofnum í sjó. Enn fremur er brýnt að bundinn verði endi á þá réttaróvissu sem ríkt hefur um rétt þeirra sem fengið hafa leyfi til veiða á grundvelli laga um stjórn fiskveiða.

Í því skyni að eyða þessari réttaróvissu og samræma um leið reglur um eignarhald á þeim náttúruauðlindum sem ekki eru undirorpnar einkaeignarrétti er lagt til að tekið verði upp nýtt form á eignarrétti til hliðar við hinn hefðbundna séreignarrétt einstaklinga og lögaðila. Það heiti sem orðið hefur fyrir valinu er þjóðareignarréttur, þ.e. eignarréttur íslensku þjóðarinnar á þeim náttúruauðlindum sem ekki eru þegar háðar einkaeignarrétti. Segja má að fyrirmyndin að þessu heiti og þeirri hugsun sem að baki býr sé fengin frá 4. gr. laga nr. 59/1928, um friðun Þingvalla“ — sem við höfum numið úr gildi með nýjum lögum — „þar sem því er lýst yfir að hið friðlýsta svæði skuli vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar.

Í sjálfu sér má segja að þessu nýja formi á eignarrétti fylgi sömu heimildir og talið hefur verið að felist í fullveldisrétti ríkisins. Sá er þó munurinn að ofangreindar náttúruauðlindir eru lýstar eign þjóðarinnar og þar með girt fyrir að aðrir aðilar geti eignast beinan eignarrétt að þeim, t.d. fyrir hefð. Vegna þess að þjóðin er ekki lögaðili og þar með bær til að vera eiginlegur eigandi að lögum með sama hætti og ríkið er nauðsynlegt að kveða nákvæmlega á um það að handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds, þ.e. Alþingi og stjórnvöld, fari með allar þær eignarréttarheimildir sem í hinu nýja eignarformi felast í umboði þjóðarinnar. Að öðrum kosti yrði eignarréttur þjóðarinnar merkingarlaus. Að þessu gefnu liggur ljóst fyrir og verður ekki vefengt að heimilt er, eftir því sem kveðið kann að vera á um í lögum, að veita einstaklingum og lögaðilum heimild til afnota eða hagnýtingar á auðlindum í þjóðareign sem njóti stjórnarskrárvarinnar verndar sem óbein eignarréttindi.“

Í 3. undirkafla, fimmta þáttar II. kafla þessara niðurstaðna er fjallað um auðlindir án eiginlegs eignarréttar. Það er kafli sem okkur varðar mjög, í ljósi ummæla Jóns Torfasonar á hinum fræga fundi í Verkfræðingafélagi Íslands sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson taldi vera ómerkan og ekki mikils virði. En þessi kafli heitir „Auðlindir án eiginlegs eignarréttar“ og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hér að framan hefur hugtakið „náttúruauðlindir“ verið einskorðað við þau verðmæti eða náttúrugæði sem eru þess eðlis að þau geta verið undirorpin einkaeignarrétti. Það fer hins vegar eftir stjórnarskrá og almennum lögum á hverjum tíma hvernig eignarráðum að þessum auðlindum er skipað. Fyrir utan náttúruauðlindir í þessari þrengri merkingu eru fyrir hendi margvísleg náttúrugæði sem telja má til náttúruauðlinda í víðtækustu merkingu þess orðs. Þessi gæði eru hins vegar þess eðlis að þau hafa, a.m.k. ekki til þessa, verið talin hæft andlag eiginlegs eignarréttar.

Latneska hugtakið res communes merkir það sem er öllum sameiginlegt. Í eignarrétti hefur það hugtak fyrst og fremst verið notað um ákveðin gæði og/eða eftir atvikum svæði sem eru utan lögsögu einstakra ríkja og öllum frjáls til umferðar og nota. Talið er að yfir gæðum þessum og svæðum sé ekki unnt að viðurkenna neinn eignarrétt í hefðbundnum skilningi, hvorki einkaeignarrétt né eignarrétt ríkja. Þetta helgast af því að umrædd gæði eru með þeim hætti að segja má að ótakmörkuð afnot þeirra séu óhjákvæmileg til eðlilegra lágmarkslífsskilyrða og til frjálsrar þróunar og afkomu einstaklinga og mannkyns alls. Þá er og til þess að líta að sum þessara gæða eru ekki talin hæft andlag eignarréttar, svo sem andrúmsloftið, sólarljósið, vindur og fleiri sambærileg náttúruöfl.

Í þessu samhengi má nefna úthafið, þ.e. hafsvæði það sem er utan lögsögu ríkja. Úthafið er öllum ríkjum frjálst til umferðar og nota. Ekkert ríki getur slegið eign sinni á hluta þess eða áunnið sér forréttindi þar umfram önnur ríki, með hefð eða á annan eignarréttarlegan hátt. Að baki grundvallarreglunni um frelsi úthafsins liggur aldagömul þjóðréttarhefð en um nánari útfærslu skyldna og réttinda vísast til Genfarsamningsins um úthafið frá 1958, hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982 og úthafsveiðisamnings Sameinuðu þjóðanna frá 4. ágúst 1995. Hafið milli ytri marka netlaga og að ytri mörkum efnahagslögsögunnar lýtur ekki eignarrétti í hefðbundnum skilningi þess orðs en á hinn bóginn hefur auðlindum á því svæði og nýtingu þeirra verið ráðstafað að fullu af löggjafans hálfu.

Réttarstaða geimsins, þ.e. svæðisins utan lofthelgi einstakra ríkja, er áþekk réttarstöðu úthafsins. Hér er um að ræða svæði sem ekkert ríki getur helgað sér eða lagt undir sig en er öllum frjálst til umferðar og friðsamlegra nota. Um réttarstöðu geimsins vísast til þjóðréttarsamnings um rannsóknir og not ríkja af himingeimnum, tungli og stjörnum frá 10. október 1967,“ — rétt áður en Bandaríkjamenn sendu fyrstu fulltrúa mannsins til tunglsins — „samnings um björgun geimfara, framsal geimfara og skil á hlutum sem skotið hefur verið út í geiminn frá 19. desember 1967 og samningsins um tunglið og aðra hnetti frá 5. desember 1979.“ — Ég hygg að nærstaddur hv. þm. Jóhann Ársælsson þekki vel, eins og aðra slíka alþjóðasamninga um gæði himins og jarðar.

„Þótt umrædd gæði og svæði geti ekki lotið einkaeignarrétti verður að gera tvenns konar fyrirvara við þá meginniðurstöðu.

Í fyrsta lagi er það svo að einstakir hlutar þeirra geta orðið eign í venjulegri merkingu þegar þeir eru teknir frá og afmarkaðir nægilega, t.d. ef hafrannsóknamenn taka sýnishorn af sjó til vísindalegra rannsókna eða ef orka eða önnur ákveðin og áþreifanleg verðmæti eru unnin úr andrúmslofti og sólarljósi. Þess konar taka, sem ekki skerðir rétt almennings til að njóta þessara gæða og svæða, er talin hverjum manni frjáls. Vegna breyttrar tækni geta þannig orðið til verðmæti sem áður voru ókunn og eru þess eðlis að þau geta orðið hæft andlag eignarréttar. Nýlegt dæmi eru rafsegulbylgjur til fjarskipta, en væntanlega er ekkert því til fyrirstöðu að rétthafi ákveðinnar senditíðni njóti verndar að eignarrétti eftir því sem mælt kann að verða fyrir um í lögum.“

Þetta er merkilegur kafli. Hér er gert ráð fyrir því að skapast geti nýir nýtingarhættir sem áðan var rætt um varðandi vatnið. Því er ekki sjálfgert og sjálfsagt að breyting sem kölluð er formsbreyting, þ.e. því er haldið fram að formsbreytingin sem haldið er fram að hafi enga þýðingu nema textalega í lögbókum, hafi ekki ýmsar afleiðingar sem við þekkjum ekki nú. Það er ekki gerlegt fyrir okkur á þessari stundu, árið 2006, að vita hvaða nýtingarhættir verða viðhafðir í framtíðinni. Ágæt dæmi um það eru nefnd hér. Menn gátu ekki gert sér grein fyrir því fyrr á tímum að hægt yrði að vinna verðmæti, m.a. orku, beint úr sólarljósi. Þótt menn hafi gert sér grein fyrir því að sólarljósið var uppspretta lífs og orku, hvað þá að menn gerðu sér grein fyrir því fyrir 100 eða 150 árum að bylgjur í andrúmsloftinu gætu talist til verðmæta og þyrfti að hafa áhyggjur af útdeilingu þeirra og umráðum yfir þeim.

Í framhaldi af þessu má hugsa sér að til yrði einhver sú nýting vatns sem við þekkjum ekki núna. Hvernig færi með hana samkvæmt vatnalögum frá 1923? Löggjafinn þyrfti að hafa af henni afskipti, þ.e. sé ekki hægt að lögjafna þeim nýtingarhætti við nokkuð sem okkur er tamt að tala um. En með hinum nýju lögum mundi ríkið engin afskipti af því hafa öðruvísi en þau að hætta skapaðist á skaðabótaskyldu. Þau afskipti hlytu að felast í því að stjórnvöld, í þessu dæmi Alþingi, skertu eignarrétt manna á vatni með hinni neikvæðu skilgreiningu sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Ég held áfram örlítið lengra í niðurstöðum auðlindanefndar, með leyfi forseta:

„Hvað sem líður eignarréttarlegum heimildum að gæðum á borð við andrúmsloftið og sólarljósið eða svæðum eins og úthafinu, þá er það í öðru lagi svo að ráðstöfun, nýting og meðferð umræddra gæða og svæða er ýmsum takmörkunum háð. Ríki heims hafa t.d. gert með sér alþjóðlega sáttmála þar sem þau hafa tekist á hendur margvíslegar þjóðréttarlegar skuldbindingar til þess að vernda þau óheftu og óspilltu not sem um var fjallað hér að framan og tryggja þar með sjálfbæra þróun mannkynsins. Í krafti fullveldisréttar síns hafa síðan einstök ríki, þar á meðal íslenska ríkið, sett reglur í þessu skyni innan lögsögu sinnar. Að íslenskum rétti gilda t.d. fjölþættar reglur um andrúmsloftið þar sem m.a. eru settar skorður við nýtingu þess. Þá sætir orkunýting takmörkunum samkvæmt lögum og næðu þær t.d. til nýtingar vinds til raforkuvinnslu. Að þessu virtu er ljóst að umrædd náttúrugæði lúta yfirráðum einstakra ríkja á grundvelli fullveldisréttar þeirra og falla jafnframt undir þjóðréttarlegar skuldbindingar þeirra. Umfjöllun um réttarreglur af þessu tagi fellur undir umhverfisrétt sem er nýtt og sjálfstætt réttarsvið óháð en þó náskylt hinum hefðbundna eignarrétti.“

Þarna kynnum við að vera komin að rótum þess vanda hvers vegna jafnvel hinir lögfróðustu menn hér á þinginu eru eins og ekki með í umræðu um umráð og ýmiss konar eignarrétt þegar hann er komin út fyrir hin venjulegu afskipti lögfræðinga í dómstólum.

