143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[14:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða ótrúlega mikilvægt mál. Það er kannski miklu stærra en maður gæti ætlað ef maður væri ekki vel inni í því. Þetta er grundvallarlagasetning, lagasetning sem skiptir okkur gríðarlega miklu máli, bæði með tilliti til verndar og atvinnu vegna þess að henni er ætlað að uppfæra lagasetningu okkar á sviði náttúruverndar. Frá 1956 hefur það verið gert á um það bil 15 ára fresti, sem sagt 1956 og síðan komu önnur lög 1971, aftur 1999 og svo voru ný sett á síðasta ári.

Meginástæðan er sú að gríðarlegar breytingar eiga sér stað á þessu sviði. Öll umræðan, lagarammi og viðhorf á sviði náttúruverndar og annarra umhverfismála hafa tekið mjög miklum breytingum, alþjóðlegar skuldbindingar okkar sem og síaukið efnahagslegt og pólitískt vægi málaflokksins. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að um þetta ríki góð sátt.

Nefndin stóð sameiginlega að þessu áliti. Er það afar vel og ætla ég að fara yfir það á eftir hvaða vinnulagi við beittum til að komast að þeirri niðurstöðu. Fyrst langar mig þó að segja að vinnulagið við undirbúning lagasetningarinnar hefur verið gagnrýnt. Mig langar að ræða það mál aðeins vegna þess að ég tel að þar hafi menn farið mjög áhugaverða leið sem gæti verið til fyrirmyndar fyrir önnur mál. Í staðinn fyrir að fara hefðbundna leið, annaðhvort að ráðuneytið semdi frumvarpið og setti það til umsagnar á vefsíðu sinni og ynni síðan úr því eða þá leið sem við þekkjum líka sem er að setja saman hóp með hagsmunaaðilum og pólitíkinni, var ákveðið að byrja á því að fá hóp sérfræðinga á þessu sviði úr ólíkum áttum til að setjast niður og gera grunngagn sem varð síðan niðurstaðan sem sést í hvítbókinni um þetta mál. Það er undanfari þessarar lagasetningar og ég tel gríðarlega dýrmætt fyrir okkur að geta farið út í vinnu í tengslum við lagasetningu með slík úrvalsgrunngögn í farteskinu.

Í framhaldinu var síðan hvítbókin send til umsagnar og hið hefðbundna ferli með samráði hófst. Það var gefinn mjög rúmur tími til athugasemda og ég tel að býsna vel hafi verið að þessu staðið. Það er rétt að farin var önnur leið en venjulega og kannski bregður mörgum þess vegna við. Það kann að vera skiljanlegt en ég tel engu að síður að þessi leið hafi verið mjög áhugaverð og eftir á, núna þegar við höfum unnið með málið, hefur það skipt okkur mjög miklu máli að hafa svo mikilvægt grunngagn frá þessum sérfræðingum okkur til stuðnings.

En svo urðu töluverðar breytingar á málinu í þinginu. Grunnurinn að því að menn ákváðu að koma inn með það mál að draga það alfarið til baka er að ákveðin atriði í málinu voru töluvert umdeild, t.d. varúðarreglan og sérstaka verndin sem fjallað er um í nefndarálitinu. Það var ekki síst utanvegaaksturinn og ég verð að nefna að á honum voru gerðar mjög miklar breytingar í þinginu eftir að málið var lagt fram. Ég tel að þær breytingar hafi verið mjög til góða. Það voru líka gerðar verulegar breytingar á öðrum greinum málsins og þegar frumvarpið var síðan samþykkt var búið að taka tillit til mjög mikils af gagnrýninni sem barst. Það gerði málið að öllu leyti miklu betra og þegar við fórum síðan að vinna með það í haust urðum við fljótt vör við það í umsögnum og á máli gesta að þetta voru ákveðin atriði sem við gátum beinlínis sett fingurinn á. Ég vil meina að mjög fljótlega hafi nefndarmenn með sjálfum sér, hver og einn kannski, komist að því að það væri kannski fullróttækt að henda allri lagasetningunni til hliðar og byrja upp á nýtt og betra væri að menn næðu saman um þau atriði sem eru í lagi.

