136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

tímabundnar ráðstafanir í þágu einstaklinga.

128. mál
[12:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög athyglisverður punktur sem hv. þingmaður kemur inn á og í rauninni er dálítið athyglisvert að fólk sem hefur haft velsæld og góðæri og allt gengið því haginn frá því það byrjaði að vinna lendir nú allt í einu í vandræðum. Allir sem eru undir þrítugu hafa í rauninni aldrei lent í neinum erfiðleikum sem heitir getur. Allt hefur gengið upp. Hlutabréfin þeirra hafa hækkað. Íbúðaverð hefur hækkað. Launin hafa hækkað umfram allt annað o.s.frv. Og nú lenda menn allt í einu í vandræðum.

Það getur vel verið, frú forseti, að við þurfum að kenna fólki að vera atvinnulaust. Hvað gerir maður þegar maður er atvinnulaus? Hvað gerir maður sem allt í einu á ekki að mæta neins staðar?

Ég hef eitt ráð fyrir þann mann: Sýna virkni, mæta einhvers staðar, byrja að skapa nýja framtíð og muna að yfirleitt er það svo að það er ekki honum að kenna að hann er atvinnulaus. Það er tilviljun að hann varð atvinnulaus en ekki einhver annar.

Það þarf líka að kenna fólki að lenda í vanskilum. Ég þekki fólk sem getur ekki ímyndað sér hvernig það er að lenda í vanskilum og líður svo illa þegar það lendir í vanskilum. Svo lendir það allt í einu vanskilum vegna þess að það er atvinnulaust eða ræður ekki við gengistryggðu lánin eða eitthvað slíkt og hefur gert einhver mistök. Það þarf að kenna fólki að vera í vanskilum.

Hafið samband við kröfuhafa. Númer eitt, tvö og þrjú: Hafið samband við kröfuhafa. Það á að kenna fólki að lenda í vanskilum og svo þarf að kenna því að verða gjaldþrota. Það þarf að segja við fólk að þótt menn verði gjaldþrota er ekki allt búið. Þeir þurfa að vinna úr gjaldþrotinu nákvæmlega eins og aðrir sem standa í kringum mann sem verður gjaldþrota þurfa að aðstoða hann og segja: Þetta eru nú bara eignir sem tapast og þú ríst aftur upp eftir einhver ár og munt standa þína plikt eins og allir aðrir. Oft og tíðum eru gjaldþrotin líka tilviljun, ekki endilega af eigin ástæðum en margir hafa náttúrlega gert mistök í fjármálum. Þetta eru þrír hópar. (Forseti hringir.) Það þarf að kenna fólki þetta.