149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[17:55]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég er á þessu frumvarpi fyrir utan það að vilja leyfa fólki að taka ákvarðanir um sína eigin neyslu, sama hvort það eru vímuefni eða hvað, í þessu tilfelli áfengi, sem skaðar það sjálft — annað er að sjálfsögðu forræðishyggja, forræði yfir einstaklingnum og passa að hann skaði ekki sjálfan sig, sem sumum finnst að sé eitthvað sem skuli gera — er sú að ég get líka séð að hér er fimmföld aukning á fjármagni frá ríkinu, sem er tekið frá þeim sem neyta áfengis, og sett fimmfalt meira í lýðheilsusjóð af áfengisgjaldinu.

Samkvæmt SÁÁ eru það 2,5% af fólkinu okkar, okkar allra veikasta fólki, sem drekka 26% af heildarmagninu. Þetta er skattur á það fólk. (Forseti hringir.) Það fólk þarf einmitt meira fjármagn fyrir meðferðarúrræði. Við þurfum meira fjármagn í forvarnir. (Forseti hringir.)Ég get farið yfir það betur í ræðu á eftir en að ég tel að heildaráhrifin af þessu, jafnvel þótt neyslan aukist, séu jákvæð af því að það fer (Forseti hringir.) aukið fé í forvarnir og meðferðarmál.

(Forseti (ÞorS): Nú verður forseti að biðja þingmenn að virða tímamörk.)