Auðlindanefndin lagði til í framhaldi af þessu nýtt stjórnarskrárákvæði og það er fróðlegt að fara yfir það. Hún leggur til að það sé sett í VII. kafla stjórnarskrárinnar og svo vill til, forseti, að einmitt núna er verið að endurskoða stjórnarskrána í sérstakri nefnd sem skipuð var fyrir skömmu og ýmsir merkilegir menn eiga sæti í og ég hygg að fyrir þeirri nefnd liggi einmitt tillögur væntanlega frá auðlindanefndinni og frá öðrum um það að sett sé ákvæði um náttúruauðlindir og afstöðu þjóðarinnar til þeirra í stjórnarskrá. Auðlindanefndin vill hafa þetta ákvæði svona og setja það í VII. kafla og lýsa með því þær náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti þjóðareign. Ákvæðið á að vera svona, með leyfi forseta:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.“

Ég vek athygli á því að nefndin orðar þetta svona, að handhafarnir fari með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt, og ég hygg að þetta sé vegna þess að ekki er endilega um allt þetta þrennt að ræða í einu um það sem hér er kallað þjóðareign. Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.“

Auðlindanefndin skýrir þetta ákvæði svo, með leyfi forseta:

„Í 1. mgr. er því lýst yfir að þær náttúruauðlindir og réttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti séu þjóðareign sem handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds, þ.e. Alþingi og stjórnvöld,“ — þetta er að vísu ekki heppilegt orðalag því að Alþingi er auðvitað hluti stjórnvalda, væntanlega er átt við Alþingi og ríkisstjórn — „fari með forsjá fyrir, varðveiti og geti jafnframt ráðstafað í umboði þjóðarinnar skv. 2. mgr.

Vegna þess m.a. að aðstæður og viðhorf geta breyst í tímans rás er ekki gert ráð fyrir að náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign verði skilgreind í sjálfri stjórnarskránni heldur verði það gert í almennum lögum. Þó er gengið út frá því að land, landsréttindi, auðlindir og hlunnindi í þjóðlendum, sem ekki hafa verið háð einkaeignarrétti, verði þjóðareignir, sbr. lög nr. 58/1998, um þjóðlendur, og lög nr. 57/1998, um rannsóknir á nýtingu á auðlindum í jörðu. Sömuleiðis nytjastofnar á Íslandsmiðum, sbr. lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og auðlindir sem eru á, í eða undir hafsbotninum, utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær, sbr. lög nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Ákvæði þessara laga þyrfti að laga að hinu nýja stjórnarskrárákvæði.

Samkvæmt framansögðu er ekkert því til fyrirstöðu að löggjafinn felli fleiri eignir en þær sem að framan greinir undir þjóðareignarhugtakið. Segja má að það hafi þegar verið gert með lögum nr. 59/1928, um friðun Þingvalla. Á sama hátt væri með einfaldri lagabreytingu unnt að gera einhverjar af umræddum eignum háðar einkaeignarrétti í stað þjóðareignarréttar.

Í 2. mgr. er því lýst yfir að náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign megi ekki selja eða láta varanlega af hendi til annarra aðila. Þó er gert ráð fyrir að stjórnvöld geti veitt öðrum aðilum heimild til afnota eða hagnýtingar á slíkum eigum með tilteknum skilyrðum og að teknu tilliti til þeirra markmiða sem frá greinir í 3. mgr. Með heimild til afnota eða hagnýtingar í 2. mgr. er átt við heimild til afnota eða hagnýtingar sem sérstakt leyfi þarf til þannig að aðrir en leyfishafar geti ekki haft þau sömu not. Þar með fellur almannaréttur, svo sem réttur til umferðar um land, ekki undir þetta hugtak. Kveðið er á um það í niðurlagi 2. mgr., til þess að taka af allan vafa, að heimild til afnota eða hagnýtingar njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar sem óbein eignarréttindi á borð við hefðbundin leigu-, afnota- og ítaksréttindi.“

Síðan fjallar auðlindanefndin, að þessu sögðu, um samræmda stjórn á nýtingu náttúruauðlinda og telur að þörf sé á samræmdri stefnu og stjórn á nýtingu náttúruauðlinda og hún þurfi að byggjast á þeim meginatriðum að komið sé á heilsteyptum lagaramma um hlutverk og ábyrgð ríkisins á ráðstöfun og nýtingu náttúruauðlinda og hins vegar að menn beiti hagrænum stjórntækjum á grundvelli vel skilgreinds eignar- eða afnotaréttar þar sem því verður við komið ásamt leiðréttandi sköttum og uppbótum þar sem það á við. Væri fróðlegt að lesa þann kafla síðar í áliti auðlindanefndar.

Það er merkilegt að auðlindanefndin, auk þess að fjalla um náttúruvernd í þjóðareign, fjallar um auðlindir sem ekki eru háðar eignarrétti í þessum 6. þætti II. kafla og segir um þær auðlindir, með leyfi forseta:

„Ýmsar mikilvægar náttúruauðlindir eða náttúrugæði hafa ekki verið talin undirorpin beinum eignarrétti. Má hér nefna andrúmsloftið, sólarljós, vindorku og rafsegulbylgjur til fjarskipta. Nefndin telur æskilegt að forsjárhlutverk samfélagsins gagnvart slíkum náttúrugæðum verði í framtíðinni skýrt skilgreint í heildarlöggjöf um náttúruauðlindir og umhverfismál þótt ekki séu gerðar nánari tillögur um efni slíkrar löggjafar hér. Rétt er hins vegar að benda á að hugsanlegt sé að sumar þeirra auðlinda sem hér um ræðir verði lýstar þjóðareign í framtíðinni, má þar t.d. nefna rafsegulbylgjur til fjarskipta, lofthelgi Íslands og vindorku. Framangreind stjórnarskrárákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign mundu þá gilda um nýtingu þeirra.“

Ég ætla ekki að lesa meira úr áliti eða skýrslu auðlindanefndar eins og hún er fróðleg en tel að menn séu nokkru nær um ýmsar gerðir eignarumráða og forsjár eftir þessa skýrslu.

Ég ætla næst, eins og ég hét áðan að ræða nokkuð niðurstöðu starfshóps sem starfaði í Samfylkingunni og vék að þessum efnum. Starfshópurinn var skipaður um efnið „Umhverfisvernd andspænis auðlindanýtingu“ og erindisbréf hans var með þessum hætti, með leyfi forseta:

„a. Hvaða auðlindir eiga að vera þjóðareign og hvernig á að skilgreina þá eign í stjórnarskrá og lögum?

b. Á að breyta einkaeign í þjóðareign, hvernig er það hægt — aðferðir, vandamál?

c. Hver má nýta þjóðareign og hvernig á að úthluta réttinum til nýtingar — á sama aðferðafræðin við í öllum tilvikum?

d. Hvernig á að meta arðsemi náttúrunnar andspænis arðbærri nýtingu náttúruauðlinda?

e. Hvaða aðferðafræði er hægt að viðhafa til að minnka átök milli þeirra sem leggja áherslu á náttúruverndarsjónarmið og hinna sem leggja áherslu á nýframkvæmdir og atvinnusköpun?“

Sú spurning og svörin við henni liggja utan við það umfjöllunarefni sem hér er til umræðu eða a.m.k. í jaðri þeirra.

Það er fróðlegt að fara í gegnum þessa samantekt og ég ætla fyrst að fjalla um niðurstöður þessa hóps um greiningu á náttúrugæðum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Gæði náttúrunnar eru fjölþætt, svo sem loft, vatn, gróður og stjörnur himinsins. Þegar náttúrugæði eru nýtt í efnahagslegu samhengi kallast þau náttúruauðlind. Náttúran eða náttúrugæðin verða náttúruauðlind þegar náttúran eða náttúrugæðin verða hluti af efnahagsstarfseminni, þegar má hafa af náttúrunni tekjur eða annan notaávinning, beint eða óbeint, nú eða í framtíðinni. Af þessum sökum lítur hópurinn á náttúruvernd sem eina aðferð við nýtingu náttúruauðlinda. Í mörgum tilvikum er ávinningur af auðlindanýtingu mælanlegur í krónum og aurum. Í öðrum tilvikum kann það að vera erfitt eða jafnvel ómögulegt, jafnvel þó færa megi sannfærandi rök fyrir því að hann sé til staðar. Í mörgum tilvikum útilokar ein notkun auðlindarinnar aðra. Ef erfitt er að meta ávinning getur verið erfitt eða jafnvel ómögulegt að bera saman hagkvæmni ólíkra nýtingarmöguleika fyrir samfélagið. Ákvörðun um auðlindanýtingu verður því aldrei eingöngu hagrænt viðfangsefni. Yfirráðaréttur yfir náttúrugæðum er skilgreindur með ákvörðun hvers samfélags fyrir sig eða í samstarfi ríkja. Í vissum tilvikum getur yfirráðarétturinn verið óljós og þá er talað um almannaeign eða almenning.

