140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd. Fyrir liggja nefndarálit og breytingartillaga frá meiri hluta nefndarinnar, hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og enn fremur nefndarálit frá 1. og 2. minni hluta auk þess sem fjöldi breytingartillagna liggur fyrir.

Það veldur mér vonbrigðum þegar ég les nefndarálit frá meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hún hefur ekki leitað umsagna um þetta mál, um ferlið. Finnst mér það vera hroðvirknislega unnið í nefndinni, enda er mikil tímapressa á málinu og það þarf að klárast fyrir kvöldið. Það liggur við að maður sé feiminn við að tala í ljósi þess, en mér finnst ekki hægt að sýna stjórnarskrá Íslands svona lítilsvirðingu, það er bara ekki hægt.

Þegar greiða á atkvæði um eitt stykki nýja stjórnarskrá og ferlið í kringum það þætti mér algert lágmark að búið væri að fara í gegnum það efnislega, búið að leiðrétta augljósar villur, búið að laga það sem menn telja að betur megi fara o.s.frv. þannig að menn séu alla vega að greiða atkvæði um sæmilega vitrænt plagg. Nú er ég ekki að segja að það sé ekki vitrænt en komið hafa í ljós ýmsir gallar sem mætti með lítilli fyrirhöfn laga og ég kem inn á það síðar ef ég kemst svo langt í þessari ræðu.

Það vantar sem sagt umsagnir frá fólki og sérfræðingum sem kynnu að hafa vit á því í hvaða ferli stjórnarskrá ætti að fara og hvort þetta sé vitrænt ferli sem hér er að fara af stað með þessari þingsályktunartillögu. Meiri hlutinn er ekki viðstaddur umræðuna, alla vega ætti formaðurinn að vera viðstaddur og í rauninni ætti öll nefndin að vera viðstödd, flutningsmenn ættu að sýna sinni eigin afurð þá virðingu að sitja og hlusta á mál manna um þetta nefndarálit. Vildi ég gjarnan, herra forseti, að reynt verði að fara þess á leit að flutningsmenn málsins séu viðstaddir umræðuna.

Fyrst er gerð tillaga um ákveðinn formála og síðan almenn spurning um hvort menn séu sáttir við tillöguna og þetta lítur þannig út núna að fyrsta spurningin er: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ Og þá segja menn: Já, ég vil það eða nei, ég vil það ekki. Um leið og menn segja já eru þeir búnir að taka afstöðu til allra greinanna. Þess vegna velti ég fyrir mér hvað það þýðir eiginlega þegar maður er búinn að segja já og þar af leiðandi við grein sem ég ætla rétt aðeins að fletta upp, herra forseti, en í 1. mgr. 34. gr. stendur:

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.“

Um leið og menn samþykkja stjórnarskrána í heild sinni, ef á að leggja það fram sem frumvarp, eru þeir búnir að samþykkja þetta líka. En svo eru þeir spurðir um þetta atriði, menn eru spurðir um þetta atriði sem þeir eru búnir að samþykkja í spurningunni á undan. Og þeir eru spurðir í spurningu tvö: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“ Þeir eru búnir að svara þessu, herra forseti. Ef þeir segðu já væru þeir búnir að svara því játandi. Ef þeir segðu nei vildu þeir það ekki, það er reyndar dálítið spurning um hvort þeir vildu þetta atriði eða eitthvert annað, en ef þeir segja já vilja þeir hafa stjórnarskrána svona. Þannig að þeir sem segja já þurfa ekkert að svara spurningu tvö og það kæmi upp mjög skrýtin staða ef þeir segðu nei við því, þá eru þeir komnir í mótsögn við sjálfa sig. Þetta á við um allar spurningarnar.

Spurningarnar sem koma á eftir eru í rauninni rökleysa. Mér finnst mjög dapurlegt að þurfa að benda fólki á svona augljósa rökleysu í ferlinu að stjórnarskránni sjálfri. Það sem menn hefðu átt að gera var að spyrja fyrst spurningarinnar: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“ Og spyrja síðan, þegar menn eru búnir að svara þessum spurningum öllum: Vilt þú samþykkja stjórnarskrána með ofangreindum breytingum sem þú leggur til? Þá væri þetta röklega í einhverju samhengi. Ég veit það ekki, mér finnst þetta bara vera illa unnið og ég er nærri viss um að ef leitað hefði verið umsagna hjá aðilum sem þekkja inn á þessi fræði hefðu menn bent á þessa rökleysu í þeim breytingartillögum sem koma frá hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Þetta á við um mörg önnur atriði, t.d. spurninguna: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“ Þetta er í tillögum stjórnlagaráðs. Menn eru búnir að svara þessu með því að svara almennt um tillögur stjórnlagaráðs. Þetta er bara um breytingartillögurnar. Ég get svo sem tekið fleiri, t.d. breytingartillögu þar sem spurt er: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?“ En það er bara ekki minnst á þetta í núverandi stjórnarskrá þannig að það er verið að breyta því í það að hafa persónukjör yfirleitt en ekki í meira mæli. Það sem í dag má líta á sem mjög veikt persónukjör er í kosningalögunum og felst í útstrikunum en sú aðferð hefur reynst mjög veik. Það er vissulega ákveðið persónukjör en það er í lögum en ekki í stjórnarskrá. Við erum að fjalla um stjórnarskrá, við erum að fjalla um grunninn, herra forseti.