Þetta er risalagabálkur, ég man ekki einu sinni í svipinn hversu margar greinar, hvort þær eru yfir 90, og 16 kaflar þannig að það var mjög mikilvægt að menn næðu saman um lögin, ekki síst vegna þess að í þessum málaflokki skiptir svo miklu máli að við reynum að ná sáttum. Það á að vera skylda okkar númer eitt vegna þess að umhverfið á Íslandi, íslensk náttúra, er mjög dýrmætt djásn en líka það sem við seljum Ísland út á. Ef pólitíkin er sýknt og heilagt í skotgröfum í náttúruverndarmálum er hætta á að það vörumerki sem við höfum haldið í og gerum enn laskist. Þess vegna fannst mér ábyrg nálgun hjá formanni nefndarinnar, hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, að fara í gegnum málið með þeim hætti sem hann gerði og stýrði sem formaður nefndarinnar að við tækjum efnisumfjöllun um lögin, þ.e. létum reyna á hvort það væri möguleiki að við gætum náð saman í málinu með því að taka utan um þær athugasemdir sem gerðar hefðu verið, ná frekar saman um að fresta þessu og vinna betur í þeim afmörkuðu þáttum.

Frá upphafi mættum við öll til þeirrar vinnu með þetta að markmiði og vilja til að ná saman í þessu stóra máli. Ég þakka stjórnarmeirihlutanum sérstaklega vegna þess að það er svo auðvelt fyrir hann að skutla sér ofan í skotgröf og vera þar en ég sá hv. þingmenn meiri hluta nefndarinnar aldrei gera það í þessari vinnu. Við ræddum málið efnislega og þannig náðum við niðurstöðu. Ég hef stundum sagt að kannski ætti að láta umhverfisnefnd og þá friðarpostula sem þar eru fá Evrópumálið, þá gæti það kannski leyst fyrr en síðar. Það er meira í gríni en alvöru, ég held að utanríkismálanefnd sé líka ágætlega til þess fallin.

Virðulegi forseti. Ég er ánægð með að við skyldum hafa náð þessari sameiginlegu lendingu en ég hef áhyggjur af því að við séum ekki að virða vinnu milli kjörtímabila og þá kannski ekki síst á sviði náttúruverndar. Þá má líka nefna rammaáætlun sem er mál sem við eigum eftir að ræða aldeilis í þinginu þar sem ég tel að menn gangi gegn anda lagasetningarinnar um rammaáætlun, bæði þegar ákveðið er að laga friðlýsingarmörk að því að menn komi með nýjar og nýjar hugmyndir inn á svæði sem hefur verið ákveðið að setja í verndarflokk.

Þar með er að mínu mati verið að taka ákvörðun um að halda í gangi ófriði um þau mál. Ég hef áhyggjur af því og finnst að fyrst við náðum niðurstöðu í þessu, þó að eftir sé hellingsvinna við að ná saman um greinarnar og efnið sjálft, sé það næsta verkefni og skylda okkar — ég sé líka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra í hliðarsal — að fara heiðarlega í gegnum það hvernig við getum þá gert breytingar á lögunum um rammaáætlun til að hér verði ekki aftur ófriður um það með hvaða hætti við ætlum að nýta íslenska náttúru. Við í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar höfum óskað eftir því að fyrir nefndina komi ráðuneytið og líka orkumálastjóri til að ræða þessi mál. Við erum ekki á eitt sátt við það að við séum farin að ræða þessi mál á þeirri forsendu sem raun ber vitni vegna þess að lögin um rammaáætlun áttu að vera sáttargjörð. Því miður eru menn núna að mínu mati að túlka þau þannig að hætt er við því að það sé í ákveðnu uppnámi.

Eins og fram kom í máli mínu fyrr eru í raun mjög fá atriði sem eftir standa og deilt er um. Er farið ágætlega yfir þau í nefndarálitinu. Þá eru líka ákveðnir kostir sem má segja að séu í þessum lögum sem munu þá væntanlega ekki taka gildi 1. apríl eins og ætlunin var. Þetta eru fjölmargir kaflar og til dæmis eru í nýju löggjöfinni sett sérstök verndarmarkmið. Markmiðsgreinarnar eru mjög skýrar í nýju löggjöfinni. Þar eru líka sett fram mjög mikilvæg verndarmarkmið á nútímavísu ef svo má að orði komast, annars vegar um náttúruna og hins vegar jarðminjar, vatnasvæði, landslag, víðerni o.s.frv. Það hefur skort mjög á slíka sýn í náttúruverndarlögum hingað til.