Einkaeignarrétturinn er þó eina eignarformið sem tilgreint er í stjórnarskránni. Eignarréttarhafar geta verið einstaklingar, lögaðilar, ríki og sveitarfélög. Þannig er ríkiseign eitt form einkaeignar. Ríkisvaldið getur takmarkað heimildir eigenda til að ráðstafa eignum sínum ef það er gert með almennum reglum. Í sumum tilvikum kann að þurfa að bæta viðkomandi aðilum það fjárhagstjón sem slíkar takmarkanir valda.“

Næst er fjallað um nýtingu auðlinda og sjálfbærni og inngangurinn að þeim kafla er með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Algildur mælikvarði til að meta sjálfbærni er ekki til. Í almennum viðurkenndum skilgreiningum segir að við mat á sjálfbærni beri að líta til umhverfisverndar, efnahagsþróunar og samfélagslegra þátta. Ganga má út frá því að tilgangur auðlindanýtingar sé að auka velferð þeirra sem í hlut eiga. Ef aukin auðlindanýting eykur velferð einhverra án þess að skaða velferð annarra er hún í eðli sínu sjálfbær. Það er áleitin og erfið siðferðileg spurning hvernig á að skilgreina „aðra“. ,,Aðrir“ geta verið nágrannar, næsta kynslóð, fólk í fjarlægum löndum eða aðrar lífverur sem eiga sér búsetustað á jörðinni svo eitthvað sé nefnt. Að mati vinnuhópsins gæti verið gagnlegt að greina sjálfbærni auðlindanýtingar með því að líta til eftirfarandi viðmiða:“ — og síðan koma fjögur viðmið. Eitt þeirra er endingartími og endurnýjanleiki auðlindar, annað er ytri áhrif eða áhrif notkunar, þriðja er nýtni og það fjórða er samfélagslegur jöfnuður.

Um endingartíma og endurnýjanleika auðlindar segir þetta, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi þarf að greina hvort nýting skaði möguleika til að viðhalda auðlindinni til langs tíma þannig að hún verði nýtanleg fyrir komandi kynslóðir. Ef ekki er um endurnýtanlega auðlind að ræða verður málið öllu flóknara. Nýting á óendurnýjanlegri auðlind í dag leiðir óhjákvæmilega til þess að minna verður eftir fyrir þær kynslóðir sem á eftir koma. Mælistika sjálfbærni gæti þá miðast við hvort gengið sé óeðlilega hratt á auðlindina og hvort vel sé farið með hana (góð nýtni). Malarnám er dæmi um takmarkaða auðlind sem mætti skoða frá þessu sjónarhorni. Einnig má líta til þess hvort verið sé að ganga á eignir, þ.e. hvort eyðing auðlindarinnar leiði til eignamyndunar af öðru tagi sem bæti forsendur fyrir áframhaldandi velsæld eftir að auðlindina þrýtur.

Olíusjóður Norðmanna er dæmi um fyrirkomulag þar sem reynt er að tryggja að nýting óendurnýjanlegrar auðlindar skapi varanlegar forsendur fyrir velsæld. Það má því segja að ef nýting endanlegra náttúruauðlinda leiðir ekki til þess að heildareignir samfélagsins rýrni þá sé nýting sjálfbær.“

Og þá er ekki horft á það hvort hún er heppileg eða ekki eða rétt eða ekki, heldur að hún sé sjálfbær, þ.e. að eftir verði svipuð verðmæti og áður þegar hafist var handa.

Um ytri áhrif og áhrif notkunar segir, með leyfi forseta:

„Í öðru lagi þarf að greina hvort notkun á einni auðlind valdi skaða á annarri. Dæmi: notkun á kolefnaeldsneyti skaðar andrúmsloftið. Jafnframt þarf að leggja mat á það hvort notkun eins á auðlindinni verði til þess að möguleikar annarra til að nýta aðra auðlind takmarkist. Dæmi: malarnám í Ingólfsfjalli takmarkar möguleika göngufólks til fjallgöngu og umbreytir landslagi.“

Þriðja viðmiðið til að greina sjálfbærni auðlindanýtingar er svo nýtni og um það segir, með leyfi forseta:

„Í þriðja lagi getur nýtni verið gagnleg viðmiðun til að meta sjálfbærni. Er auðlindin notuð með góða nýtni í huga? Er bestu tækni beitt til að brenna eldsneytið þannig að sem mest orka fáist fyrir hverja einingu? Er malarnám skipulagt með þeim hætti að efni séu flokkuð eftir gæðum, lífrænn jarðvegur settur til hliðar til að nota við frágang og fé lagt á sjóð til að tryggja að innstæða sé fyrir frágangi þegar námuvinnslu lýkur?“

Fjórða og síðasta atriðið til að greina sjálfbærni auðlindanýtingar er samfélagslegur jöfnuður og um það segir svo, með leyfi forseta:

„Í fjórða lagi má líta á samfélagslegar aðstæður. Viðheldur nýting auðlindar ójöfnuði í samfélaginu eða leiðir ávinningurinn af notkun hennar til almennrar velsældar?“

Síðar í niðurstöðum þessarar vinnu, þessu lokaplaggi nefndarinnar um umhverfisvernd andspænis auðlindanýtingu er svo svarað spurningunum sem spurt var í upphafi og ég ætla stuttlega að fara yfir fjögur svör af þeim fimm sem gefin eru.

Fyrsta spurningin er: „Hvaða auðlindir eiga að vera þjóðareign og hvernig á að skilgreina þá eign í stjórnarskrá og lögum?“ Svar hefst svo, með leyfi forseta:

„Það er rík ástæða til að nýta skilvirkni markaðshagskerfsins eins vel og kostur er til ábata fyrir samfélagið allt. Einn hornsteinn markaðshagkerfisins er að eignarhald sé skýrt og óvefengjanlegt.“ — Og það kemur okkur mikið við í þessari umræðu sem nú stendur yfir.

„Um auðlindir í einkaeign ríkir samkomulag um eignaheimildir og eignaforráð. Ríkisvaldið getur þó takmarkað heimildir eigenda til að ráðstafa eignum sínum ef það er gert með almennum reglum. Í hagfræðilegu samhengi skiptir meira máli að eignarhald sé skýrt fremur en hver sé löglegur eigandi viðkomandi auðlindar. Óskýrt eignarhald getur leitt til þess að viðkomandi auðlind sé ekki nýtt, henni sé spillt og hún skili samfélaginu ekki þeim ávinningi sem annars hefði getað orðið. Það er breytilegt frá einum tíma til annars hvað í náttúrunni telst vera auðlind. Almennt séð virðist sem sífellt fleiri fyrirbrigði í náttúrunni fái stöðu náttúruauðlinda. Margt í náttúrunni er ekki í hefðbundinni einkaeign heldur telst vera almenningur eða almannaeign. Dæmi eru um sérstaka skilgreiningu í lögum svo sem um þjóðgarðinn á Þingvöllum, lifandi auðlindir hafsins, þjóðlendur og efni á og undir hafsbotni. Ríkisvaldið fer með eignarráð á þessum gæðum, en nokkuð skortir á að það sé í öllum tilfellum vel skýrt lagalega. Á næstu árum má búast við að fleiri þættir í náttúrunni geti fengið áþekka stöðu, svo sem aðgangur fyrir rafsegulbylgjur í andrúmsloftinu og heimildir til að losa mengun út í andrúmsloftið.

Með því að skilgreina tiltekin náttúrugæði eða auðlindir, sem í dag er almennt litið á sem almenning, sem þjóðareign, má koma í veg fyrir að eignarhald á auðlindum safnist á fárra hendur, vegna tilviljunar, í krafti auðs eða vegna sögulegra nytja. Því er t.d. mikilvægt að skilgreina réttinn til að losa úrgang í andrúmsloftið sem þjóðareign áður en sögulegar nytjar leiða til þess að sá réttur færist í einkaeign.“

Þessi umfjöllun á einkar vel við daginn í dag þegar umhverfisráðherra hefur svarað því í fyrsta sinn af sinni hálfu að skilningur sinn á Kyoto-ákvæðinu sé sá að Íslendingar geti reiknað mengunarkvóta sinn þar að meðaltali á fimm árum og setið þá uppi í lok Kyoto-tímabilsins með miklu meiri mengunarkvóta en leyfilegur er á því ári einu saman. Þannig standi menn frammi fyrir því á fyrsta ári næsta tímabils að vera með allt of mikla losun og þurfi þá að leysa það mál með einhverjum hætti. Umhverfisráðherra hafði ráð við því, það væri að kaupa kvóta og það væri í fyrsta sinn sem Íslendingar gerðu það. Þá er auðvitað spurning, hver á að kaupa þann kvóta? Eiga þeir sem losa nú að gera það? Og af því að við erum að ræða um íslenska ákvæðið, svonefnda, í Kyoto-bókuninni, er þá átt við að næsta álver eigi að gera það eða eiga öll iðjuverin að gera það sem hér eru komin, líka það sem hér var stofnað til á miðjum 7. áratugnum og hefur ekki frekar en önnur þau sem á eftir komu haft í sínum samningum að það þurfi að kaupa kvóta, eða ætlar íslenska ríkið að gera þetta fyrir þau? Eða öðlast þau hugsanlega þá stöðu sem hér er talað um, að þau hafi haft sögulegar nytjar af andrúmsloftinu og sá réttur þeirra verði þá með einhverjum hætti einkaeign á meðan aðrir þurfa að borga? Þetta eru málefni dagsins í íslenskum stjórnmálum.