Svo vil ég geta um það að ef atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu eiga að vega jafnt þá er ekki hægt að ná því fram nema í einu kjördæmi. Nú hafa margir verið hlynntir því að hafa landið eitt kjördæmi og þá ætti spurningin að hljóða þannig og þá ættu menn líka að átta sig á að eitt kjördæmi þýðir meira flokksræði. Núna erum við með sex litla höfðingja í hverjum flokki sem eru fyrstu menn í hverju kjördæmi landsins og enginn þeirra er meiri en annar. En ef landið yrði allt eitt kjördæmi yrði einn eindreginn foringi þingmanna í þeim ágæta flokki og þá vex vald þess foringja mjög mikið og flokksræðið vex mikið og er ekki á bætandi, finnst mér, þegar maður heyrir hérna um kattasmölun og annað slíkt. Það var meira að segja nefnt í skýrslu þingmannanefndarinnar. Við erum því í rauninni að kjósa þarna um hvort við viljum meira flokksræði.

Auðvitað má hafa minna misvægi í kosningum. Ég er á móti því að mismuna kjósendum eftir búsetu og vil að ríkisvaldið lagi það misrétti sem er til í dag vegna þess að öll stjórnsýslan er í Reykjavík, og það sé lagað með öðrum hætti en þeim að menn hafi ekki sama lýðræðislegan rétt. Það er hægt að gera á margan annan hátt en svona, t.d. að gera ferðir til stjórnsýslunnar ókeypis sem mér þætti vera eðlilegt. Hvers á maður sem býr á Raufarhöfn að gjalda að það er búið að taka ákvörðun um að hafa stjórnsýsluna í Reykjavík? Mér finnst miklu betra að borga fyrir hann ferðirnar og allt sem hann þarf en að minnka lýðræðið í landinu.

Síðan er þarna tillaga um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er reyndar mjög hlynntur þessu. Þetta má samt ekki vera þannig að verið sé að kjósa tvisvar í viku um einhver mál, þröskuldurinn þarf að vera sæmilega hár, en ég tel að þetta væri gott mál í staðinn fyrir hugmyndir stjórnlagaráðs, ég kem reyndar inn á það þegar ég ræði einstök mál og einstakar tillögur.

Ég vil þakka hv. formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir að mæta til fundarins þannig að hún geti hlýtt á mál mitt og heyrt það sem ég hef út á þetta að setja. Ég er hlynntur því að sum mál geti farið í þjóðaratkvæðagreiðslu en það þurfa að vera sæmilega háir þröskuldar þannig að við séum ekki að kjósa alla daga og áhuginn dvíni og þátttakan verði kannski 5%. Auðvitað mætti auka hana með því að hafa rafrænar kosningar en það er önnur saga.

Það sem rætt er í þessum tillögum er til dæmis að 2% geti lagt fram frumvarp á Alþingi. Mér finnst það fráleitt en ég kem inn á það sérstaklega á eftir. Hins vegar finnst mér vanta að ákveðinn hluti kjósenda geti krafist þingrofs — það væri miklu sterkara en þar þyrfti þröskuldurinn að sjálfsögðu að vera nokkuð hár — að þegar ríkisstjórn er búin að ganga þvílíkt fram af fólki og það næst sæmilegur vilji geti menn kosið um að það verði þingrof og nýjar kosningar. Það þætti mér mjög lýðræðislegt.

Ég ætla ekki að fara í gegnum nefndarálit 1. minni hluta, sem eru mínir flokksmenn, ekki nema benda á að það er alveg hárrétt sem þeir benda á að víða er talað um nýja stjórnarskrá. Þetta er ekki ný stjórnarskrá, það er ekki búið að samþykkja hana þannig að þetta er ekki einu sinni stjórnarskrá. Það er ákveðið gildismat í þessu máli.

Síðan er nefndarálit frá 2. minni hluta, Vigdísi Hauksdóttur. Hún bendir á að hér hafa nokkrum sinnum komið fram tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu og þær hafa alltaf verið felldar. Og það er svo merkilegt að þær eru felldar af nákvæmlega sama fólki og núna talar mest um lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur o.s.frv. Ég man að ég flutti í örvæntingu minni — þegar stóð til að samþykkja Icesave flutti ég tillögu ásamt fleiri ágætum þingmönnum um að það mál færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var fellt af sama fólki og nú talar háværast um að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og þekki ég ekki neitt mál sem hefði orðið afdrifaríkara fyrir þjóðina og var samþykkt sem lög, en sem betur fer kom forseti Íslands þjóðinni til bjargar og bjargaði okkur frá því að samþykkja þau ósköp sem Icesave var og hefði verið.

