141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

nauðasamningar þrotabúa föllnu bankanna og útgreiðslur gjaldeyris.

[16:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Við erum að fást við býsna einstakt verkefni hér á landi, það er alveg rétt sem fram hefur komið að því leyti til. Út af síðustu orðum hv. þingmanns vil ég segja að ég tel aðkomu erlendra sérfræðinga okkur til ráðgjafar við útfærslu á þessu verkefni vel koma til greina. Ég tel að það gæti vel komið til greina á næstunni að leita eftir slíkri ráðgjöf.

Vinnan felst í því að kortleggja stöðuna eftir að við höfum fyrir framan okkur myndina af uppgjöri gömlu bankanna, þ.e. að kortleggja útflæðið og reyna að setja upp mismunandi sviðsmyndir til að sjá hvað hafi áhrif á hvað langt fram í tímann, hvaða verkfæri við eigum að nota og hvaða verkfærum verður helst beitt til að losa um fjármagnshöftin á næstunni.

Ég get ekki talað beint úr þessum ræðustóli um afskriftir eða hvað ég teldi að menn ættu að gefa eftir í tengslum við nauðasamninga bankanna eða hvað kröfuhafar ættu að taka á sig, en ég vil benda á að stjórnvöld og Seðlabanki Íslands eru algerlega samstiga um — ég held við séum það öll hér inni — að ganga eins langt og lög og þjóðréttarlegar skuldbindingar leyfa okkur í þessu efni til að verja hagsmuni okkar Íslendinga. Um það held ég að við séum öll sammála og að því eigum við að stefna og að því eigum við að vinna í sameiningu.

Það er líka alveg skýrt og liggur ljóst fyrir að Seðlabanki Íslands mun ekki gefa út reglur sem heimila undanþágur til uppgjörs á þrotabúum gömlu bankanna án þess að það hafi verið rætt í stýrinefnd um losun fjármagnshafta og samþykkt af fjármála- og efnahagsráðherra. Slíkar reglur geta eðli málsins samkvæmt innihaldið fyrirætlanir sem hafa mikil áhrif á verðbréfamarkaði og henta því ekki til opinberrar umræðu. Af minni hálfu er mjög ríkur vilji til pólitísks samráðs um málið áfram eins og verið hefur í nefndinni. Ég held líka að efnahags- og viðskiptanefnd þurfi að koma þéttar að þessu máli þannig að við séum í góðu samtali um kostina og allir séu vel upplýstir um stöðuna hverju sinni þannig að bestu mögulegu ákvarðanir verði teknar um þetta stóra hagsmunamál þegar að því kemur.