Ég held áfram í þessu góða plaggi, með leyfi forseta:

„Með því að veita tímabundinn nytjarétt á þessum sömu auðlindum, nytjarétt sem hefur stöðu einkaeignar, má stuðla að skilvirkri nýtingu þeirra á grundvelli markaðshagkerfis. Þeim sem nytja viðkomandi auðlind bæri þá að skila hluta eða allri auðlindarentunni til ,,þjóðarinnar“ í formi afnotagjalds.

Þá má einnig hugsa sér, í ákveðnum tilvikum, þegar ekki virðast forsendur fyrir afnotagreiðslu, að gerð sé krafa um að nýtingarrétturinn falli til baka til þjóðarinnar eftir tiltekinn tíma.

Breyta má þjóðareign í einkaeign. Réttlæta má slíka ráðstöfun ef sýna má fram á að það leiði til bættrar umgengni um viðkomandi auðlind. Forsenda fyrir flutningi á þjóðareign yfir í einkaeign er að yfirfærslan hafi ekki umtalsverð áhrif á dreifingu eigna á milli samfélagsþegnanna eða á milli kynslóða. Mikil óvissa er tengd verðmæti náttúruauðlinda.

Náttúruauðlind sem virðist fela í sér lítil verðmæti nú gæti orðið verðmæt síðar. Ef ríkið ákveður að yfirfæra ótímabundið tiltekna náttúruauðlind sem skilgreina má sem almenning yfir í einkaeign, kann samfélagið að afsala möguleika til að afla tekna til samfélagsverkefna í framtíðinni. Því kann að vera heppilegra að breyta ekki þjóðareign í einkaeign heldur veita tímabundinn afnotarétt af viðkomandi auðlind.“

Að breyttu breytanda eiga þessi orð þessa hóps á vegum Samfylkingarinnar, á vegum framtíðarnefndar, mjög vel við í þessari umræðu þar sem verið er að breyta þjóðareign, þjóðarforsjá með vatni samkvæmt lögunum frá 1923, yfir í einkaeign og tekin sú áhætta að samfélagið sé þar með að afsala sér möguleikum til að hafa ný not af vatni í framtíðinni eða missa forsjá sína yfir vatninu í hendur hinna nýju eigenda þess með einhverjum hætti.

Þessu lýkur svo, með leyfi forseta:

„Af framansögðu má ráða að með því að skilgreina auðlindir í þjóðareign og nota skilvirkni hagkerfisins til að nytja þær, þó með þeim hætti að hluti afraksturs (auðlindarentunnar) renni til samfélagsins, er stuðlað að hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu auðlinda og jöfnuði í samfélaginu.“

Í næsta kafla er fjallað um það hvenær eigi að breyta einkaeign í þjóðareign, hvernig það sé hægt, um aðferðir til þess og vandamál sem upp koma í sambandi við það og þar segir, með leyfi forseta:

„Einkaeign á auðlindum virðist eingöngu vera bundin við auðlindir á landi. Auðlindir í hafinu og andrúmsloftinu virðast ekki undirorpnar einkaeign og því ætti að vera einfalt að tilgreina þær sem þjóðareign. Hafsbotninn hefur verið úrskurðaður sem ríkiseign.

Eignarhald á landi var lengi vel flokkað sem eignarlönd, afréttur og almenningur. Með lögum um þjóðlendur, sem sett voru 1998 var gerð breyting á þessu og nú er eign á landi ýmist í einkaeign eða þjóðlenda. Eignarland er landsvæði sem háð er einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma. Þjóðlenda er landsvæði utan eignarlands þó einstaklingar eða lögaðilar kunna að eiga þar takmörkuð réttindi. Íslenska ríkið fer með hvers konar landsréttindi og hlunnindi í þjóðlendum sem ekki eru háðar einkaeignarrétti.

Í lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins er tilgreint að ríkið eigi allar auðlindir í eða undir hafsbotni utan netalagna og svo langt út sem tilgreint er í alþjóðlegum samningum. Í lögum nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, er ríkið lýst eigandi kolvetnis hér við land en kolvetni merkir í þeim lögum jarðolía, jarðgas eða annars konar kolvetni sem er til staðar í jarðlögum undir hafsbotni frá náttúrunnar hendi og nýtanlegt er í loftkenndu eða fljótandi formi.

Samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu er eignarréttur að auðlindum í eignarlöndum í höndum landeigenda og nær þessi réttur til jarðefna, jarðhita og grunnvatns. Í vatnalögum er tilgreint að landeigandi eigi rétt til umráða og hagnýtingar á vatni, sem á landinu er og nær þessi réttur til nýtingar vatnsorku.

Löng hefð er komin á nýtingu vatnsafls og hefur rétturinn til þess gengið kaupum og sölum. Þá hafa jarðhitaréttindi gengið kaupum og sölum og hið sama má segja um jarðefni.

Helstu álitamál um eignarrétt á landi tengjast ákvæðum um að hann nái til auðlinda sem eru undir yfirborði jarðar, þ.e. jarðhita, grunnvatni og hugsanlega málma og olíu. Ekki er vitað til þess að réttindi til grunnvatns, olíu og góðmálma hafi verið skilgreind sem verðmæti í viðskiptum hér á landi.

Niðurstaða: Ekki verður séð að hægt sé að afnema einkaeignarrétt [yfirfæra til ríkisins eða tilgreina sem þjóðareign] á vatnsréttindum,“ — þ.e. nýtingarrétti — „hefðbundnum jarðhita og jarðefnum án þess að til komi bætur sem samsvari rýrnun viðkomandi einkaeignar. Öðru máli kann að gegna um auðlindir sem ekki hafa verið nýttar fram að þessu. Hugsanlega mætti breyta lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu með þeim hætti að eignarréttur yrði bundinn tilteknum auðlindum en litið væri á aðrar sem þjóðareign, svo sem jarðvarma undir tiltekinni dýpt, málma og grunnvatn.“

Ég ætla að láta þetta nægja úr niðurstöðum þessa ágæta hóps um umhverfisvernd andspænis auðlindanýtingu en hér er, eins og í auðlindanefndinni sem þessi starfshópur er nokkuð sammála, fjallað um ýmis eignarform og sýnir sú umfjöllun að auðvitað er ekki um það eitt að ræða að til sé aðeins einn eignarréttur sem sé sá sami hvort sem einstaklingur, ríkið eða þjóðin á hlutinn.

Ég ætla að lokum þessara tilvitnana að tilfæra kafla úr merkilegri ritgerð eftir Þorstein Gylfason. Ritgerðin er frá síðari hluta síðasta áratugar og heitir Fiskur, eignir og ranglæti. Menn kannast við hana úr þeim fræðilegu orðaskiptum sem urðu um eignarhald á auðæfum hafsins, á fiskimiðunum og auðæfum hafsins þegar deilurnar um kvótafyrirkomulagið stóðu sem hæst á síðari hluta 10. áratugar síðustu aldar. Það hefur lygnt síðan í bili hvernig sem framtíðin verður. Þorsteinn fjallar um eignina á kvótanum og í því samhengi kemur hann einmitt að þjóðareigninni. Það er merkilegt við þá ritgerð, sem ég tek aðeins út einn kaflann, að þar er Þorsteinn m.a. í samræðu við Þorgeir Örlygsson, lögfræðing, lögmann og prófessor sem nefndur var í þessari ræðu áðan og þó einkum í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar í gær.

Annar kafli ritgerðar Þorsteins Gylfasonar um Fisk, eignir og ranglæti heitir Eign og þjóðareign og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hver á kvótann? Í 1. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, segir:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Samkvæmt þessari grein á þjóðin kvótann. Hann er þjóðareign.

En hér er ekki allt sem sýnist ef trúa má Þorgeiri Örlygssyni. Hann tekur undir þau ummæli Sigurðar Líndals að orðalagið „sameign íslensku þjóðarinnar“ í lagagreininni sé villandi. Þorgeir segir að þetta orðalag geti ekki gefið til kynna „hefðbundinn einstaklingseignarrétt þjóðarinnar yfir þessum verðmætum. Þau verðmæti sem hér um ræðir geta ekki verið í eign almennings eða þjóðarinnar sem slíkrar í hefðbundinni merkingu eignarréttarhugtaksins …“

Þessa kenningu má kalla markleysiskenninguna um þjóðareign.

Þorgeir rekur markleysiskenninguna nánar á víð og dreif í ritgerð sinni,“ — þar er átt við ritgerðina Hver á kvótann? í Tímariti lögfræðinga, 1. hefti, 48. árgangs, febrúar 1998 — „og hnykkir síðan á með því að túlka þjóðareignarákvæðið í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða sem einbera viljayfirlýsingu Alþingis. Geymum þessa meintu viljayfirlýsingu og hyggjum fyrst að markleysiskenningunni sjálfri. Meginatriðin virðast vera þessi. Eignarréttur, í skilningi stjórnarskrárinnar sem verndar þennan rétt og lögfræðinnar sem leggur hann út, er einstaklingsbundinn einkaréttur. Þegar af þessum sökum getur almenningur eða þjóðin „ekki verið eigandi í hefðbundnum lögfræðilegum skilningi þess hugtaks“. Aftur á móti kemur fram að ríkið geti vel verið eigandi verðmæta sem þjóð getur með engu móti átt. Hefðbundnum lögfræðilegum skilningi á eignarrétti lýsir Þorgeir í sex tölusettum liðum. Liðirnir kveða á um hluti eins og umráð yfir eign og heimildir til hagnýtingar á henni, ráðstöfun hennar og veðsetningar. Loks er það að sögn Þorgeirs „staðreynd, að enginn getur helgað sér hafsvæðin umhverfis landið, hvort heldur sem er úthafið eða hafalmenninganna, sem eign sína og þaðan af síður fiska eða önnur dýr, sem þar kunna að finnast. Slík verðmæti geta því bæði vegna sérstaks eðlis síns og vegna fjarlægðarinnar við rétthafann tæpast verið séreign neins einstaks manns og þannig undirorpin eignarrétti hans.“

