141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

fundur í atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða.

[16:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mikil sátt hefur verið um það í atvinnuveganefnd hvernig staðið hefur verið að vinnu við þessi mikilvægu mál. Starfið þar innan dyra hefur gengið mjög vel þegar sá formaður sem er fjarverandi núna, hv. þm. Kristján Möller, stýrir fundum og nefndinni. Það sem gerðist í morgun á ekkert skylt við að stjórnarandstaðan sé að breyta vinnubrögðum sínum. Við viljum áfram vanda vinnubrögð. Vandamálið er það að málið er sett fram á síðustu metrum þingsins. Þegar 14 þingdagar eru eftir til þingloka á að fara að sippa í gegn hérna þessu mikilvæga máli. Það er auðvitað vandamálið sem stjórnarmeirihlutinn stendur frammi fyrir og ekki er við stjórnarminnihlutann að sakast þar. Farið var fram með ofbeldi á nefndarfundi í morgun. Ég lagði fram tillögu á fundinum og ítrekaði margoft að ég óskaði eftir því að hún yrði tekin til atkvæðagreiðslu. Við því var ekki orðið (Forseti hringir.) heldur lagði einn nefndarmaður fram dagskrártillögu, eins og það var kallað, sem var afgreidd einn, tveir og þrír. Þar með valtað yfir okkur í minni hlutanum án þess að (Forseti hringir.) hún fengi frekari umræðu. Þetta er staðreynd málsins. Svo er verið að boða til fundahalda í næstu viku, strax eftir helgina. Tveimur vinnudögum eftir að (Forseti hringir.) sendar eru út beiðnir um umsagnir (Forseti hringir.) er farið að boða til kvöldfundar til að ræða þetta mál við gesti. Áður (Forseti hringir.) en nefndarmenn hafa skýrslur frá sérfræðingum í höndunum og (Forseti hringir.) áður en nefndarmenn hafa fengið umsagnir (Forseti hringir.) umsagnaraðila þá á að fara að ræða þetta mál. (Forseti hringir.) Þetta eru vinnubrögð sem forsætisnefnd verður að grípa inn í, virðulegi forseti.