144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

afgreiðsla atvinnuveganefndar á rammaáætlun.

[13:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka forseta fyrir orð hans hér áðan, um að hann muni taka til efnislegrar athugunar hvort þessar breytingar séu þingtækar yfir höfuð. Í því efni tel ég nauðsynlegt að minna forseta á að það verður að standa vörð um þann ramma sem Alþingi markar í lögum um aðferðafræði eins og gert var með rammaáætlun og svigrúmið til að bæta við kostum inn í þingsályktunartillögur er ekki ótakmarkað. Hér hefur komið fram og er rétt að minna á það að Hagavatnsvirkjun hefur aldrei fengið meðferð, hvorki í 2. né 3. hluta rammaáætlunar, og er því órannsökuð og getur ekki verið andlag breytingartillögu ef menn ætla að virða lögin að öðru leyti.

Þá hlýt ég að kalla eftir því að ef menn ætla að flytja tillögu um Hagavatn þurfi í fyrsta lagi lagabreytingu og þá væntanlega þingsályktunartillögu sem sætir tveimur umræðum í þinginu en ekki eina umræðu um tillögu sem ekki er lagaskilyrði fyrir að verði samþykkt.