149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

samningur um stöðuna eftir Brexit.

[14:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að búið er að funda með hv. utanríkismálanefnd út af öllu Brexit-málinu hvað eftir annað, bæði ég sem ráðherra og svo sannarlega embættismenn. Búið er að senda fjölda minnisblaða til hv. utanríkismálanefndar. Búið er að gefa út heila skýrslu þar sem þetta er allt saman rakið.

Að halda því fram að ekki hafi verið haft nægt samráð er algjörlega fráleitt. Það er hvorki meira né minna en fráleitt. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér hvernig staðið hefur verið að sambærilegum málum í fortíð. Ef hv. þingmaður vill að unnið sé með einhverjum öðrum hætti en að upplýsa hv. utanríkismálanefnd þannig að hún geti brugðist við, og geti komið með sínar athugasemdir og spurningar o.s.frv., verður hann að útskýra mál sitt nánar hvað það varðar.

Varðandi tækifærin þá hafa ekki bara ég og frændi hennar Ágústu, Boris Johnson, talað um tækifærin. [Hlátur í þingsal.] Ég vek athygli á því að allir sem það hafa skoðað, t.d. núverandi formaður Viðreisnar og varaformaður, hafa talað um hin augljósu tækifæri sem felast í því ef við semjum við Breta (Forseti hringir.) eftir að þeir fá viðskiptafrelsi sitt aftur.

Síðan er það í okkar höndum hvort við nýtum þessi tækifæri með Bretum, í framtíðarsamningi. Og það væri bara gaman, virðulegi forseti, að fara sérstaklega yfir það seinna.