149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

loðnubrestur og samningur við Færeyinga.

[14:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem felst í þessum samningi eru sambærileg ákvæði og verið hafa í þeim árssamningum sem gerðir hafa verið. Þetta snýst um veiðar okkar á kolmunna og 1.300 tonnum af makríl í færeyskri lögsögu. Þeir hafa síðan gagnkvæmar heimildir til að veiða kolmunna og síld í lögsögu okkar. Það tengist þeim ákvæðum sem hv. þingmaður spyr um varðandi heimildir Færeyinga til að landa hér. Þeir mega landa hér kolmunna og síld, og loðnu ef svo ber undir, af okkar hálfu. En Færeyingar hafa að sumu leyti sérstakar reglur og við gerum ekki kröfu um að þeir breyti löggjöf sinni vegna þessa.

Kolmunnaheimildir okkar eru allt í allt um 260.000 tonn. Við tökum aðeins 70.000–80.000 tonn í alþjóðasjónum svokallaða, vestur af Írlandi, og gerum ráð fyrir því að taka að hámarki 150.000–160.000 tonn, eða svo, í færeyskri lögsögu.

Þannig að þetta er okkur gríðarlega nauðsynlegt og sömuleiðis Færeyingum að fá þær botnfisksheimildir sem við afhendum þeim í þessum samningi sem nema (Forseti hringir.) alls um 5.600 tonnum.