Um þetta síðasta atriði, hið sérstaka eðli hafs og fisks sem veldur því að þau geta ekki orðið eignir, mætti eitt og annað segja. Tökum til að mynda eftir því að ef Þorgeir er tekinn á orðinu gengur þessi staðhæfing hans þvert gegn skoðun þeirra sem berjast fyrir því að fiskstofnanir verði einmitt einkaeign einstaklinga. En alveg rakalaust. Kannski það eigi að heita rök í þessu efni að í almenningum, eftir hefðbundnum skilningi á þeim, sé engum eignarrétti til að dreifa, heldur aðeins afnotarétti. Um almenninga fjallar Þorgeir í löngu máli. En almenningar eru mannasetningar — reglur sem menn hafa sett sér — og koma engu eðli fiskjar og sjávar við. Auk þess er enginn almenningur við lýði lengur á þeim fiskimiðum sem Íslendingar hafa lögsögu yfir. Hvers vegna skyldu þá hefðbundin viðhorf til almenninga skipta máli? Loks má nefna að Þorgeir segir sjálfur að í „Svíþjóð og Finnlandi [nái] eignarréttur fasteignareiganda, sem land á að sjó, til sjávar og sjávarbotns nokkur hundruð metra út frá ströndinni“. Þýðir þetta að Svíar og Finnar séu blindir á hið sérstaka eðli þessara verðmæta? Hvert í ósköpunum er þetta eðli? Hvers vegna getur silungur í læk og tjörn verið einkaeign en fiskur í sjó ekki? Ég ætla ekki að staldra frekar við séreðlishugmynd Þorgeirs, né heldur við skilning hans á hinum meinlega margræðu orðum sínum „… enginn getur helgað sér hafsvæðin …“ Hvort tveggja er óljóst, og hvorugt er í ritgerð hans stutt umtalsverðum rökum.

Um afganginn af markleysiskenningunni er þrennt að segja. Í fyrsta lagi er til ýmis annar eignarréttur en sá sem Þorgeir lýsir í sex tölusettum liðum sínum. Í öðru lagi er greinarmunur hans á marklausri þjóðareign og marktækri ríkiseign afar tortryggilegur. Í þriðja lagi eru þegar til tvímælalausar þjóðareignir. Þorgeir nefnir meira að segja eina, Þingvelli við Öxará, án þess að hún verði honum tilefni til neinna efasemda um málflutninginn sem hann hefur uppi gegn sjálfri hugmyndinni um þjóðareign. Í 4. grein laga nr. 59/1928, um friðun Þingvalla, stendur að sögn Þorgeirs „að hið friðlýsa svæði á Þingvöllum skuli vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það megi aldrei selja eða veðsetja.“ Mundi Þorgeir vilja segja að þetta sé marklaust eignarákvæði og einber viljayfirlýsing Alþingis því að íslenska þjóðin sem slík geti ekkert átt? Hver var þá vilji þingsins um Þingvelli ef hann gat ekki verið sá að þeir væru þjóðareign?

Hyggjum nú lítillega að afbrigðilegum eignarrétti. Ég kalla hann afbrigðilegan miðað við hinn hefðbundna lögfræðilega skilning Þorgeirs á slíkum rétti. Hér eru tvö dæmi. Hið fyrra er eignarréttur manns yfir líkama sínum. Í einu kvæði Megasar segir: „Ég á mig sjálf / en Mammaboba / starfrækir mig.“

Hver maður á augun í höfði sér, en hann getur ekki veðsett þau í banka. Og hætt er við að ýmis ljón yrðu í veginum, þar á meðal lagaákvæði, ef hann vildi selja þau fyrir ógrynni fjár arabískum fursta sem vantaði einmitt svona augu í sjálfan sig eða safn sitt. Síðara dæmið er höfundarréttur. Eitt af því sem gerir hann að afbrigðilegum eignarrétti er að hann er öðrum þræði sæmdarréttur sem venjulegur eignarréttur er ekki. Og sæmdarrétturinn er ekki framseljanlegur. Ég get ekki látið öðrum manni eftir sæmd eða vansæmd af bók sem ég hef skrifað eins og ég get selt honum þann rétt að hann hafi full umráð yfir bókinni og fái allar tekjur af henni. Látum þessi dæmi duga. En þess má geta til viðbótar að Þorgeir nefnir ýmis afbrigðileg eignarréttindi í ritgerð sinni og segir að löng hefð sé fyrir því hjá íslenskum dómstólum, að minnsta kosti frá 1916, að telja slík réttindi varin af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. En þetta vekur engar efasemdir hjá honum um málflutninginn gegn þjóðareignarhugmyndinni.

Næst er það greinarmunurinn á þjóð og ríki. Svo er að skilja á Þorgeiri að ekkert sé við það að athuga að íslenska ríkið slái eign sinni á auðlindir hafsbotnsins í lögsögu þess, eins og það gerði með lögum nr. 73/1990. Á hinn bóginn á það að vera markleysa þegar íslenska þjóðin, fyrir munn Alþingis, slær eign sinni á fiskinn fyrir ofan þennan hafsbotn. Hvaða vit er í þessu? Auðvitað má gera margvíslegan greinarmun á þjóð og ríki. Þjóð er fólk og ríki er stofnun. Ýmsir kynnu að vilja segja að þjóðin eigi ríkið. Að minnsta kosti er þaultryggt að ríkið á ekki þjóðina.

Tökum heldur dæmi af afmarkaðara fyrirbæri en ríkinu í heild sinni. Hver á ríkissjóð Íslands? Segjum að það sé íslenska ríkið. En nú er þessi sjóður oftar en ekki nefndur sameiginlegur sjóður allra landsmanna. Þá á þjóðin hann. Þar með er ekki sagt að ríki og þjóð ættu að bítast um þetta. Í dæmi eins og þessu virðist mega segja að ríkiseign og þjóðareign komi alveg út á eitt. Ef íslenska ríkið legðist niður eftir innrás ofbeldismanna, ríkissjóður væri lagður á bankareikning innrásarmannanna í Zürich og þjóðinni stökkt á flótta, gæti farið svo að afkomendur Íslendinga í Ástralíu gerðu tilkall til innstæðunnar í Sviss á þeim forsendum að hún sé þeirra sjóður. Viðurkenning á næsta sambærilegu tilkalli gyðinga til fjár í svissneskum bönkum hefur nýlega orðið að samkomulagi. Dæmið af ríkissjóði dugir til að sýna að greinarmunur þjóðar og ríkis er flókinn. Það sýnir líka að hann er afar hæpinn í samhenginu sem Þorgeir hefur fyrir sér.

Lítum loks á þjóðareignir út af fyrir sig. Sem fyrr er getið nefnir Þorgeir dæmið af Þingvöllum. En hann staldrar ekki við það þótt hann hafi rétt sleppt orðinu um að „þjóðin sem slík geti ekki verið aðili eignarréttinda í hefðbundnum lögfræðilegum skilningi.“ Einhver mundi segja að það sé verra fyrir hinn hefðbundna lögfræðilega skilning Þorgeirs en þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Íslendingar eiga fleiri þjóðareignir en Þingvelli. Hér eru tvö skýlaus dæmi. Einar Jónsson myndhöggvari arfleiddi íslensku þjóðina — ekki íslenska ríkið eða Listasafn Íslands — að lífsstarfi sínu, listasafni og listaverkum. Árið 1965 keyptu íslensku bankarnir íslenskt handrit, Skarðsbók, dýrum dómum á uppboði í London, en þar í landi hafði það verið í einkaeign langa hríð. Bankarnir gáfu íslensku þjóðinni handritið. Svo að hér eru að minnsta kosti þrjár eignir sem íslenska þjóðin á: Þingvellir, Hnitbjörg og Skarðsbók.

Dæmið af Skarðsbók vekur spurninguna um hver eigi þau íslensku handrit sem Danir afhentu Íslendingum á árunum 1971–1996 og eru varðveitt í Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Þar er fróðlega sögu að segja. Ég rek aðeins ágrip af henni. Í lögum danska þjóðþingsins um afhendingu handritanna frá 1961 er hvergi minnst á eignarrétt yfir handritunum, og ekki heldur í samningi ríkjanna tveggja sem gerður var 1965 á grundvelli laganna. Í samningnum segir m.a. að Danakonungur og forseti Íslands óski þess „af heilum hug að gera þvílíka skipun varðandi handrit þau af íslenskum uppruna, sem nú eru í Danmörku, að orðið sé við óskum íslensku þjóðarinnar að hafa sjálf umráð þessara þjóðlegu minja“.

Tökum eftir að það er íslenska þjóðin en ekki íslenska ríkið eða Háskóli Íslands, sem ætlað er að hafa umráð handritanna. En umráð eru annað en eign. Jónas Kristjánsson segir í bók sinni „Heimkoma handritanna“ að „samkvæmt hinum dönsku handritalögum liggi það á milli hluta hver eigi handritin …“ Þetta sést á ræðu menntamálaráðherra Dana, Helge Larsen, þegar hann á síðasta vetrardag 1971 afhenti fyrstu tvö handritin, Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða. Þar minnist hann hvergi á hver eigi hvað. Hitt tekur hann vandlega fram að Íslendingar eða íslenska þjóðin eru viðtakandi handritanna.