Þetta eru þau nefndarálit sem hafa komið fram og svo koma hér margar breytingartillögur og ég ætla að fara í gegnum þær. Í fyrsta lagi um hvort draga eigi aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Mér finnst það mjög sjálfsögð spurning vegna þess að í þessum drögum eru tvær greinar sem geta gert það að verkum að stjórnvöld geta tiltölulega auðveldlega gengið í Evrópusambandið án þess að spyrja kóng eða prest. Alla vega má túlka það svo í annarri tillögunni að það sé hægt. Mér finnst það bara atlaga að fullveldinu. Ég ætla ekki að orða það neitt nettar. Ég styð því þessa tillögu frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur.

Þá er tillaga frá Lilju Mósesdóttur, Jóni Kr. Arnarsyni og Valgeiri Skagfjörð, hv. þingmönnum, þar sem spurt er: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum?“

Þetta finnst mér sömuleiðis sjálfsagt vegna þess sem ég gat um áðan að þarna eru ákvæði um að hægt sé að gera þjóðréttarskuldbindandi samninga án mikilla erfiðleika, en ég hefði vilja bæta við fjárhagslegar skuldbindingar líka.

Síðan er tillaga frá 1. minni hluta, Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal, hv. þingmönnum, þar sem spurt er: „Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem forseta Íslands er falið að stýra myndun ríkisstjórnar?“ — Já eða nei.

Ég hef ekki heyrt rök þeirra fyrir þessu, ég missti af því áðan, en tel að þetta gæti verið mjög til skoðunar að þjóðin greiddi atkvæði um þetta hlutverk forsetaembættisins.

Síðan er breytingartillaga frá þeim um að orðið „nýrri“ á undan stjórnarskrá sé fellt burt af því að þetta er ekki orðið stjórnarskrá. Ég tek hjartanlega undir það.

Einnig er breytingartillaga frá 1. minni hluta þar sem stendur: „Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem heimilað er að framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana?“

Þetta er verulega veigamikið atriði, herra forseti. Þetta er nefnilega spurningin um hvort við viljum halda því sjálfstæði sem við fengum eftir langa baráttu frá Dönum og hvort við viljum að þjóðin eða kjósendur komi að því að taka slíkar ákvarðanir. Þessa tillögu styð ég mjög eindregið og mættu aðrar tillögur fara út í staðinn, eins og til dæmis hin óljósa tillaga að spurningu um persónukjör.

Þá er sömuleiðis tillaga frá 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem spurt er: „Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem forseta Íslands er heimilað að synja lagafrumvörpum staðfestingar og vísa þeim þannig í þjóðaratkvæðagreiðslu?“

Þetta finnst mér líka veigamikið atriði. Þetta er einmitt það sem mestur styr hefur staðið um í 26. gr. og ég var löngum á móti þar til Icesave-málið kom upp, þá sá ég allt í einu nauðsyn á þessu. En það má segja að með því að auka vægi almennings eða kjósenda í ákvarðanatöku þurfi kannski ekki þetta ákvæði. Það sýnir einmitt hvernig svona spurningar geta rekist á. Segjum að þjóðin samþykki að stærri mál skuli fara í kosningu, þá þarf ekki lengur atbeina forseta til að vísa málinu til þjóðarinnar, ekki eins.

Þá er breytingartillaga frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að einnig skuli greidd atkvæði um það hvort stjórnvöld eigi að draga umsögn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka. Ég er nærri viss um, og reyndar styrkja skoðanakannanir þann grun minn, að meiri hluti þjóðarinnar sé ekki hlynntur því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og að enn stærri meiri hluti þjóðarinnar vilji alls ekki ganga í Evrópusambandið. Það er því dálítið undarlegt að menn séu að sækja um aðild að Evrópusambandinu í þeirri stöðu Þar er líka tillaga um að heiti tillögunnar verði: „Tillaga til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd, auk atkvæðagreiðslu um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.“

Loks er svohljóðandi tillaga frá Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal, hv. þingmönnum, annars vegar: „Ég vil að unnið verði að breytingum á gildandi stjórnarskrá án þess að tillaga stjórnlagaráðs liggi þar til grundvallar“ — þ.e. að farið verði í nýja vinnu við breytingu á stjórnarskránni og hins vegar: — „Ég vil að stjórnarskrá Íslands verði óbreytt frá því sem nú er.“

Nú er tími minn búinn og ég verð að biðja aftur um orðið, herra forseti, því að ég á mjög mikið eftir.