136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

búvörusamningurinn.

[10:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Þetta voru ansi margar spurningar. Á einni mínútu er ég hræddur um að verði frekar fátæklegt um svör ef ég reyni að glíma við þær allar. Af því að hv. þingmaður spurði í fyrri ræðu sinni um skerðinguna á búvörusamningnum sem fyrri ríkisstjórn ákvað vil ég segja að hún er auðvitað inni í forsendum fjárlaga yfirstandandi árs og þar er 800 millj. kr. niðurskurður eða sparnaður áætlaður sem ekki verður svo auðveldlega tekinn til baka nema að tryggja þá einhvern veginn fjármuni fyrir því á móti.

Ég hef mikinn áhuga á að reyna að stuðla að því að landbúnaðurinn geti, þótt aðstæður séu erfiðar, aukið innlend aðföng, kornrækt verði sem mest í ár og gert fleiri slíka hluti sem vissulega hafa jákvæð áhrif, draga úr þörf landbúnaðarins fyrir innflutt aðföng og spara þar með gjaldeyri. Aukin heimaöflun af ýmsum toga og aðrir slíkir hlutir eru allt áhugaverðir þættir sem hv. þingmaður nefndi hér. Það verður allt gert sem mögulegt er til þess að reyna annars vegar að styðja greinina í gegnum erfiðleikana og hins vegar auka þar verðmætasköpun og skapa (Forseti hringir.) störf.