Það má giska á að þessi línudans fram hjá eignarréttinum hafi átt sér góðar og gildar afsakanir í Danmörku. Samkvæmt erfðaskrá Árna Magnússonar var Hafnarháskóli lögmætur eigandi meginhluta handritanna. Háskólinn krafðist því ógildingar handritalaganna en að öðrum kosti skaðabóta af danska ríkinu ef lög og samningar gengju í gildi. Ríkið vann það mál fyrir hæstarétti Danmerkur. Málflutningur lögmanna háskóla og ríkis fyrir hæstarétti og dómsorð réttarins kunna að varpa ljósi á eignarréttinn yfir handritunum frá dönsku sjónarmiði. Ég hef ekki séð þær heimildir og veit ekki til að um þær hafi verið fjallað frá íslensku sjónarmiði. Tíu árum eftir heimkomu fyrstu handritanna segir Jónas Kristjánsson í bókarkafla um þetta efni: „Væri athugandi þegar málið hefur verið fullkomlega til lykta leitt og handritin eru komin heim, hvort þá sé eigi tímabært að kveða skýrt á um eignarréttinn yfir þeim.“

Ef farið væri að tillögu Jónasar kynni ein réttarheimild að skipta máli til viðbótar við þær sem ég hef nefnt. Við afhendingu fyrstu handritanna flutti utanríkisráðherra Dana, Poul Hartling sem síðar varð forsætisráðherra, ávarp þar sem hann fer ekki eins varlega og menntamálaráðherrann Helge Larsen hafði gert. Hann segir um handritin:

„Við skilum þeim nú til Íslands, ekki vegna þjóðréttarlegra ákvæða, heldur sem gjöf.“

Ef þau voru gjöf eru þau væntanlega upp frá því eign þess sem þáði. Ef við getum tekið Poul Hartling á orðinu eru íslensku handritin í Kaupmannahöfn þjóðareign eins og Skarðsbók. Því að það er hafið yfir vafa að íslenska þjóðin var sá aðili sem hlaut umráðin yfir þeim. Eða þáði gjöfina.

Ugglaust eru þjóðareignir fleiri en þær sem ég hef nefnt. Þegar ég bý þessa ritgerð til prentunar veiti ég því athygli að samkvæmt áletrun á stalli Leifsstyttunnar á Hallgrímstorgi var styttan gjöf Bandaríkja Ameríku árið 1930 til íslensku þjóðarinnar. En ég vildi aðeins nefna þrjú tvímælalaus dæmi, segir Þorsteinn, og bætti síðan einu við sem er ekki tvímælalaust. Tvímælalausu dæmin sýna, svo að ekki verður um villst, að markleysiskenningin er fráleit. Hugmyndin um þjóðareign á fullan rétt á sér af þeirri einföldu ástæðu að við höfum fyrir okkur ótvíræð og óumdeild dæmi um þjóðareignir. Þar fyrir má að sjálfsögðu vel vera að þjóðareignarréttur sé margvíslega frábrugðinn öðrum eignarrétti. Til dæmis um framsal. Engri íslenskri ríkisstjórn mundi líðast að gefa forseta Rússlands Skarðsbók eða frummynd Einars Jónssonar af Öldu aldanna, sama hver hugur forsetans væri til þeirra og hversu miklir hagsmunir íslenskra fisksölufyrirtækja á rússneskum markaði væru í húfi. „Þetta eru þjóðareignir,“ mundum við segja. „Við getum því miður ekki gefið þær.“ Jafnvel þótt 95% þjóðarinnar samþykktu í atkvæðagreiðslu að gefa gjafirnar mætti segja: „Það væri ekki bara þjóðin sem nú byggir landið sem gjafirnar fékk, heldur líka sú þjóð sem byggir það eftir 100 ár og um alla ókomna tíð. Þess vegna getur þjóðin um aldamótin 2000 ekki gefið slíkar gjafir. En afbrigðilegur eignarréttur, í þessu tilfelli án framsalsheimildar, kemur ekki á óvart vegna þess að slíkur réttur er allt í kringum okkur í ýmsum myndum.

Hyggjum sem snöggvast að því sem Þorgeir Örlygsson vill setja í stað þjóðareignarréttar. Þjóðareignarákvæðið er marklaust sem slíkt hjá Þorgeiri. Í staðinn vill hann lesa út úr því áréttingu ákvæða í fornum lögbókum, sem svo vill til að eru líka marklaus af því að þau varða almenninga sem eru ekki lengur við lýði á hafinu, og svo „almenna markmiðsyfirlýsingu“. Eins og fram er komið lítur hann á þjóðareignarákvæðið sem viljayfirlýsingu Alþingis. Þorgeir skrifar:

„Fyrst svo er, að fiskstofnarnir geta ekki verið undirorpnir einstaklingseignarrétti, hvorki einstaklinga né þjóðarinnar sem slíkrar, er eðlilegt að spurt sé, hver sé á raunveruleg merking þeirra orða 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Nærlægast er að telja, að þessi ummæli feli í sér almenna markmiðsyfirlýsingu og jafnframt áréttingu hinnar fornu reglu Grágásar og Jónsbókar um heimildir manna til veiða í hafalmenningum við Ísland innan þeirra takmarka, sem löggjafinn ákvarðar hverju sinni á grundvelli valdheimilda þeirra sem honum eru fengnar í hendur.“

Hvert skyldi nú markmiðið vera sem Alþingi hefur fólgið í þjóðarréttarákvæðinu sem það meinti ekkert með? Það les Þorgeir út úr athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins þegar það var lagt fyrir Alþingi.

Túlkun Þorgeirs á greinargerðinni er undarleg. Í greinargerðinni segir:

„Það verður að vera ákvörðunarefni löggjafans á hverjum tíma, hvaða skipulag telst best henta til að nýta þessa sameign þjóðarinnar með hagsmuni þjóðarheildarinnar að leiðarljósi.“

Í þessum málslið er gengið að sameign þjóðarinnar á fiskstofnunum vísri, meira að segja með berum orðum, og lýst yfir að það sé Alþingis, ef að líkum lætur sem þjóðkjörins löggjafarþings, að setja lög um skipulagið og nýtingu þeirra. Væntanlega hefði líka mátt hugsa sér að þetta verk væri falið fiskiþingi eða Hafrannsóknastofnun. Við þetta bætist að í þessari greinargerð með fyrstu grein frumvarpsins er vikið vandlega að forræði þjóðarinnar yfir fiskimiðunum gagnvart öðrum þjóðum og áratuga baráttu hennar fyrir fiskveiðilögsögu sinni. Þar kemur fram að með þjóðareignarákvæðinu í greininni „er minnt á mikilvægi þess að varðveita fullt forræði Íslendinga yfir þessari auðlind. Þorgeir hefur kafla um landhelgina í ritgerð sinni, en hann minnist ekki einu orði á sambandið milli þjóðareignar á fiskstofnum og forræðis yfir fiskveiðilögsögu. Ekki svo að skilja að þetta sé mjög ljóst hjá höfundum greinargerðarinnar. Lögsaga og eignarhald eru að sjálfsögðu sitt hvað, og nógu ólík til þess að sambandið á milli þeirra er fjarri því að liggja í augum uppi. Ég ætla ekki að fara út í það. En ef menn vilja velta vöngum um túlkun laga og greinargerða verða þeir að takast á við þann vanda.“

Þetta er kannski ágætlega sagt hjá Þorsteini. Ég held að það sem við getum lært af þessari grein hans, fyrir utan það hvað hún er skemmtileg, er að málefni einkaréttar og eignarumráða, lögsögu og forsjár eru ekki jafneinföld og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vill halda fram. Með dæmum sem flest eru úr samanburði einstakra nýtingarréttartilvika eru skoðuð svipuð lagaáhrif og ef um einkarétt væri að ræða. Ég held mig við Þorstein til þeirra loka sem ég ætlaði honum, með leyfi forseta:

„Þorgeir sér ekkert af þessu. Hann sér ekki annað en eina saman tilvísunina til hagsmuna þjóðarheildarinnar og segir:

„Með lagasetningunni er ríkisvaldið fyrst og fremst að leitast við að gegna þeirri skyldu sinni að reyna að tryggja, að nýting auðlindarinnar komi þjóðarheildinni mest til góðs.“

Að fá þetta eitt úr löngu máli um landhelgi, sameign og hlutverk löggjafans kann að vera góð og gild lögfræði en það er ekki heilbrigði skynsemi.

Í fæstum orðum er ekkert athugavert við hugmyndina um þjóðareign. Þjóð getur átt eignir alveg eins og einstaklingar og stofnanir og ef það eru einhver rök fyrir því að fiskstofnar innan lögsögu þjóðar séu þess sérstaka eðlis að þeir geti ekki verið þjóðareign — eins og þjóðgarðar, hús, handrit og höggmyndir — þá koma þau rök hvergi fram hjá Þorgeiri. Ég þarf ekki að leggja frekari stund á lögfræði en orðið er. Til dæmis þarf ég ekki að reyna að rekja nein frumatriði í þjóðareignarrétti. En ég vek athygli á einu frumatriði um fastan eignarrétt sem hér virðist fara fram hjá Þorgeiri.

Eignarréttur er settur eða upp fundinn réttur. Menn hafa búið hann til. Langflest eignarréttindi eru mannasetningar. Höfundarréttur var búinn til og honum hafði verið komið á með ærinni fyrirhöfn á síðustu 200 árum á Vesturlöndum. Við erum enn að því. Fyrst við vikum að handritamálinu má til viðbótar við höfundarréttinn nefna hugtakið „kultureje“ eða „menningareign“. Þetta hugtak bjó hinn frægi lögfræðingur Alf Ross til, er mér sagt, þegar hann samdi lagafrumvarpið um afhendingu íslensku handritanna handa dönsku stjórninni. Samkvæmt þessum lögum eru þau handrit sem afhent voru Íslendingum „íslensk menningareign“. Menningareign er öðruvísi en venjuleg eign sem mátti einmitt ekki koma við sögu í frumvarpinu. Enn má nefna eignarrétt á upplýsingum, t.d. eignarrétt þjóðar á upplýsingum um sjálfa sig sem sumir hafa fært í tal í skoðanaskiptum sem geisa sumarið 1998 um gagnagrunn fyrir heilbrigðiskerfið. Svo virðist mörgum, með ýmsum rökum, að þjóðareignarrétti á auðlindum eins og jarðhita og fallvötnum þurfi að koma á. Óbyggðir eru nú þjóðlendur eftir nýjum íslenskum lögum frá vorinu 1998. Þar koma meðal annars til náttúruverndarsjónarmið. Fullskapaður þjóðareignarréttur kostar trúlega viðlíka fyrirhöfn og baráttu og höfundarrétturinn hefur gert í tvær aldir. Það ætti að vera heillandi viðfangsefni fyrir fræðimenn í lögfræði að leggja þar eitthvað af mörkum.“

Hér lauk tilvitnun í grein Þorsteins Gylfasonar þar sem hann fjallar um eignarrétt með ýmsum hætti og mótmælir þeirri einstrengingslegu túlkun á honum sem fram kom í grein Þorgeirs Örlygssonar um kvótamálið. Ég held að þessir þrír lestrar hafi sýnt okkur að ekki dugir, þegar við ræðum um umráð yfir auðlindum, að vitna í sérstaka dómaframkvæmd í einstökum málum þar sem nýtingarréttaratvikum er jafnað til atvika sem varða eignarrétt. Ég held að þessir textar sem ég hef hér rakið sýni að umráðahugtakið er miklu miklu víðara og á sér ekki eingöngu lögfræðilegar forsendur heldur og heimspekilegar, af því að ég las upp Þorstein Gylfason. Forsendurnar eru að sjálfsögðu einnig pólitískar. Eins og ég hef áður sagt í ræðu minni erum við að ræða pólitískt efni.

