149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[17:54]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við erum alveg sammála um að óhófleg neysla á öllu þessu sem við höfum verið að ræða um er auðvitað af hinu slæma, en hóflega neysla er æskileg. Ég ræddi einmitt í ræðu minni um hóflega neyslu áfengis.

En þetta með tóbakið stemmir hins vegar ekki vegna þess að við höfum takmarkað aðgengið að tóbaki. Það er búið að fela tóbakið. Það er ekki til nema ein sérverslun á öllu Íslandi með tóbak. Og fleira og fleira. Það er búið að merkja tóbaksvörur. Þannig að það gildir bara ekki. Við erum og höfum verið að vinna í að takmarka notkun tóbaks en ekki að auka aðgengi að því.

Það er líka verið að reyna að taka á sykurneyslu með svona jákvæðum hætti, ef við getum orðað það þannig, vegna þess að þetta er jú fæða sem hefur verið hér aðgengileg og er hvorki hægt að líkja saman við tóbak né áfengi. (Forseti hringir.) Þessi umræða leiðir okkur ekki að réttri niðurstöðu.