144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[23:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að deila með mér sínum vangaveltum. Það er raunar þannig og það er mjög áhugavert, og ég veit ekki hvort við höfum oft leitt hugann að þeirri staðreynd, að allt frá árinu 1974 að minnsta kosti hafði það alltaf verið þannig að í það minnsta einn ráðherra í nýrri ríkisstjórn hafði setið í þeirri sem á undan fór. Í hartnær 40 ár var það þannig, svo að ákveðin samfella var í reynslu í Stjórnarráðinu frá 1974 hið minnsta, kannski 1971 ég er ekki alveg viss, til 2013. Það er í fyrsta skipti sem það gerist að það er algerlega hreint borð og inn kemur fólk sem hefur aldrei setið í Stjórnarráðinu, hver einasti maður. Þetta hafði ekki gerst áður.

Það kann að vera og það er væntanlega viðfangsefni fræðimanna framtíðarinnar að skoða hvort beinlínis þessi staðreynd, þessi sögulega og pólitíska staðreynd, sé ein stærsta skýringin á því hversu óhönduglega þessari ríkisstjórn gengur með hvert málið á fætur öðru vegna þess að þetta fer saman við ákveðna pólitíska sjálfsmynd sem snýst um valdhroka, það fer saman valdhrokinn og reynsluleysið.

Mig langar þó til að biðja hv. þingmann, vegna þess að hann brást ekki við þeirri spurningu minni áðan, að svara þessari spurningu: Hvað telur hann að hafi legið að baki þeirri sérstöku og greinilega meðvituðu ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að sniðganga eigin þingflokka í þessu stóra máli?