Ég fagna því tækifæri, forseti, sem ég hef fengið hér til að lesa úr þessum textum. Í upphafi ætlaði ég mér alls ekki að hafa þá svona langa. Reyndar hef ég stytt sérstaklega í hinum fyrri lestrum, miðlestrinum, eins og ég gat. En ég fagna því tækifæri sem mér hefur gefist til að hafa þessa texta svona langa og það tækifæri var veitt hér í kvöld þegar forseti Alþingis setti óvænt fund til þess að við gætum rætt þetta betur, nánast eins og hver við annan, því að það eru fáir hér að fylgjast með af hálfu almennings og mest allur þingheimur mun vera staddur annars staðar.

Dæmi eru reyndar um að fólk, sem ætlaði að taka þátt í umræðunni í kvöld og var á undan mér á mælendaskrá, gat ekki komið því við að taka þátt í þessari umræðu vegna þess að fundurinn sem forseti setti á var ákveðinn með ákaflega stuttum fyrirvara. Menn höfðu bundið sig annars staðar þetta kvöld, enda benti ekkert til að hér yrði kvöldfundur um það efni sem reyndin varð. Þannig að fátt er svo með öllu illt að ekki hafi í för með sér nokkuð gott. Hér hefur þetta orðið til þess að tilvitnanir mínar í texta auðlindanefndar, ritgerð Þorsteins Gylfasonar og niðurstöður starfshóps Samfylkingarinnar um umhverfisvernd og auðlindir, hafa fengið að hljóma hér í salnum og komast í þingtíðindi í meira mæli en ætlað var.

Það er auðvitað galli að í þessum þremur textum er ekki fjallað sérstaklega um vatn og ekki lýst því séreðli þess sem ætti að veita því sérstaka meðferð í lögum eða stjórnarskrá. Þó kemst auðlindanefndin nokkuð nærri því þegar hún fjallar um auðlindir sem eru án eiginlegs eignarréttar eða eru ekki háðar eignarrétti. Við samfylkingarmenn teljum að um vatn gildi í raun og veru að það sé „res nullius“ eða „res communes“, á lagalatínu, og sé í eðli sínu auðlind sem ekki á við eignarréttinn nema að litlu leyti og að miklu betra sé að gera það sem gert var í vatnalögunum 1923, að skilgreina umráð vatnsauðlindarinnar með jákvæðum hætti, þ.e. að tiltaka hvaða réttindi menn hafa, þeir sem eiga land sem vatnið snertir, og gera það endanlega þannig að þeir hafi þau réttindi og ekki fleiri og þar sé gert ráð fyrir að til geti komið ófyrirséðir hlutir og þar sé líka tekið tillit til eðliseinkenna vatnsins.

Af hverju ætti þetta að vera? má spyrja. Nú verð ég að viðurkenna að ég er auðvitað ekki eins vel undirbúinn og t.d. Jóhann Ársælsson, að ég tali ekki um hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, og veit ekki hvort sú allsherjarstefna sem Jón Þorláksson og þeir félagar í meiri hluta fossanefndarinnar, hvort þar var haft í frammi það nokkuð snarpa sjónarmið að landeigendur ættu engan rétt að eiga á vatni sínu. Hvernig sem því kann að hafa verið háttað fyrir nærfellt 90 árum þá get ég mjög vel fallist á þau rök að landeigendur hljóti að hafa rétt til vatnsnýtingar þó ekki væri nema vegna þess að vatnið snertir land þeirra. Það getur með ýmsum hætti breytt landinu, það getur skert landið þegar um vatnsföll er að ræða eða stöðuvötn og valdið óskunda. Ekki er því óeðlilegt að landeigendur fái þar með ákveðinn nýtingarrétt til vatnsins, skilgreindan nýtingarrétt svo sem eins og til réttlætis að þessu leyti. Ég hygg að sá réttur sé viðurkenndur á flestum réttarsvæðum í fjarlægð og í tíma og rúmi. Væri fróðlegt að fara yfir það en ég ætla nú ekki að lesa hér upp úr áliti meiri hlutans.

Um þetta eðli vatns er ágætlega fjallað í sameiginlegri yfirlýsingu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þjóðkirkjunnar, að ég hygg, ég man ekki hvort hún stóð að yfirlýsingunni eða hvort hún kom að málinu með öðrum hætti, Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna, Landverndar, Kennarasambands Íslands, Samtaka starfsfólks fjármálafyrirtækja og Náttúruverndarsamtaka Íslands. En þessi samtök gáfu frá sér yfirlýsingu í tengslum við ráðstefnu á Grand Hóteli í Reykjavík, laugardaginn 29. október 2005. Ég var reyndar á þessari ráðstefnu, sat og hlýddi á erindi sem þar komu fram og var síðan í pallborði, m.a. með Hjálmari Árnasyni, hv. þingmanni, sem því miður er hér fjarri — og við sendum auðvitað góðar kveðjur — sem hafði það að segja þegar hann var spurður um vatnalagafrumvarp að það yrði allt öðruvísi þegar það kæmi fram á því þingi sem þá var nýhafið, en það var á fyrra ári. Það varð að vísu ekki en Framsóknarflokkurinn virðist sem sé hafa talið það á tímabili að eitthvað annað væri í pípunum hjá hæstv. iðnaðarráðherra en reyndist.

Yfirlýsing þessara samtaka er svona, með leyfi forseta, og lýsir ágætlega eðli vatnsins, síðar í yfirlýsingunni er fjallað um atriði sem ekki snerta eðli vatnsins en er ágætt að hafa með:

„Undirrituð samtök vilja með sameiginlegri yfirlýsingu þessari vekja athygli ríkisstjórnar, sveitarstjórna, stofnana, fyrirtækja og almennings á mikilvægi og sérstöðu vatns fyrir land, þjóð og lífríki. Þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi þá er staðan önnur víðast hvar í heiminum. Gnótt vatns gefur því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á móti ber okkur að fær lagaumgjörð um vatn í þann búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Hugsa verður til framtíðar og hafa almannahagsmuni og náttúruvernd að leiðarljósi.“

Síðan segir í yfirlýsingunni, með leyfi forseta:

„Vatn er takmörkuð auðlind og almannagæði sem er undirstaða alls lífs og heilbrigðis. Vatn er frábrugðið öðrum efnum að því leyti að það finnst náttúrulega í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn.

Undirrituð samtök telja að aðgangur að vatni sé grundvallarmannréttindi, eins og kveðið er á um í samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur undirgengist. Sérhver maður á því rétt að aðgengi að hreinu drykkjarvatni og vatni til hreinlætis og heimilishalds.

Líta ber á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki má fara með eins og hverja aðra verslunarvöru.

Nýting vatns skal vera sjálfbær og aðgengi að því tryggt með lögum fyrir núlifandi kynslóð og kynslóðir framtíðarinnar. Það er skylda stjórnvalda að tryggja þegnum sínum þennan rétt án mismununar.

Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja verndun vatns sem náttúruverðmæta sem og að tryggja hollustu og dreifingu vatns til allra þjóðfélagsþegna með fjárfestingu í mannvirkjum og mengunarvörnum. Vatnsveitur verði því reknar á félagslegum grunni, taki mið af almannahagsmunum og tryggi rétt einstaklinga til nægilegs hreins vatns til drykkjar og hreinlætis á viðráðanlegu verði. Það er jafnframt hlutverk stjórnvalda að tryggja að við nýtingu vatns verði öðrum náttúruverðmætum ekki spillt.

Stjórnvöldum ber að tryggja almenningi aðgengi að öllum upplýsingum er varða verndun og nýtingu vatns og stuðla að aukinni virkni almennings og meðvitund um mikilvægi vatns, náttúru og réttrar umgengni við landið.

Vegna mikilvægis vatns fyrir íslenska þjóð og lífríki landsins telja undirrituð samtök nauðsynlegt að fest verði í stjórnarskrá Íslands ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns. Lög og reglugerðir um nýtingu vatns taki því mið af ákvæðum sem viðurkenna rétt einstaklinga til vatns sem og lögum sem varða verndun vatns og náttúru.

Til að tryggja skilvirka verndun og nýtingu vatns ber stjórnvöldum að skipuleggja stjórnsýslu sína þannig að eðlilegt jafnvægi sé á milli þessara þátta og réttar einstaklinga til aðgengis að vatni.“

Undir þetta skrifa þau samtök sem ég áður taldi.

Þessi sérstaða vatns liggur líka til grundvallar tilkynningu sem við úr þingflokki Samfylkingarinnar sendum frá okkur í gær og ég veit ekki til að hér hafi beinlínis verið kynnt, þó að hún lýsi auðvitað í stuttu máli niðurstöðum af umræðu okkar samfylkingarmanna og að ég hygg fleiri í stjórnarandstöðunni í þessari umræðu og hinum fyrri um þetta mál.

