149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[14:27]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka upp þetta mjög svo víðfeðma og brýna málefni sem hér er og eins þakka ég ráðherra fyrir hennar framlag. Af því að málshefjandi óskar að rætt verði um neytendavernd á fjármálamarkaði sérstaklega hef ég kynnt mér ýmsa dóma frá umliðnum árum sem snerta þetta efni. Ég hef notið aðstoðar Hagsmunasamtaka heimilanna sem búa að sérþekkingu á þessu sviði. Dómarnir eru frá öllum dómstigum, héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti. Skemmst er frá því að segja að þessi litla rannsókn, herra forseti, leiðir í ljós að það er býsna þungt undir fæti hjá þeim sem vilja sækja rétt sinn byggðan á ákvæðum laga um vernd neytenda.

Vissulega finnst í því dómasafni sem ég hafði tækifæri til að kynna mér einn dómur þar sem ákvæði um neytendarétt réðu úrslitum neytendum í hag. Þetta var í Hæstarétti á árinu 2016. Þá voru reyndar liðin átta ár frá hruni og fyrsti dómurinn þarna er frá 2010 og hefði náttúrlega breytt miklu fyrir eftirleik hrunsins ef hann hefði farið á annan veg. Um það má náttúrlega segja ef og hefði.

Þau ákvæði sem helst er um að ræða hér eru m.a. lög um fasteignalán til neytenda, lög um neytendalán og náttúrulega samningalögin, 36. gr. Ég ætla að leyfa mér að segja að það er fullt tilefni til að endurskoða ákvæði laga um vernd neytenda (Forseti hringir.) og ég leyfi mér að benda á 33. gr. samkeppnislaga í því sambandi sem mætti nota sem fyrirmynd.