Meginreglur umhverfisréttar eru tilteknar í lögunum og það er ekki í fyrsta skipti sem komið er með slíkt mál inn í þingið en þau hafa ekki náð fram að ganga. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði það á vorþingi 1998 sem og þáverandi umhverfisráðherra Guðmundur Bjarnason og enn fremur þáverandi umhverfisráðherra Jónína Bjartmarz sem reyndu að koma með innleiðingu á þessum meginreglum umhverfisréttar inn í þingið en varð ekki ágengt. Það skiptir máli að þetta sé gert vegna þess að þessar reglur, þ.e. varúðarregluna og greiðsluregluna, má meðal annars rekja til Ríó-yfirlýsingarinnar frá árinu 1992. Ég tel að það skipti alveg gríðarlega miklu máli við túlkun náttúruverndarlaga að þetta sé þarna inni en um það er deilt með hvaða hætti eigi að gera þetta. Þessi varúðarregla hefur verið innleidd í löggjöf grannþjóða okkar án nokkurra vandræða og ég sé ekki af hverju við ættum ekki að geta náð saman um það líka.

Það má líka benda á að til dæmis er Landsvirkjun nýlega orðin aðili að sáttmála sem felur það í sér að þeir skrifa undir svona varúðarreglur. Svona varúðarregla hjá þjóð sem tekur náttúruvernd alvarlega verður að vera inni, það er bara svo einfalt. Núna hefst vinnan við það því að þetta er eitt af þeim atriðum sem hefur verið deilt um og þá skiptir máli að við náum saman um það með hvaða hætti þetta verður leitt inn í löggjöf.

Síðan er almannarétturinn í þessari nýju löggjöf styrktur og má segja að verið sé að færa hann til fyrra horfs frá löggjöfinni 1971 vegna þess að menn drógu dálítið úr þessum almannarétti með ákveðnum ákvæðum í lögunum frá 1999, þeim sem gilda núna. Þetta er gert með tvennum hætti. Annars vegar er verið að leita úrlausnar á stjórnsýslustigi hjá Umhverfisstofnun eða ráðherra ef upp koma álitamál um almannarétt, frjálsa för almennings um land sitt með eðlilegum takmörkunum o.s.frv. Þá er hægt að fá skjóta úrlausn deilumála sem upp koma sem má síðan skjóta til ráðherra ef menn kjósa svo. Í dag er það þannig að svona mál eru eingöngu leyst með atbeina dómstóla og það er mjög þungt og svifaseint þannig að þarna er verið að gera verulegar bætur á því.

Almannaréttur er síðan aukinn á ný með breytingunum frá lögunum 1999 og almenningi heimiluð för um óræktað land þó að landeigandi hafi girt það af nema þá að landeigandi hafi gert það af einhverjum sérstökum ástæðum, eins og vegna nýtingar eða verndunar. Heimildin til að girða af var nýmæli í lögunum 1999 þannig að núna er verið að opna á það aftur. Menn geta verið með girt en þá er mönnum engu að síður heimil för þar um nema girt sé af þessum sérstöku ástæðum.

Þessi grein er líka umdeild eins og rakið er ágætlega í nefndarálitinu. Almannaréttinum var líka töluvert breytt í umfjöllun nefndarinnar á síðasta ári og má til dæmis nefna að vélknúin ökutæki falla núna undir þetta.

