149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[14:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég ætla að taka aðallega tvennt til umræðu í þessum risavaxna málaflokki. Ég og hv. málshefjandi vorum í hópi sem skilaði af sér þingsályktunartillögu í ágúst 2016 sem ekki hlaut afgreiðslu á þingi. Ég vona að þingsályktunartillagan sé undirliggjandi í allri vinnunni sem er í ráðuneytinu og fagna því að endurskoðun á regluverkinu sé í gangi. Ég ætla að taka hér fyrir smálán og síðan ætla ég að tala um merkingar matvæla.

Niðurstaða þess starfshóps sem hæstv. ráðherra talaði um skilaði þeirri niðurstöðu að smálánin væru ólögleg og væru það sem ylli hvað mestum vanda hjá neytendum.

Talað er um að skerpa á því að lögin í hverju landi gildi, þ.e. þar sem smálán eru veitt yfir landamæri, og að skoðað sé hvort ástæða sé til að takmarka afgreiðslu ákveðinna neytendalána á tilteknum tíma sólarhrings og hvort takmarka eigi beina og ágenga markaðssetningu á fjarskiptamiðlum.

Við þekkjum það. Það er eitt fyrirtæki hér sem býður upp á smálán, þ.e. Ecommerce, sem þó er skráð í Danmörku.

Það er gríðarlega mikið áreiti á ungt fólk í gegnum SMS þar sem er verið að bjóða lán gegn litlum og einföldum kostnaði, en það gleymist oft að hugsa málið til enda.

Mig langar til þess að varpa því til hæstv. ráðherra og spyrja — af því að greiningin á umsækjendum um úrræði frá umboðsmanni skuldara er sú að þar sé unga fólkið undir. Þessi lánafyrirtæki borga ekki þangað inn eins og fjármálastofnanir. — Þetta er náttúrlega allt of lítill tími.

Merkingar matvæla. Þar mundi ég vilja sjá að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun um neyslu, um upplýsingar sem eiga að vera aðgengilegar. Umhverfisfótspor gosdrykkja er t.d. ekki ýkja mikið enda er það aðallega sykur og vatn, en það er svo sem ekki fæða sem við lifum á. Við vitum að (Forseti hringir.) loftslagsmálin eru stór uppspretta losunar. Við þurfum að stefna í átt að því að kolefnisfótspor (Forseti hringir.) matvæla sé merkt í verslunum. Það er skref í því að setja kröfu um að neytendum sé ljóst (Forseti hringir.) t.d. hvort matvæli hafi verið flutt með skipi eða flugi marga kílómetra (Forseti hringir.) frá uppruna til verslunar o.s.frv. Ég vísa til Danmerkur varðandi þessi mál.