149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[14:30]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir að vekja máls á þessum mikilvæga málaflokki og þjóðfélagshópi sem oft gleymist. Neytendur eru í rauninni bara annað nafn á almenningi.

Manni virðist stundum sem íslensk stjórnmál snúist meira en góðu hófi gegnir um að styðja framleiðendur varnings til sjávar og sveita um leið og hagsmunir almennings eru fyrir borð bornir, þ.e. fólksins sem þarf að kaupa þennan varning á verði sem furðugóð sátt virðist iðulega ríkja um á markaði.

Stundum finnst manni eins og nánast sé litið á íslenska neytendur sem nokkurs konar veiðistofn frekar en fólk sem getur valið og hafnað, hvað þá beitt afli sínu til að sniðganga vörur sem er verðlögð of hátt.

Á dögunum var haldin ráðstefna Neytendasamtakanna og verðlagseftirlits Alþýðusambandsins um matarverð. Þar kom m.a. fram að 66% dýrara er að reka heimili á Íslandi en í Evrópusambandinu. Þetta kom fram í erindi Gylfa Magnússonar hagfræðings. Hann nefndi þar sérstaklega þá furðulegu staðreynd að fiskur er dýrari á Íslandi en t.d. í Ungverjalandi og Tékklandi sem eru inni í miðri Evrópu. Almennt er fiskur um 8% dýrari hér á landi en í ESB.

Hvað veldur því að ein helsta fiskveiðiþjóð í heimi býr við slíkt verðlag? Það er ekki hægt að kenna flutningskostnaði um og ekki heldur tollum. Gylfi tekur þetta sláandi dæmi um vörur sem eftir öllum sólarmerkjum að dæma ættu að vera ódýrari hér en a.m.k. í miðri Evrópu. Verði á innfluttri vöru er svo haldið uppi til samræmis við þetta með verndartollastefnu (Forseti hringir.) til að tryggt sé að íslenskur almenningur njóti ekki hagkvæmni stærri markaðar, heldur sé áfram veiðistofn.