141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:22]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Frú forseti. Hún er mjög athyglisverð umræðan hér um 39. gr., þ.e. um kosningar til Alþingis og skipan í kjördæmi eða ekki kjördæmi. Þrír hv. þingmenn hafa komið hingað upp og rætt þessa einu grein og raunar þessa einu setningu, hvað hún þýði, þ.e.: Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi.

Númer eitt á stjórnarskráin að vera skiljanleg og þær setningar sem þar standa eiga að vera auðskiljanlegar. Hér komu upp þrír þingmenn, sem allir hafa komið mjög mikið að þessari umræðu og skipan mála, og skilja hana hver á sinn veg. Þetta er að vísu grundvallaratriði um það hvernig við kjósum til Alþingis, um skipan kjördæma og jafnrétti til áhrifa í samfélaginu. Ég tel að þarna eigi að vera skýrt kveðið á um að við skulum kjósa til Alþingis og síðan verði kveðið á um hitt í kosningalögum.

Það er athyglisvert, og einkennandi fyrir þá umræðu sem (Forseti hringir.) staðið hefur um framsetningu á stjórnlagaráðsfrumvarpinu, að komi þrír þingmenn upp þá skilja þeir setningarnar á misjafnan og ólíkan hátt.