Ég ætla að ljúka meginmáli mínu á því að lesa þessa yfirlýsingu. Fyrirsögn hennar er sú að vatn sé sameiginleg auðlind og sjálf tilkynningin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Skilgreining, eignarhald, nýting og varðveisla náttúruauðlinda eru meðal mikilvægustu viðfangsefna stjórnmálanna á okkar dögum. Vatn er ein mikilvægasta auðlind jarðar og því er það skoðun þingflokks Samfylkingarinnar að vatn eigi að skilgreina sem sameiginlega auðlind mannkyns. Þingflokkurinn telur að rétt sé að endurskoða lög sem varða vatn, vernd þess og nýtingu með það að markmiði að staðfesta þjóðarforsjá vatnsauðlindarinnar, sem felur í sér ábyrgð samfélagsins á vatnsgæðum og sjálfbærri nýtingu vatns.

Samfylkingin telur það heppilega meginreglu að landeigendur hafi nýtingarrétt til vatns, eins og gert er ráð fyrir í gildandi vatnalögum frá 1923, en lýsir sig andvíga því að einkaeignarréttur á vatni verði festur í lög eins og gert er í frumvarpi ríkisstjórnarinnar til nýrra vatnalaga. Ógerlegt er að spá fyrir um réttaráhrif breytingarinnar, en líklegt er að með samþykkt frumvarpsins yrði ríkið skaðabótaskylt gagnvart vatnseigendunum ef Alþingi vildi síðar auka aftur almannarétt. Annars konar nýting vatns en nú er stunduð yrði eigendum í sjálfsvald sett án lagabreytinga, og grunnvatn í landinu yrði endanlega gert að einkaeign

Frumvarpið er í mótsögn við Evrópulöggjöf um vatn. Í rammatilskipun sambandsins um vatn segir m.a.: „Vatn er ekki eins og hver önnur verslunarvara heldur arfleifð sem ber að vernda, standa vörð um og fara með sem slíka.“ (2000/60/EB frá 23. október 2000.)

Þingflokkurinn bendir á að andi laganna frá 1923 var sá að bændum væri best treystandi til að varðveita landið og nytja með skynsamlegum hætti. Því var ákveðið að binda nýtingarréttinn við landeign í stað þess að vatnsföllin sjálf gengju kaupum og sölum. Þessi skipan hefur reynst allvel í rúma átta áratugi. Mikið kapphlaup er hafið um eignar- og nýtingarrétt á auðlindum og landeignir í sveitum færast í síauknum mæli úr höndum bændastéttar, sem nytjaði landið sér og sínum til lífsviðurværis, til einstakra fjárfesta. Við endurskoðun vatnalaga er eðlilegt að taka mið af þessum breytingum og skilyrða betur nýtingarréttinn. Iðnaðarráðherrann og ríkisstjórnin hafa hins vegar valið þá leið að afhenda landeigendum, gömlum og nýjum, óskorað eignarhald á sameiginlegum verðmætum þjóðarinnar.

Vatnalagafrumvarp iðnaðarráðherra er nú komið úr nefnd til 2. umr. á Alþingi. Þingflokkurinn telur að ekki eigi að ljúka afgreiðslu þessa máls á þinginu nú og hafa þingmenn flokksins í iðnaðarnefnd lagt til að því verði vísað frá. Auk þess að ofan greinir leggja þingmennirnir áherslu á að ekki sé ráðist í heildarendurskoðun vatnalaganna þar til fyrir liggja öll frumvörp að lögum sem eiga að taka við hlutverki þeirra.

Hér er einkum átt við lög sem leyst geta af hólmi lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, en nýtt frumvarp á því sviði bíður álits nefndar sem iðnaðarráðherra hefur ekki enn skipað. Sú nefnd á að fjalla um framtíð þjóðarauðlinda og meðferð þeirra ásamt því hvernig valið verði milli þeirra sem sækjast eftir rannsóknar- og nýtingarleyfum til orku og auðlindanýtingar. Einnig er nauðsynlegt að frumvarp um vatnsvernd liggi fyrir af hálfu umhverfisráðherra en því er ætlað að koma til móts við tilskipun Evrópusambandsins um nýtingu og meðferð vatns og mun efni þess augljóslega koma í stað mikilvægra ákvæða vatnalaga frá 1923.

Samfylkingin á Alþingi beitir sér því gegn frumvarpi iðnaðarráðherra um einkaeignarrétt á vatni. Flokkurinn lýsir sig hins vegar reiðubúinn til að taka þátt í að skapa pólitíska sátt um samræmda stefnu og stjórn á nýtingu náttúruauðlinda sem byggist á heilsteyptum lagaramma um hlutverk og ábyrgð ríkisins á ráðstöfun og nýtingu þeirra. Liður í því er að vinna tillögu um hvernig ákvæðum um sameign auðlinda og þjóðarforsjá með auðlindum utan einkaeignarréttar verði best fyrir komið í stjórnarskrá Íslands.“

Forseti. Ég hyggst ljúka máli mínu innan skamms. Ég hef notið þess að vera hér í stólnum þennan tíma, bæði fyrir matarhlé og eftir, en hef nú ekki komið öllu því í verk sem ég ætlaði mér. Það er kannski þannig að þegar vanda á verkið verður stundum sitthvað út undan. Ég hef t.d. ekki farið yfir þær umsagnir sem ég hét þingheimi að gera, yfir umsögn Umhverfisstofnunar og yfir umsögn Náttúrufræðistofnunar, en þar er ýmislegt bitastætt að finna einmitt um þetta átakaefni, hvort um form- eða efnisbreytingu sé að ræða, og væri fróðlegt að líta betur á það. Á hinn bóginn hef ég ekki fjallað um þau önnur frumvörp sem við þyrftum að hafa fyrir framan okkur ef vel væri og ef við værum í alvöru, með þjóðarhagsmuni að leiðarljósi, að fjalla um það í raun og veru að endurskoða löggjöf um vatn og vatnsvernd.

Sem betur fer á þessi umræða eftir að halda áfram, ekki bara hér í kvöld og nótt heldur einhverja næstu þingdaga og m.a.s. er ein umræða í viðbót, sem er 3. umr., og tekur væntanlega nokkurn tíma líka, einkum ef stjórnarmeirihlutinn hér á þinginu ætlar að knýja þetta mál fram með þeim hætti sem hann hefur gert sig líklegan til nú að undanförnu, og fjallað var um í upphafi ræðu minnar og andsvörum hér fyrr í kvöld. Menn hafa spurt, forseti, um hvað sé hér að ræða. Stjórnarliðar sumir hafa gert sér upp undrun á því hvað við séum að vilja hér í ræðustólinn og hvaða leiðindi þetta séu í stjórnarandstöðunni, hún sé með einhvers konar upphlaup eða að vekja á sér athygli, eins og orðalagið er hjá stjórnarliðum og ráðherrum hæstv. um stjórnarandstöðuna oft og tíðum, og þeir hafa auðvitað rétt til sinna orða. Það er auðvitað þannig að ekkert í samþykkt þessa frumvarps hér gerist á næstu vikum eða mánuðum sem verði þjóðinni til mikils voða í þessum efnum, ég vona a.m.k. að það verði ekki. Hins vegar er um grundvallaratriði að ræða og ég tel að í ræðu minni hafi verið sýnt fram á það hversu ófyrirsjáanlegar afleiðingarnar af þessu geta orðið fyrir þjóðina og fyrir ríkið og fjárhag ríkisins að vaða í þessar breytingar hér með þeim bláeygu sjónarmiðum, hvort sem þau eru nú mælt fram í alvöru eða ekki, að einungis sé um formbreytingu að ræða, að þetta stríð hafi verið unnið árið 1998 eða að það hafi unnist smám saman í dómaframkvæmdum eins og ég fjallaði hér um áður.

Það eru alvarlegir hlutir sem hér hafa átt sér stað undanfarna áratugi og leitt til þess að auðlindir okkar, þær sem eiga að vera okkur sameiginlegar eða eiga að vera í okkar forsjá, hafa smátt og smátt verið togaðar yfir í markaðsskipulag þar sem ekki stendur til að beita markaðnum sem þjóni til þess að framkalla ákveðið ástand, hvetja menn til sérstakrar hegðunar en hafa utan um þann ramma sem samfélagið setur og telur hyggilegt. Þessar breytingar hafa tekið til auðæfanna í hafinu, til auðæfanna á landi og undir því og nú er sem sé í þriðja lagi verið að leiðrétta þennan sögulega misskilning um vatnið þannig að orð stjórnarliða þeirra sem hér hafa tekið þátt í umræðunni séu túlkuð.

Ég vara við þessu frumvarpi, forseti, og ég vara líka við þeim vinnubrögðum sem að baki standa. Ég tel að í raun og veru hafi ríkisstjórn, jafnvel með nokkuð góðan þingmeirihluta, ekki siðferðilegt leyfi til þess að ráðstafa gæðum þjóðarinnar allrar með þessum hætti. Hún verði að leita miklu víðari samstöðu í samfélaginu og meðal stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka þegar um er að véla þau mál sem snerta alla þjóðina og rétt hennar, eins og sagði hér í einum textanum, ekki bara í þessari kynslóð heldur í öllum þeim kynslóðum sem eftir eiga að koma, þegar hún leggur það til eða íhugar það að skapa með lagasetningu af því tagi sem hér er um að ræða skaðabótarétt sem enginn veit hver kynni að verða fram í tímann vegna þess að fært hafi verið yfir í einkaeignarrétt einstaklingum og fyrirtækjum til handa það sem sannarlega á að vera í forsjá eða eigu þjóðarinnar. Ég tel að þetta sé alvörumál og þó ekki væri til annars en að vekja athygli á því held ég að þessum nokkru mínútum mínum hér í ræðustól Alþingis hafi verið vel varið.