Síðan verð ég að nefna eitt atriði sem ráðuneytið þarf að skoða í vinnunni fram undan, það að skýra betur þetta samspil eignarréttar og almannaréttar. Þetta er mjög aðkallandi mál. Af því að ég sé hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur vil ég nefna að hún tók þetta mál upp við umhverfisráðherra nýlega í sérstakri umræðu þar sem við erum strax farin að sjá þessi óskýru mörk milli almanna- og eignarréttar í málefnum varðandi gjaldtöku við náttúruperlur. Þar er þetta mjög mikið vafamál. Ég var ánægð með að heyra hæstv. ráðherra lýsa í þeirri umræðu að hann teldi menn þurfa að gæta betur að almannaréttinum þegar kæmi að því máli öllu saman. Þetta er ekkert smámál sem við erum að fjalla um, þetta er stórmál og þess vegna skiptir máli að við náum saman um þetta og það verði engin loðmulla í þessu vegna þess að skýrleiki í lögum er farinn að skipta æ meira máli.

Virðulegi forseti. Það eru líka ráðstafanir vegna utanvegaaksturs en ég ætla ekki að staldra mikið við þær. Ég er viss um að aðrir þingmenn gera það vegna þess að það varð mikil umræða um þær í nefndinni, mjög áhugaverð og mikilvæg. Hugtakið utan vega var orðið mjög óskýrt. Við erum komin með gríðarlegan fjölda slóða og hálfslóða og engar leiðbeiningar um það hverjir væru utan vega og hverjir ekki. Ef slóði var búinn til var hann orðinn að slóð ef einhver fór í utanvegaakstur og má segja að stjórnleysisástand hafi ríkt. Lögin sem eru í gildi núna taka ekki almennilega á þessu. Ég held að hér sé sameiginlegur vilji til að taka á utanvegaakstrinum en þá er bara spurning hvaða leið menn vilja fara. Það er nokkuð sem þá verður skoðað í þessari vinnu.

Þá vil ég líka nefna einn augljósan kost við nýju lögin, þann að þar er fjallað um eina öfluga náttúruminjaskrá þannig að verið er að gera stjórnkerfið liðugra og skýrara. Í staðinn fyrir að upplýsingar séu hér og hvar er búin til öflug miðlæg skrá.

Einn af höfuðkostum laganna er líka ný skipan verndarsvæða. Hluti af því sem ég nefndi í upphafi er að það eru alltaf breytingar í hugsun og nálgun í umhverfismálum. Það er ekki lengur viðunandi að hugsa áfram um náttúruna þannig að við bara drögum utan um hana hring og segjum: Hér er þjóðgarður og ekki gera neitt innan þessara marka — en hvað svo fyrir utan hringinn? Það er allt bannað nema að ganga og horfa á, en í lögunum eru gerðar breytingar á þessari nálgun. Í fyrsta lagi er þessu skipt niður í lifandi náttúrufyrirbrigði þannig að í staðinn fyrir að maður horfi á eitthvert svæði sem dreginn er hringur utan um er verið að horfa á lifandi náttúrufyrirbrigði eins og vistgerðir, vistkerfi og ýmsar tegundir. Síðan eru ólíkir flokkar friðlýstra svæða frá einstökum náttúruvéum, eins og fram kemur í lögunum, til víðlendra landslagsverndarsvæða eins og er orðið miklu eðlilegra að tala um í dag en það sem við búum við núna. Ég tel að þessi þáttur laganna skipti okkur Íslendinga alveg gríðarlega miklu máli til að ná utan um það sem okkur er hvað kærast sem er ímynd landsins og sú staðreynd að við göngum vel um náttúruna okkar.

Tíminn flýgur. Ég skrifa undir þetta nefndarálit með fyrirvara og hann varðar orðalag í kafla nefndarálitsins um varúðarregluna. Það hefði mátt orða öðruvísi vegna þess að ég tel ekki að neinn taki vitandi vits ákvörðun á grundvelli einna laga sem brjóti gegn öðrum. Þetta er kannski tæknileg nálgun. Ég er ekki til í að skrifa upp á að mögulega hafi menn opnað fyrir græna hryðjuverkastarfsemi ef svo má að orði komast. Það er lítið atriði í allri stóru heildinni sem mér fannst þó rétt að gera grein fyrir alveg í lokin.

Virðulegi forseti. Ég þakka nefndinni fyrir frábært samstarf sem og formanninum, hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, (Forseti hringir.) fyrir að hafa leitt þetta mál svona vel til lykta. Núna er það ráðherrans að taka málið lengra og halda áfram (Forseti hringir.) að vinna í þessum sama sáttaanda og verið hefur hingað til.