141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

lengd þingfundar.

[15:58]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég tel fulla ástæðu til að ræða stjórnarskrána. Þau gögn sem nú liggja fyrir, nefndarálit hinna ólíku nefnda þingsins sem og umsagnir margra annarra fræðimanna, gefa tilefni til töluverðrar umræðu. Það væri þarft að við tækjum þau nefndarálit og þær ályktanir sem hafa borist, ræddum þær saman, segðum skoðanir okkar á þeim og hvernig við hygðumst taka á í framhaldinu. Það er veruleg þörf á því.

Hins vegar er ég ekki viss um að það þjóni miklum tilgangi í slíkum samræðum að hafa kvöldfundi í þinginu kvöld eftir kvöld.

Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir kallar hér fram í. Ég veit fullvel, hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, hvernig starfinu (Forseti hringir.) er háttað í þinginu. Ég sit á Alþingi alveg eins og þú.