143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

starfsáætlun og hugmyndir um sumarþing.

[13:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er orðinn vikulegur viðburður að forustumenn úr Framsóknarflokknum kynna okkur í fjölmiðlum hugmyndir sínar um sumarþinghald. Það gerði í morgun hæstv. umhverfisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, í Morgunblaðinu og hefur trúlega ekki heyrt í forseta Alþingis í síðustu viku. Ég hvet Framsóknarflokkinn til þess, ef hann hefur þessar hugmyndir um sumarþing, að taka þær upp í forsætisnefnd þannig að flokkarnir geti komist að samkomulagi um það hvernig ætti að standa að slíku þinghaldi.

Ég tel hins vegar að miðað við þau mál sem hér liggja fyrir, vegna þess að fá mál eru komin frá ríkisstjórninni, ekkert til að mynda um fiskveiðistjórn frá hæstv. umhverfisráðherra, séu öll færi á því að ljúka þeim veigamiklu málum sem hér þarf að ljúka innan starfsáætlunar. Ég legg ríka áherslu á að við tökum skuldamálin á dagskrá og að þau fái afgreiðslu innan starfsáætlunar og fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Ég held sömuleiðis að það sé mikilvægt fyrir kjósendur í landinu að einhver niðurstaða sé komin í umfjöllun hv. utanríkismálanefndar um Evrópusambandstillöguna sem hér hefur tekið mikinn tíma.

Ég legg áherslu á að ef áætlanir eru um annað (Forseti hringir.) komi þær strax fram í forsætisnefnd. Það gefur okkur færi (Forseti hringir.) á miklu ítarlegri umfjöllun um þingmál sem liggja fyrir og vandaðri meðferð ef fleiri dagar eru til ráðstöfunar.