143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[14:46]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað í þessu máli í stað hv. þm. Róberts Marshalls sem hafði sett sig á mælendaskrá og er fulltrúi Bjartrar framtíðar í umhverfis- og samgöngunefnd. Hann er okkar sérfræðingur í málaflokknum og hefur unnið ötullega að gerð náttúruverndarlaganna í þinginu. Ég mun ekki í þessari ræðu fara í fötin hans hvað sérþekkingu varðar á þessum málaflokki. Ég vil bara segja nokkur almenn grundvallaratriði sem móta afstöðu Bjartrar framtíðar til þessarar vinnu.

Við hv. þm. Róbert Marshall vorum undir lok síðasta kjörtímabils tveir einir í þingflokki Bjartrar framtíðar, nýstofnuðum flokki, og lögðumst eindregið gegn því báðir tveir að gildistöku þessa frumvarps yrði frestað undir lok síðasta kjörtímabils eins og varð niðurstaða samninga milli flokkanna þá í tímaþröng. Við sögðum þá að málinu yrði mögulega stefnt í hættu og það væri hugsanlega vilji einhverra að láta þessi lög ekki taka gildi. Svo kom á daginn að þær grunsemdir áttu við einhver rök að styðjast vegna þess að þá kom þetta frumvarp inn í þingið þar sem gert er ráð fyrir að náttúruverndarlögin taki einfaldlega ekki gildi.

Það urðu mikil vonbrigði að sjá það frumvarp koma inn í þingið en að sama skapi er líka mikið ánægjuefni að náðst hefur að mynda sátt í umhverfis- og samgöngunefnd um að fara ekki þá leiðina, heldur fara frekar þá leið að fresta enn frekar gildistöku náttúruverndarlaganna, reyna að leysa úr ágreiningi sem virðist vera um einstaka kafla laganna og láta þar við sitja en ekki fara þá leiðina að láta alla þessa vinnu fara fyrir bí. Mjög mikil vinna liggur að baki þessum lagabálki. Það sést líka á því hve margir sendu inn umsagnir og komu á fund nefndarinnar af þessu tilefni hversu gríðarlegur áhugi er á þessu máli meðal Íslendinga. Þetta er allt mjög vandratað.

Náttúruverndarlögin sem hér liggja fyrir eru mjög metnaðarfull, mjög mikil vinna sem liggur að baki þeim, og þau eru líka vandasöm vegna þess að við erum að reyna að þræða einhver mörk milli nýtingar og verndar, á milli þess að njóta náttúrunnar og vernda hana eins og sést glögglega í álitamálum tengdum utanvegaakstri sem er eitt heitasta deilumálið um þennan lagabálk. Um hvað erum við að fjalla þar? Auðvitað er að mörgu leyti falleg sú rómantíska hugmynd að geta bara skoðað íslenska náttúru eins og maður vill á því farartæki sem maður kýs, liggur við. Þannig hefur þetta að mörgu leyti verið. Fólk hefur búið til sína eigin slóða en til langs tíma skemmir þetta líka það sem við erum að reyna að njóta.

Eins og ég skynja inntak þessara náttúruverndarlaga er það það að reyna að koma einhverju skipulagi á það hvernig við njótum náttúrunnar til að vernda hana. Ef við verndum hana ekki er ekki lengur neitt til að njóta og það er nákvæmlega þetta bil sem við reynum að þræða. Þetta kann að virðast erfitt fyrir suma sem hafa upplifað það að fara um náttúruna nokkurn veginn eins og þá langar til en ég held að við Íslendingar verðum að horfast í augu við það að nú er komið að þeim tímapunkti, sérstaklega með auknum fjölda ferðamanna, að við verðum að búa til skýran ramma sem sátt er um til þess einfaldlega að ganga ekki á þessa perlu sem við viljum njóta.

Margt lítur líka eflaust róttækt út í íslensku samfélagi eins og varúðarreglan svo dæmi sé tekið, reglan um að náttúran njóti vafans. Við höfum ekki alltaf látið hana gera það og höfum efnt til framkvæmda í íslenskri náttúru sem er algjörlega þvert á ráðleggingar vísindaaðila og stofnana. Í því andrúmslofti kann vissulega að virðast róttækt ákvæði um sérstaka vernd og lögfestingu varúðarreglunnar í náttúruverndarlögum.

Við í Bjartri framtíð styðjum róttæknina í þessu og verðum að horfast í augu við að það þarf einn umgang enn í að fjalla um vissar greinar frumvarpsins, m.a. út af róttækninni. Við fögnum því að fallið er frá því að náttúruverndarlögin taki einfaldlega ekki gildi. Við styðjum að sjálfsögðu sáttina sem var í umhverfis- og samgöngunefnd og ég læt þar við sitja.