140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

veiðigjöld.

[10:46]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Hér er rekstrarreikningur Granda fyrir árið 2011. Fyrirtækið Grandi borgaði í tekjuskatt 5,8 milljónir evra á síðasta ári. Við skulum hafa það með í umræðunni. Þegar menn tala um gjaldtöku á einstök fyrirtæki skulum við taka alla gjaldtökuna, bæði tekjuskattinn og veiðigjaldið, en ekki bara taka veiðigjaldið og skoða sem hlutfall af veltunni. Ég er ekki með þessu að segja að Grandi borgi óhóflega mikla skatta og óhóflega mikið veiðigjald. Við höfum stutt hugmyndir um að hækka veiðigjaldið þannig að tryggt væri að fyrirtækin borguðu sanngjarnan hlut. Sannarlega er það rétt að þau hafa sýnt sérstaklega góða afkomu undanfarin tvö ár en við verðum að horfa til lengri tíma og skoða hver afkoma sjávarútvegsins hefur verið til dæmis síðasta áratuginn. Við þurfum að koma á fót kerfi sem þolir sveiflur, t.d. í gengi krónunnar, í stofnunum og á mörkuðum erlendis. Við getum ekki sniðið kerfið þannig (Forseti hringir.) að það miði við allra bestu aðstæður og kollvarpi þeim fyrirtækjum sem hafa skuldsett sig vegna kvótakaupa sem hafa orðið á grundvelli frjálsa framsalsins sem forsætisráðherra sjálf hefur stutt.